30. sep. 2010 : Við erum ekki vön að láta okkar eftir liggja hér í Kópavogi!

„Nú treystum við á að bæjarbúar gangi til liðs við okkur eins og ávallt þegar við leitum eftir stuðningi“, segir Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar. Laugardaginn 2. október verður gengið til góðs í Kópavogi og er stefnt á að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum og þarf deildin því á mörgum sjálfboðaliðum að halda, eða um 350 talsins.

Söfnunarfénu verður varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

29. sep. 2010 : Von um betra líf - Malaví

Rauða kross Íslands styður malavíska Rauði krossinn við framkvæmd alnæmisverkefna á tveimur svæðum, annars vegar í Nkalo í Chiradzulu-héraði og hins vegar í Kanduku í Mwanza- héraði. Í Nkalo eru 96 þorp þar sem búa rúmlega 42 þúsund manns. Í Kanduku eru 48 þorp og um 35 þúsund manns sem njóta góðs af átaki Rauða krossins. Í Malaví styður Rauði kross Íslands meðal annars munaðarlaus börn til framfærslu og mennta. Börnin eru ekki tekin úr umhverfi sínu heldur er þeim gefinn kostur á að alast upp í þorpinu sínu. Máltíðin sem þau fá hjá Rauða krossinum er eina máltíð dagsins hjá sumum þeirra. 

28. sep. 2010 : Von um betra líf - Síerra Leone

Í Sierra Leone styður Rauði krossinn ungmenni til mennta eftir þátttöku í borgarastyrjöldinni sem var í landinu. Átökin komu í veg fyrir eðlilegan þroska þeirra á líkama og sál en sum þeirra misstu allt að fimm ár úr skóla. Strákarnir voru margir barnahermenn og stúlkurnar teknar sem kynlífsþrælar. Eitt ár í endurmenntunarstöðvum Rauða krossins er það tækifæri sem þau fá í lífinu.

Frá 2001 hefur fimm athvörfum verið komið á laggirnar þar sem börnin stunda almennt bóknám og einnig ýmis konar iðnnám. Þeim býðst að læra handbragð við ýmsar starfsgreinar, t.d. húsa- eða húsgagnasmíði, bakstur, saumaskap, sápugerð, hárgreiðslu og landbúnað. Þau fá einnig fræðslu um alnæmi og getnaðarvarnir.

27. sep. 2010 : Saman búum við til betri heim

Kópavogsdeild Rauða krossins skorar á fólk að gerast sjálfboðaliði í klukkustund laugardaginn 2. október og ganga til góðs fyrir landssöfnun Rauða krossins. Söfnunarfénu verður að þessu sinni varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku. Sérstaklega er um barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne að ræða. Í Malaví, þar sem verkefnin fara æ vaxandi, aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn.

24. sep. 2010 : Lífsleikninemar Menntaskólans í Kópavogi ganga til góðs

Kópavogsdeild tekur þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 2. október. Stefnt er að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum. Í ár verður safnað fyrir verkefni Rauða krossins í Afríku, sérstaklega barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne. Líkt og fyrri ár þarf á liðsinni fjölda sjálfboðaliða að halda og er það von deildarinnar að sem flestir í Kópavogi komi og leggi söfnuninni lið. Það var því mikið gleðiefni að sjá hversu margir nemendur sýndu landssöfnunni áhuga í kynningarfyrirlestrum sem sjálfboðaliðar og starfsmenn Kópavogsdeildar héldu í Menntaskólanum í Kópavogi í síðustu viku.

Allir nýnemar skólans sem sitja lífsleikniáfanga, eða 180 nemendur, sátu þessa fyrirlestra. Nemendunum var boðið að ganga til góðs sem hluta af námi sínu í lífsleikni. Þeir geta fengið gönguna metna sem eitt af verkefnum annarinnar, auk ánægjunnar sem felst í því að láta gott af sér leiða. Eina sem þau þurfa að gera er að mæta á söfnunarstöð, fá bauk og götu til að ganga í og svo skila þau bauknum aftur eftir 1-2 klukkutíma, endurnærð á líkama og sál.

23. sep. 2010 : Margir styrkja Rauða krossinn með tombólu

Mörg börn og ungmenni styrkja Rauða krossinn á hverju ári með því að halda tombólu og nýlega komu tveir vinahópar í húsnæði deildarinnar með afraksturinn af tombólu. Heiða Björk Garðarsdóttir, Ástrós Gabríela Davíðsdóttir og Aníta Björk Káradóttir héldu tvisvar tombólu fyrir utan Bónus í Ögurhvarfi og söfnuðu rúmum 7.000 kr. Þær höfðu safnaði dóti í Vatnsendahverfinu en gáfu líka eigið dót. Þær ákváðu að styrkja Rauða krossinn þar sem þær vildu styrkja gott málefni og þeim finnst hreyfingin vera að gera góða hluti um allan heim

Annar hópur hélt svo tombólu í sumar en hann safnaði líka um 7.000 kr. Það voru þau Kara Kristín Ákadóttir, Alex Rúnar Ákason, Emma Kristín Ákadóttir, Halla Rakel Long, Gunnhildur Jóa Árnadóttir, Hekla Margrét Árnadóttir og Elín Helena Karlsdóttir.

23. sep. 2010 : Hönnunarhópur Plússins

Nú er starf hönnunarhóps Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar fyrir 16-24 ára, komið á fullt skrið á nýju hausti. Á fyrstu samverunni fengu sjálfboðaliðarnir leiðsögn frá Marín Þórsdóttur sem kenndi þeim að útfæra skart og klæði úr notuðu efni. Þá sýndi hún þeim ýmsar vefsíður og hagnýtar upplýsingar sem hægt er að styðjast við þegar föndrað er. Á haustönn mun hópurinn miða að því að hanna og búa til vörur úr notuðum fötum og efnum og selja á handverksmarkaði deildarinnar sem haldinn verður 20. nóvember næstkomandi. Hópurinn hittist aðra hverju viku í húsnæði deildarinnar.

22. sep. 2010 : Vel sótt námskeið í skyndihjálp og Slys og veikindi barna

Deildin hélt nýlega námskeið í skyndihjálp og námskeiðið Slys og veikindi barna og voru þau bæði vel sótt. Full skráning var á skyndihjálparnámskeiðið og lærðu þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þeir sem sitja námskeiðið verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðið Slys og veikindi barna fjallar um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús.
Námskeiðið sálrænn stuðningur verður svo haldið þriðjudaginn 5. október.

20. sep. 2010 : Opið hús – dagskrá vikunnar

Deildin býður upp á fjölbreytta dagskrá í vikunni á opnu húsi og eru áhugasamir eindregið hvattir til að nýta sér það. Í dag er boðið upp á leikfimi með léttum æfingum sem allir ættu að geta gert. Síðan kemur fulltrúi frá VR og segir frá þeirri þjónustu sem verkalýðsfélagið býður atvinnuleitendum á skrá hjá sér. Á morgun, þriðjudag, verður svo handavinnustund þar sem fólk getur komið með föndrið sitt og hitt aðra áhugasama um föndur. Þá verður einnig námskeið í ræktun kryddjurta. Á föstudaginn verður svo fyrirlestur um hamingju og fjallað verður um tíu aðferðir til að auka hamingju sína. Einnig er boðið upp á ráðgjöf fyrir innflytjendur og ráðgjöf hjá atvinnumálafulltrúum Kópavogsbæjar. Á föstudaginn verður líka bingó. Allir eru velkomnir á opna húsið en ítarlegri dagskrá má finna með því að smella hér.

17. sep. 2010 : Enter og Eldhugar hittust í vikunni

Nú eru verkefni Kópavogsdeildar, Enter og Eldhugar, fyrir börn og unglinga farin aftur af stað eftir sumarfrí. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni og leik.

16. sep. 2010 : Fjölbreytt kynningar- og fræðslustarf hjá Kópavogsdeild

Síðustu vikur hefur verkefnastjóri ungmennamála ásamt sjálfboðaliðum sinnt öflugu kynningarstarfi í Kópavogi, bæði fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur. Þessa dagana er hann með sjálfboðaliðum Plússins að heimsækja alla lífsleiknema Menntaskólans í Kópavogi. Þá fá nemendur kynningu á starfi Rauða krossins, fordómafræðslu og HIV-forvarnir í tvöfaldri kennslustund í senn. Gert er ráð fyrir að með þessu muni fræðslustarf Plússins ná til allra nýnema innan menntaskólans.

14. sep. 2010 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Selma Margrét Gísladóttir og Júlíana Lind Guðlaugsdóttir komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar á dögunum og gáfu Rauða krossinum 5.500 kr. Þær höfðu haldið tombólu fyrir utan Kaupfélag Norðurfjarðar í sumar og varð þetta afraksturinn. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

13. sep. 2010 : Kynningarfundur í kvöld á verkefnum deildarinnar

Deildin verður með kynningarfund á starfi og verkefnum deildarinnar fyrir áhugasama í kvöld, 13. september kl. 18-19. Þá verður hægt að kynna sér hin ýmsu verkefni eins og heimsóknaþjónustuna, Föt sem framlag, ungmennastarfið, Nýttu tímann, neyðarvarnir, starf með innflytjendum, námsaðstoð og átaksverkefni. Um er að ræða verkefni sem henta körlum jafnt sem konum og fólki á öllum aldri. Þeir sem hafa áhuga geta gerst sjálfboðaliðar á staðnum.

10. sep. 2010 : Gestir Dvalar á myndlistarsýningu

Gestir og starfsmenn Dvalar fóru á dögunum og skoðuðu myndlistarsýningu sem Ágústhópurinn stendur fyrir í ráðhúsi Reykjavíkur þessa dagana. Ágústhópurinn samanstendur af fjórum myndlistarkonum og hefur ein þeirra leiðbeint á námskeiðum sem hafa verið í Dvöl, eins og saumanámskeiði fyrr á þessu ári. Meðal efnistaka í myndunum er ást, frelsi og lífsgleði. Allt sem getur gefið manni jákvæðan innblástur í dagsins önn.

7. sep. 2010 : Starfsmaður óskast

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands auglýsir eftir starfsmanni í 25% stöðugildi til sinna opnu húsi fyrir atvinnuleitendur í Kópavogi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Helstu verkefni:
• Umsjón með opnu húsi í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11
• Samskipti við gesti og sjálfboðaliða
• Þátttaka í viðburðum og öðrum verkefnum deildarinnar

Hæfniskröfur:
• Sjálfstæði, metnaður og  frumkvæði í starfi
• Framúrskarandi þjónustulund
• Góðir skipulagshæfileikar
• Góð samskiptahæfni og reynsla af mannlegum samskiptum
• Stúdentspróf eða önnur sambærileg menntun sem nýtist í starfinu

6. sep. 2010 : Nýttu tímann – opið Rauðakrosshús í Kópavogi

Deildin fer aftur af stað með verkefnið Nýttu tímann 13. september næstkomandi. Þá verður opið hús í húsnæði deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð, kl. 11-15 á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrirlestra, samveru, námskeiða og ráðgjafar. Hægt er að kynna sér dagskrána með því að smella hér. Fyrstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestur um hamingju, námskeið í ræktun kryddjurta og ljósmyndum ásamt útileikfimi. Allir eru velkomnir að koma í Rauðakrosshúsið í Kópavogi! 

1. sep. 2010 : Ungir sjálfboðaliðar

Sylvía Þorleifsdóttir afhenti í gær Kópavogsdeild Rauða krossins afrakstur tombólu sem hún hélt í Hamraborginni á laugadaginn. Sylvía naut aðstoðar systur sinnar og frænda en alls söfnuðust 2.200 krónur. Þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Framlagið rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.