28. jún. 2010 : Heilsuhópur Takts fór í Esjugöngu

Heilsuhópur Takts – Ungt fólk til athafna fór á dögunum í gönguferð upp á Esju. Það var góð stemming í hópnum og eftir fjallgönguna endaði ferðin á því að farið var í heita pottinn í Nauthólsvík til að ná úr sér þreytunni.

Heilsuhópurinn er einn af fjölmörgum hópum í virkniverkefninu Taktur. Einnig er boðið uppá mömmuhóp, prjónahóp, myndlistarhóp, hönnunarhóp, heimildamyndagerð, íslenskukennslu og margt fleira. Síðan eru ótal sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins sem unga fólkið hefur valið sér og tekið þátt í.

24. jún. 2010 : Móri og aska í sumarferð Dvalar

Fyrst lá leiðin á Selfoss þar sem ferðalangarnir stoppuðu og fengu sér pylsu og annað góðgæti. Þá var farið í Fljótshlíðina á Njáluslóðir en einn ferðalanganna reyndist hinn prýðilegasti leiðsögumaður og gat hann bent á helstu sögustaði Njálu og rifjað upp atburði sögunnar. Á Skeiðavegamótum á þjóðveginum heldur svo Skerflóðsmóri til en hann er draugur sem hoppar upp í bíla og tekur sér far með ökumönnum. Voru menn ekki frá því að móri hefði eitthvað látið finna fyrir sér í rútunni þegar farið var yfir gatnamótin.

22. jún. 2010 : Hnútabindingar á Gleðidögum

Börnin á námskeiðinu Gleðidagar, sem Kópavogsdeildin hélt í síðustu viku, lærðu ýmislegt nýtt og eitt af því voru hnútabindingar. Jóhann S. Birgisson, eða Boggi eins og hann er venjulega kallaður, kenndi börnunum að binda hnúta og búa til glasamottur og hálsmen úr þeim. Þetta er í annað skiptið sem Boggi leiðbeinir á námskeiðinu en hann tók einnig þátt í því í fyrra. Þá var haft samband við skátana og óskað eftir leiðbeinendum með sérkunnáttu. Boggi gaf kost á sér í hnútabindingarnar og hefur að eigin sögn haft mjög gaman að því að leiðbeina börnunum. „Þetta er fræðandi fyrir börnin og gaman fyrir þau að búa til eitthvað sem þau geta farið heim með“, segir Boggi.

18. jún. 2010 : Ókeypis ráðgjöf fyrir innflytjendur/free consult for immigrants

Pólsku- og enskumælandi sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar munu bjóða innflytjendum upp á ókeypis ráðgjöf mánudagana 21. og 28. júní kl. 12-14 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar að Hamraborg 11, 2. hæð. Markmið ráðgjafarinnar er að liðsinna innflytjendum með ýmis mál sem þá vantar mögulega aðstoð með og auðvelda aðgengi þeirra að upplýsingum, til dæmis varðandi dagvistunarmál, húsnæðismál og þá þjónustu sem í boði er.

16. jún. 2010 : Þriðja fréttabréf Kópavogsdeildar til vinadeildar í Mósambík

Kópavogsdeild er í vinadeildasamstarfi við deild Rauða krossins í Maputo-héraði í Mósambík. Sjálfboðaliðahópurinn sem haldið hefur utan um samstarfið fyrir hönd Kópavogsdeildar hefur nú sent frá sér þriðja fréttabréfið til vinadeildarinnar þar úti. Í bréfinu má finna upplýsingar um starf Kópavogsdeildar, fróðleik um Ísland og kynningu á nokkrum af þeim sjálfboðaliðum sem að samstarfinu hafa unnið síðustu misseri. Hægt er að lesa fréttabréfið á íslenskum með því að smella hér.

15. jún. 2010 : Námskeiðið Gleðidagar í fullum gangi

Kópavogsdeild heldur námskeiðið „Gleðidagar – ungur nemur gamall temur“ þessa vikuna. Námskeiðið er ókeypis og er fyrir 6-12 ára börn. Það er haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu eldri borgarar og er markmiðið að þeir yngri læri af þeim eldri. Í gær fengu börnin meðal annars leiðsögn varðandi ljósmyndun og framsögn. Í dag fara þau í heimsókn á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og læra um starfsemi þess.

11. jún. 2010 : Ungur sjálfboðaliði styrkir Rauða krossinn

Freyja Ósk Héðinsdóttir kom í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í dag og gaf Rauða krossinum 1.987 kr. Með þessu framlagi sínu vill hún hjálpa veikum börnum. Hún hafði beðið fjölskyldu sína um að aðstoða sig og þetta varð afraksturinn. Freyja var að klára 3. bekk í Kársnesskóla. Framlag hennar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

9. jún. 2010 : Gengu að Tröllafossi í góða veðrinu

Vaskur hópur gesta og starfsmanna úr Dvöl fór í göngu upp að Tröllafossi í Leirvogsdal á dögunum. Veðrið var gott, glampandi sól og hópurinn vel búinn. Þetta er mjög skemmtileg gönguleið og ekki erfið en gengið er eftir malarstíg nánast alla leið. Gangan tekur um einn og hálfan tíma í allt, fram og til baka. Fossinn var glæsilegur en til að komast að honum þarf að vaða yfir ána, svo gott er að hafa með sér töflur og lítið handklæði ef fólk hyggst fara yfir. Þegar búið var að skoða fossinn og vaða aftur yfir ána gæddu göngugarparnir sér á dýrindis samlokum og drykkjum og héldu síðan heim á leið.

8. jún. 2010 : Sjálfboðaliðar nutu veðurblíðu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þeir sungu saman og börnin fengu andlitsmálun.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


5. jún. 2010 : Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar á morgun, laugardag!

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar verður haldin 5. júní kl. 13-15 í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Vorgleðin er uppskeruhátíð sjálfboðaliða Kópavogsdeildar og ætlum við að fagna góðum starfsvetri og gleðjast saman í upphafi sumars. Það verður margt til gamans gert eins og spilað á gítar og sungið, farið í rúsínuspíttkeppni og grillað. Afþreying verður fyrir börnin og andlitsmálun.

4. jún. 2010 : Taktu til og leggðu Rauða krossinum lið í leiðinni

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land laugardaginn 5. júní í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ, í húsi Rauða krossins í Mosfellsbæ, og á móttökustöðum Eimskips Flytjanda úti á landsbyggðinni. Sjálfboðaliðar verða við fatagámana frá klukkan 13-17. Átakinu lýkur klukkan 17.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til hjá sér og koma gömlum fatnaði í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Fólki er bent á að nota tækifærið og koma með gömlu fötin, skóna, handklæði, rúmföt, gluggatjöld og jafnvel stöku sokkana því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru.

1. jún. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar í Grasagarðinum

Góður hópur alþjóðlegra foreldra átti skemmtilega stund saman í Grasagarðinum í síðustu viku. Hópurinn hittist fimmtudagsmorgna í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildarinnar en fer þó fljótlega í sumarfrí þannig að hann gerði sér dagamun í Grasagarðinum til tilbreytingar. Alls mættu um 15 foreldrar með börnin sín og gæddu sér á veitingum í góðu veðri.

Venjulega mæta um 10 foreldrar á hverja samveru og hefur myndast góð eining í hópnum. Hann hefur jafnvel skipulagt samverur utan hins hefðbundna tíma og farið í gönguferðir og prjónað saman. Á samverunum í sjálfboðamiðstöðinni er reglulega boðið upp á fræðslu eða kynningar sem tengjast börnum. Auk íslenskra foreldra eru þátttakendur frá Kína, Suður- Afríku, Japan, Póllandi, Ghana, Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.