29. apr. 2010 : AUS skiptinemi í Dvöl

Á þeim árum sem Dvöl hefur starfað hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg skiptanemasamtök, verið þar. Þetta hefur mælst vel fyrir meðal gesta og aukahönd er vel þegin af starfsfólki. Nú í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová. Hún er 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

Ráchel segir: ,,Ég er mjög hrifin af Íslandi, náttúran er ofsalega falleg og svolítið villtari en í Slóvakíu. Fólkið á Íslandi er mjög lífsglatt og allir hafa tekið mér opnum örmum, sem ég kann vel að meta. Það er frábært hvað Íslendingar tala góða ensku, því þá er auðvelt að fá upplýsingar og eiga samskipti. Ég er samt búin að læra nokkur orð í íslensku og mun fara á íslenskunámskeið í sumar þar sem ég vonast eftir að læra svolítið meira. Ég bý í Mosfellsbænum og finnst andrúmsloftið þar mjög afslappað og gott. Það á mjög vel við mig að búa í litlu bæjarfélagi því það minnir mig á heimabæ minn Nesvady sem er 5000 manna bær. Ég vonast til að geta ferðast aðeins um Ísland í sumar og skoðað þetta fallega land.  

27. apr. 2010 : Landsfundur Ungmennahreyfingarinnar

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins (URKÍ) var haldinn laugardaginn 26. apríl síðastliðinn. Að lokinni skýrslu stjórnar og umræðum um fjárhags- og framkvæmdaáætlun tóku við fjörugar stjórnarkosningar þar sem fjöldi fólks var í framboði. Ekki stóð til að kjósa formann en Pálína Björk Matthíasdóttir ákvað á fundinum að segja af sér formennsku vegna þess að hún er í námi erlendis. Eru hennar færðar góðar þakkir fyrir framlag sitt til URKÍ.

Stjórn URKÍ árið 2010-2011 verður þannig skipuð:
Aðalmenn: Ágústa Ósk Aronsdóttir formaður, Margrét Inga Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Auður Ásbjörnsdóttir, Arna Garðarsdóttir og Guðný Halla Guðmundsdóttir. Varamenn: Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Hrönn Björgvinsdóttir.

26. apr. 2010 : Sjálfboðaliðar hreinsa til við bæina undir Eyjafjöllum

Á fimmta tug sjálfboðaliða Rauða krossins brást við með stuttum fyrirvara þegar leitað var til þeirra um aðstoð við hreinsunarstörf í gær við bæina undir Eyjafjöllum sem urðu hvað verst úti í öskufallinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Verkefnin fólust helst í að hreinsa ösku í kringum íbúðarhús og í görðum eða hvað annað sem bændur óskuðu eftir.

Óhætt er að segja að mikið verk blasti við hreinsunarfólki þegar það mætti á svæðið en það var ólýsanleg ánægja að sjá umhverfið lýsast upp og grænka þegar öskuleðjunni var mokað og sópað í burtu. Þakklæti heimamanna var svo stærsta umbunin og dagsverkið með því mest gefandi sem sjálfboðaliðar hafa færi á að takast á við.
 

26. apr. 2010 : Textíll til góðs í Salaskóla

Nokkrir nemendur úr Salaskóla færðu Kópavogsdeild gjöf á dögunum er þeir afhentu fatnað sem þeir útbjuggu í valáfanga í skólanum sem kallast ,,Textíll til góðs“. Nemendurnir prjónuðu og saumuðu svo sannarlega til góðs í samstarfi við deildina. Þeir prjónuðu ungbarnahúfur ásamt því að sauma teppi, peysur og buxur. Afraksturinn fer síðan í svokallaða ungbarnapakka sem deildin sendir til barna í neyð erlendis. Pakkar sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands.

21. apr. 2010 : Námsaðstoð í boði fyrir framhaldsskólanemendur

Frá  21. apríl til 10. maí býður Kópavogsdeild upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri í Molanum, ungmennahúsi að Hábraut 2 í Kópavogi.

Í Molanum er opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en dagana 21. apríl, 28. apríl, 5. maí og 10. maí kl. 17-19 verða sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild á staðnum. Þar munu þeir veita þeim sem vantar sérstaka leiðsögn í stærðfræði en sjálfboðaliðarnir búa allir yfir góðri þekkingu í því fagi. Öll aðstaða undir slíka aðstoð er til fyrirmyndar í Molanum.

19. apr. 2010 : Einingarnar bara bónus

Kópavogsdeild Rauða krossins hélt handverksmarkað á laugardaginn. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda sem sitja áfanga um sjálfboðið Rauða kross-starf í MK. Greinin birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 17. apríl sl.

19. apr. 2010 : MK-nemar seldu fyrir 250 þúsund á handverksmarkaðinum á laugardaginn

Margir lögðu leið sína í sjálfboðamiðstöðina á laugardaginn og gerðu góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, sumargjafir og handverk frá vinadeild Kópavogsdeildar í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 250 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

17. apr. 2010 : Handverksmarkaður í dag, laugardag!

Handverksmarkaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag og þar er hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá er einnig til sölu handverk frá Mósambík eins og batik-myndir, skartgripir og töskur. Einnig er hægt að gera góð kaup á kökum og brjóstsykri sem hafa verið búnir til sérstaklega fyrir markaðinn. Lyklakippur sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu.

15. apr. 2010 : Undirbúningur fyrir handverksmarkað í fullum gangi

Undirbúningur fyrir handverksmarkaðinn sem haldinn verður hjá Kópavogsdeild á laugardaginn gengur vel. Í síðustu viku föndruðu Enter-krakkarnir lyklakippur úr þæfðri ull og skemmtu sér vel við það. Í dag taka svo Eldhugarnir til við að búa til brjóstsykur líkt og þeir hafa gert fyrir undanfarna markaði. Á morgun mæta svo nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi til þess að setja upp markaðinn og verðmerkja en markaðurinn og umsjón hans er lokaverkefni þeirra í áfanganum um sjálfboðið starf. Auk þess munu nemendurnir útbúa veglegar kökukræsingar til að selja á markaðinum.

14. apr. 2010 : Samvera heimsóknavina í gær

Mánaðarleg samvera heimsóknavina var haldin í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Samverur fyrir heimsóknavini eru haldnar annan þriðjudag í hverjum mánuði og eru hugsaðar sem tækifæri fyrir heimsóknavini til að eiga ánægjulega stund saman. Reglulega er boðið upp á ýmis konar fræðslu eða erindi og í gær kom Sigurður Erlingsson í heimsókn. Hann heldur úti vefsíðunni velgengni.is og hélt erindi um jákvæðni, sjálfstyrkingu og velgengni.  Hann ræddi meðal annars um útgeislun, sjálfstraust og samskipti og höfðu heimsóknavinirnir gaman af. Þeir geta vonandi nýtt sér þetta ásamt því að miðla inntakinu til gestgjafa sinna.

12. apr. 2010 : Handverksmarkaður á laugardaginn 17. apríl

Kópavogsdeildin heldur handverksmarkað á laugardaginn 17. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag eins og fallegar sauma- og prjónavörur á allan aldur. Kökur og heimagert góðgæti verður einnig til sölu og þá verður selt föndur - lyklakippur og brjóstsykur - sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir og batík-myndir. Allur ágóði af sölunni rennur til verkefna innanlands.

9. apr. 2010 : Laus pláss á námskeiðið Börn og umhverfi

Deildin heldur þrjú Börn og umhverfi námskeið í maí og júní. Það fyrsta er 3.-6. maí, annað er 17.-20. maí og það þriðja 31. maí til 3. júní. Enn eru laus pláss á námskeiðin og hægt er að skrá sig með því að smella hér.  

Námskeiðin eru ætluð ungmennum á 12. aldursári eða eldri sem gæta yngri barna. Farið er í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysabætur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

7. apr. 2010 : Sjálfboðaliðum deildarinnar boðið að sjá Harry og Heimi

Fjöldi sjálfboðaliða deildarinnar nýtti sér boðsmiða frá Borgarleikhúsinu á dögunum og sá leikritið Harry og Heimir. Deildin þakkar leikhúsinu fyrir þessa rausnarlegu gjöf en með henni gat hún umbunað sjálfboðaliðum sínum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt. Starf sjálfboðaliðanna skilar árangri og veitir þeim ánægju sem njóta aðstoðar þeirra. Sú ánægja er gagnkvæm. Kópavogsdeild leitast við að skapa sjálfboðaliðum sínum áhugaverð störf og umbuna þeim meðal annars með skemmtilegum uppákomum eins og leikhúsferðum með reglulegu millibili.