31. ágú. 2010 : Líf og fjör í Hamraborginni

Kópavogsdeild Rauða krossins tók þátt í vel heppnaðri Hamraborgarhátíð sem haldin var í sól og blíðu á laugardaginn. Opið hús var hjá deildinni og gátu gestir kynnt sér starf og verkefni deildarinnar auk þess sem boðið var upp á kaffi og meðlæti. Sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra og seldu prjónavörur sjálfboðaliða og handverk frá vinadeild í Mósambík en ágóðinn, alls 27.500 krónur, rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka bænum fyrir skemmtilegt framtak og hlakkar til að taka þátt í hátíðinni að ári.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum deildarinnar geta haft samband við deildina í síma 554 6626.

27. ágú. 2010 : Opið hús á Hamraborgarhátíð

Kópavogsdeild verður með opið hús í húsnæði sínu laugardaginn 28. ágúst í tilefni af Hamraborgarhátíðinni. Hægt verður að kíkja í kaffi og kynna sér starf og verkefni deildarinnar kl. 13-17 í Hamraborg 11, 2. hæð. Þá verða einnig til sölu prjónavörur sjálfboðaliða en ágóðinn rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Ásamt Kópavogsdeild ætla menningarstofnanir, listamenn, íþróttafélög og fleiri að setja skemmtilegan svip á Hamraborgina þennan dag. 

26. ágú. 2010 : Verkefnið Föt sem framlag fékk góðan fjárstyrk

Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði og prjónakona, í verkefninu Föt sem framlag færði Kópavogsdeildinni í gær fjárstyrk að upphæð 263 þúsund krónur. Anna átti stórafmæli fyrr í sumar og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk um að styrkja verkefnið. Þetta varð afraksturinn og kemur hann sér einkar vel fyrir verkefnið.

Fjármagninu verður varið til kaupa á garni fyrir sjálfboðaliða verkefnisins. Anna var ein af fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu og hefur tekið þátt í því í yfir 20 ár. Deildin færir henni bestu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk.

25. ágú. 2010 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða - Vertu með!

Undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir hauststarf deildarinnar og vantar sjálfboðaliða í ýmis verkefni. Það vantar heimsóknavini í heimsóknaþjónustu, sjálfboðaliða til að vinna með innflytjendum og ungu fólki. Þá vantar sjálfboðaliða í námsaðstoð, athvarfið Dvöl og í átaksverkefni. Verkefnið Föt sem framlag er einnig í boði fyrir áhugasama.

23. ágú. 2010 : Prjónakaffi á miðvikudaginn

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittast miðvikudaginn 25. ágúst kl. 15-18 í prjónakaffi í húsnæði deildarinnar. Sjálfboðaliðarnir prjóna og sauma ungbarnaföt sem síðan eru send erlendis til barna og fjölskyldna í neyð. Þeir hittast síðasta miðvikudaginn í hverjum mánuði og eiga ánægjulega stund saman yfir prjónunum. Á staðnum verður garn og prjónar og nýir sjálfboðaliðar eru alltaf velkomnir í hópinn.

18. ágú. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Kópavogdeild í sumarbúðum í Finnlandi

Dagana 2.-8. ágúst fóru fjögur ungmenni fyrir hönd Rauða kross Íslands í sumarbúðirnar Herzi Camp en þær eru haldnar árlega í Finnlandi. Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, báðar 16 ára sjálfboðaliðar í Plúsnum, fóru frá Kópavogsdeild ásamt þeim Bjarna Haukssyni frá Suðurnesjadeild og Fanneyju Sumarliðadóttur frá Stykkishólmsdeild.

Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-29 ára, fötluðum sem ófötluðum og er markmið þeirra að auka víðsýni og færni fólks til að hjálpa einstaklingum með hamlanir. Um 45 manns dvöldu í búðunum frá fjórum löndum; Finnlandi, Íslandi, Egyptalandi og Kosovo.

16. ágú. 2010 : Fjöldi námskeiða á döfinni

Kópavogsdeild býður upp á hefðbundin námskeið í september og október og hér á síðunni er hægt að fá upplýsingar og skrá sig á þau. Þann 15. september verður almennt skyndihjálparnámskeið þar sem farið verður yfir grundvallaratriðið í skyndihjálp og endurlífgun. Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram 20. og 21. september. Þá verður meðal annars fjalla um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Námskeið í sálrænum stuðningi fyrir almenning verður svo 5. október og námskeið í sálrænum stuðningi fyrir sjálfboðaliða 11. október en þar fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

12. ágú. 2010 : Góður hópur vina styrkir Rauða krossinn

Vinirnir Herta Benjamínsdóttir, Freyja Ósk Héðinsdóttir, Aron Yngvi Héðinsson, Ásta Hind Ómarsdóttir, Lára Sigurðardóttir, Mjöll Ívarsdóttir, Kolka Ívarsdóttir, Katla Rut Róbertsdóttir Kluvers og Gísli Jón Benjamínsson héldu tombólu fyrir utan sundlaug Kópavogs í sumar og söfnuðu alls 6.768 kr. til styrktar Rauða krossinum. Þau eru öll í Kársnesskóla. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

9. ágú. 2010 : Vel heppnað námskeið Mannúð og menning

Deildin stóð fyrir námskeiðinu Mannúð og menning í síðustu viku fyrir börn á aldrinum 7-9 ára. Á námskeiðinu er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendurnir fræddust um Rauða kross starf, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið. Þá nýttu þau góða veðrið og fóru í leiki úti. Námskeiðinu lauk svo í Nauthólsvíkinni með góðri samveru.

4. ágú. 2010 : Styðjum Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni 21. ágúst

Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 21. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 23. ágúst með því að smella á hlaupastyrkur.is.

Til að skrá áheit þarf að smella á nafn hlaupara sem ætlunin er að heita á. Þá opnast síða hlauparans með upplýsingum um vegalengd, góðgerðafélag og jafnvel stuttum texta um það hversvegna hlaupari ætlar að hlaupa fyrir viðkomandi félag. Á síðu hlauparans er hægt að heita á hann með því að greiða með kreditkorti en einnig með því að senda áheita númer hans sem sms skilaboð. Upphæðin rennur síðan til þess góðgerðarfélags sem viðkomandi hlaupari valdi þegar hann skráði sig í hlaupið.

Hlaupum til góðs fyrir Rauða kross Íslands.

3. ágú. 2010 : Nærveran er gefandi

Gestum í athvarfinu Dvöl í Kópavogi líkar vel við tíkina Tinnu. Hundurinn er í eigu Þórðar Ingþórssonar forstöðumanns sem kom á óvart hve tímafrekt hundahald er. Greinin birtist í Morgunblaðinu 21.07.2010

„Hundar eru góðir fyrir geðheilsuna. Þetta er staðreynd sem bæði erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á og einnig er þetta eitthvað sem margir hafa sjálfir upplifað,“ segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar í Kópavogi, athvarfs sem Kópavogsdeild Rauða krossins og bæjaryfirvöld starfrækja í sameiningu.

Þórður kemur með hundinn sinn, tíkina Tinnu, til vinnu sinnar í Dvöl sérhvern dag. Tinnu og Dvalar-gestum kemur afar vel saman og eru gestirnir sammála um að nærvera hennar sé mjög gefandi á allan hátt.