31. maí 2010 : Sjálfboðaliðar pakka 226 fatapökkum, prjónakonur í Sunnuhlíð gáfu 82 teppi

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag pökkuðu 226 fatapökkum í síðustu viku sem sendir verða til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Í pakkana fóru prjónaflíkur sem sjálfboðaliðarnir hafa útbúið síðustu mánuði en prjónakonur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð komu einnig að pökkuninni með því að gefa deildinni 82 teppi og 6 peysur sem þær höfðu prjónað síðasta árið. Pakkarnir geyma prjónaðar og saumaðar flíkur á 0-12 mánaða gömul börn.

28. maí 2010 : Kópavogsdeild styrkir Fjölsmiðjuna um 250 þúsund krónur

Kópavogsdeild afhenti Fjölsmiðjunni 250 þúsund króna styrk á dögunum vegna flutnings smiðjunnar í nýtt og stærra húsnæði í Kópavogi. Fjölsmiðjan er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja nemana til þess að komast á ný til náms eða í vinnu.

26. maí 2010 : Ókeypis námskeið fyrir börn í júní og ágúst

Kópavogsdeild heldur tvö ókeypis í sumar. Námskeiðið „Gleðidagar – ungur nemur gamall temur“ verður dagana 14., 15., 16. og 18. júní og er fyrir 6-12 ára börn á höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og er markmiðið að þeir yngri læri af þeim eldri. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

Námskeiðið „Mannúð og menning“ fyrir börn á aldrinum 7-9 ára (fædd 2001-2003) verður haldið 3.-6. ágúst. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um Rauða kross starf, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

21. maí 2010 : Eldhugablaðið „Eldhuginn Magazine” er komið út!

Í gær héldu Eldhugar útgáfuteiti í tilefni útgáfu Eldhugablaðsins sem ber titilinn „Eldhugar Magazine”. Teitið var haldið á landsskrifstofu Rauða kross Íslands og heppnaðist mjög vel en Eldhugar höfðu einnig boðið öðrum ungmennum úr starfi deilda á höfuðborgarsvæðinu. Það voru því skemmtilegir endurfundir enda höfðu margir kynnst vel í Alviðruferðinni í mars.

Byrjað var á því að bjóða gestum upp á léttar veitingar, farið var í ýmsa skemmtilega leiki og svo fékk allur hópurinn leiðsögn um húsið og fræðslu um starfsemi landsskrifstofu. Þá dreifðu Eldhugarnir blaðinu til allra viðstaddra og sögðu frá tilurð þess en allur efniviður blaðsins er unninn af Eldhugunum sjálfum og sjálfboðaliðum. Hulda Hvönn Kristinsdóttir Eldhugi tók einnig að sér yfirumsjón með efnisþáttum blaðsins í samstarfi við starfsmenn deildarinnar. Í blaðinu má meðal annars finna viðtöl, ljóð og myndir úr starfinu í vetur. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér.

20. maí 2010 : Sjálfboðaliðar í kirkjuferð með heimilisfólk í Sunnuhlíð

Á uppstigningardag var farin hin árlega kirkjuferð með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð. Þá er fólkinu boðið í messu í Kópavogskirkju í tilefni af kirkjudegi aldraðra sem er þennan sama dag. Sjálfboðaliðar deildarinnar sem sjá um upplestur og söngstundir í Sunnuhlíð fara í ferðina og aðstoða fólkið á leiðinni. Eftir messu er svo boðið upp á kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar. Að þessu sinni fóru um 40 manns í ferðina og 6 sjálfboðaliðar.

19. maí 2010 : Vorferð barna og unglinga

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð en um 20 börn auk 4 sjálfboðaliða frá Kópavogsdeild tóku þátt í ferðinni að þessu sinni. Hópurinn frá Kópavogsdeild var mjög fjölþjóðlegur eða frá 6 þjóðlöndum.

Ferðinni var heitið út í Viðey og þar tók Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess. Eftir að hópurinn hafði hlaupið um eyjuna þvera og endilanga í leit að vísbendingum var komið að því að gæða sér á pylsum sem runnu ljúflega niður í svanga maga. Þá var ekki seinna vænna en að bregða á leik áður en bátnum var náð og aftur siglt heim á leið.

18. maí 2010 : Sjálfboðaliðar kynntu verkefni deildarinnar á aðalfundi Rauða kross Íslands

Á aðalfundi Rauða kross Íslands 15. maí síðastliðinn kynntu sjálfboðaliðar deildarinnar verkefni hennar. Kynningarbásarnir voru þrír og kynntu sjálfboðaliðarnir Alþjóðlega foreldra, ungmennastarfið og heimsóknir með hunda. Þurý Ósk Axelsdóttir sá um að segja fundargestum frá alþjóðlegu foreldrunum, Sæunn Gísladóttir úr Plúsnum sá um ungmennastarfið og Njála Vídalín, heimsóknavinur með hundinn Lottu, kynnti starf hundavina. Fundargestir gátu fengið sér bæklinga um verkefnin og skoðað myndir úr starfinu.

18. maí 2010 : Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

Á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Reykjavík þann 15. maí síðastliðinn var endurnýjaður samningur deilda á höfuðborgarsvæði varðandi neyðarvarnir. Deildir á höfuðborgarsvæði skrifuðu fyrst undir slíkan samning fyrir fimm árum með það að markmiði að efla samvinnu deildanna svo þær geti betur brugðist við neyðarástandi á svæðinu. Nokkrar breytingar voru gerðar frá fyrri samningi og má þar helst nefna stofnun skyndihjálparhóps sem mun meðal annars hafa það hlutverk að efla og kynna skyndihjálp á svæðinu.

17. maí 2010 : Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

12. maí 2010 : Fjöldi framhaldsskólanemenda nýtti sér ókeypis námsaðstoð

Kópavogsdeild bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri  nú yfir prófatímann í samstarfi við Molann, ungmennahús Kópavogs. Molinn heldur úti opinni lesaðstöðu fyrir nemendur alla virka daga frá miðjum apríl en einu sinni í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í stærðfræði, á staðnum. Auk þess gátu nemendur óskað eftir aðstoð í öðrum fögum. Tilgangur verkefnisins er að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann. Námsaðstoðin hlaut mjög góðar móttökur líkt og áður. Mæting nemenda í lesverið jókst til muna og fjöldi nemenda mætti í hvert sinn í beinum tilgangi að nýta sér leiðsögn sjálfboðaliðanna.

11. maí 2010 : Eldhugar taka þátt í Kópavogsdögum

Sýning á ljósmyndum úr ljósmyndasamkeppni Eldhuga, 13-16 ára unglinga úr ungmennastarfi Kópavogsdeildar, stendur nú yfir í anddyri þjónustuvers bæjarskrifstofu Kópavogs, að Fannborg 2, 1. hæð. Tilefnið er Kópavogsdagar og fellur sýningin undir menningu barna og ungmenna. Yfirskrift ljósmyndasamkeppninnar var „Fjölbreytni og fordómar" og markmiðið með henni var að vekja fólk til umhugsunar um fordóma í samfélaginu. Deildinni bárust margar myndir og á sýningunni má skoða myndirnar sem komust í efstu sætin.

8. maí 2010 : Alþjóðadagur Rauða krossins

Í dag, 8. maí, er alþjóðadagur Rauða krossins. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hreyfingarinnar, Henry Dunants, og er fyrst og fremst helgaður öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan.  Sjálfboðaliðar hreyfingarinnar vinna mörg og ólík verkefni en alltaf með sömu hugsjónir og markmið að leiðarljósi.

Hreyfingin spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits og reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga, eins og Rauða krossi Íslands, að koma í veg fyrir og lina þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

7. maí 2010 : Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK fá viðurkenningu

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 hafa hlotið viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild á vorönninni. Nemendurnir voru þrettán í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum og Enter-krökkunum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 17. apríl síðastliðinn.

5. maí 2010 : Vetrarstarf Plússins

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

3. maí 2010 : Sjálfboðaliðar á leiksýninguna Gerplu

Fjöldi sjálfboðaliða nýtti sér boð Þjóðleikhússins á leiksýninguna Gerplu. Hægt var að velja um þrjár sýningar og alls fóru 45 sjálfboðaliðar á sýningarnar þrjár. Deildin þakkar leikhúsinu fyrir þessa rausnarlegu gjöf en með henni gat hún umbunað sjálfboðaliðum sínum.