29. okt. 2010 : Úrslit kunn í ljósmynda- og stuttmyndakeppni Eldhuga

Á samveru Eldhuga í gær fór fram verðlaunaafhending í ljós- og stuttmyndakeppni þeirra en þemað að þessu sinni var frjálst og útkoman fjölbreytt eftir því. Eldhugarnir Aníta Sif og Tanja Björk fengu verðlaun fyrir stuttmynd sína ,,Fíkniefni og forvarnir” en með henni vilja þær vekja jafningja sína til umhugsunar um skaðsemi fíkniefna og mikilvægi þess að standa sterkur með sjálfum sér. Hægt er að sjá stuttmyndina með því að smella hér. Tvenn verðlaun voru gefin fyrir ljósmyndir en þau fengu Anna Guðrún fyrir mynd sína um virðingu og Katrín fyrir mynd sína sem túlkar vináttu með skemmtilegu móti. Eldhugar höfðu fengið tilsögn frá sjálfboðaliða deildarinnar um helstu þætti í gerð slíkra mynda og það nýttist þeim greinilega vel við vinnuna.

27. okt. 2010 : Ingó veðurguð á sameiginlegri samveru ungmennastarfs

Sameiginleg samvera ungmenna í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu var haldin í síðustu viku í Rauðakrosshúsinu í Reykjavík. Þar hittust 13-16 ára unglingar sem taka þátt í ungmennastarfi Kópavogs, Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Mosfellsbæ. Slíkar samverur eru haldnar reglulega til að hrista hópana saman og má þar einnig nefna vorferð barna og ungmenna sem farin er á hverju vori og auk þess hafa ungmennin farið saman í ferð í Alviðru þar sem þau hafa fengið ýmis konar fræðslu um Rauða krossinn og mannréttindi.

21. okt. 2010 : Vinnufundur Kópavogsdeildar

Dagana 19.og 21. október hélt Kópavogsdeild vinnudaga þar sem farið var yfir helstu verkefni deildarinnar, verkefnin metin og ekki hvað síst var horft til framtíðar með tilliti til frekari tækifæra og þróunar. Á fundinn mættu stjórnarmenn, starfsmenn og sjálfboðaliðar deildarinnar. Markmið fundarins var að meta styrkleika og veikleika verkefnanna með tilliti til ýmissa þátta líkt og utanaðkomandi aðstæðna og þörfinni í samfélaginu. Auk þess var farið á hugarflug og margar góðar hugmyndir komu fram.
 

18. okt. 2010 : Neyðarmötuneyti Rauða krossins, Klúbbs matreiðslumeistara og MK

Rauði kross Íslands, Menntaskólinn í Kópavogi og Klúbbur matreiðslumeistara hafa gert með sér samstarfsamning um starfsemi neyðarmötuneyta Rauða krossins til að tryggja faglega umgjörð í framkvæmd og rekstri þeirra.  Neyðarmötuneyti eru meðal annars starfrækt tímabundið í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins, þjónustumiðstöðvum almannavarna og í aðstöðu fyrir hjálparlið í kjölfar náttúruhamfara eða annarra alvarlegra atburða.

Samningurinn verður undirritaður í Menntaskólanum í Kópavogi þriðjudaginn 19. október kl. 15:00.  Þar munu félagar í Klúbbi matreiðslumanna mæta í fullum skrúða og reiða fram veitingar í boði Menntaskólans í MK – hótels og matvælasviðs.

15. okt. 2010 : Ungir atvinnuleitendur heimsækja Enter

Enter-hópurinn fékk skemmtilega heimsókn þegar Trausti  Aðalsteinsson mætti til þeirra með fjölbreytt hljóðfæri og kynnti fyrir krökkunum. Trausti er þátttakandi í verkefninu Takti sem miðar að því að virkja unga atvinnuleitendur í sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins. Viðfangsefnin eru margvísleg og  heimsóknin í starf Enter var eitt af því sem Trausti hefur verið að sinna. Allir fengu tækifæri til að prófa hin ýmsu hljóðfæri líkt og ukulele, rafmagnsgítar, munnhörpu, harmonikku og fleira við góðar undirtektir. Þá lærðu krakkarnir ýmsan orðaforða í kringum tónlist og hljóðfæri.

14. okt. 2010 : Gestir Dvalar eiga hlut í Héðinsfjarðargangnatreflinum

Gestir Dvalar tóku þátt í að prjóna trefil, sem náðu í gegnum Héðinsfjarðargöngin, þ.e. nýju göngin á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Fríða Gylfadóttir listamaður á Siglufirði á heiðurinn af framtakinu og fékk hún yfir 1000 þátttakendur til liðs við sig og þar á meðal gesti Dvalar. Þeir voru stoltir þegar þeir skiluðu 35 metrum og vildu gjarnan vita hvort þetta sé ekki lengsti trefill í veröldinni.

13. okt. 2010 : Nemendur Menntaskólans í Kópavogi kynntu sér alþjóðastarf Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem kenndur er í Menntaskólanum í Kópavogi, fengu kynningu á alþjóðastarfi Rauða kross Íslands í vikunni. Verkefnastjóri alþjóðamála hjá Kópavogsdeild kynnti starfið en það er orðinn fastur liður í áfanganum að nemendur fái fræðslu um þetta málefni einu sinni á önn. Markmiðið er að veita nemendum innsýn í alþjóðaverkefni félagsins og að þau geti sett þau í samhengi við efnið sem fjallað er um í áfanganum. Eftir fræðsluna vinna svo nemendur verkefni og skýrslu.

8. okt. 2010 : Opið Rauðakrosshús þrjá daga í viku

Kópavogsdeild er með opið hús í húsnæði deildarinnar á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum kl. 11-15. Margt áhugavert er í boði þessa daga og er þátttaka ókeypis og opin öllum. Næstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestra um tilfinningagreind, Súdan og listina að lifa í núinu. Þá verða námskeið í hugleiðslu og betri tímastjórnun. Fulltrúi frá Umboðsmanni skuldara kemur í heimsókn til að fjalla um embættið og svara spurningum um þjónustu þess. Einnig verður boðið upp á handavinnu, tarotlestur, tölvuaðstoð, ráðgjöf og bingó. Hægt er að kynna sér dagskrána betur með því að smella hér.

6. okt. 2010 : Kópavogsbúar gáfu um 2 milljónir í Göngum til góðs

Í landssöfnun Rauða krossins síðastliðinn laugardag söfnuðust um 2 milljónir í Kópavogi. Ekki er komin heildartala fyrir allt landið en Kópavogsbúar geta verið stoltir af sínu framlagi. Gengið var í hús í öllum hverfum bæjarins og náðist að fara í um 80% húsa. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Malaví og Síerra Leóne þar sem áhersla er lögð á að bæta lífsgæði barna. Frekari upplýsingar um verkefnin má fá með því að smella hér fyrir Malaví og hér fyrir Síerra Leóne.

4. okt. 2010 : 289 sjálfboðaliðar tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi

Alls tóku 289 sjálfboðaliðar þátt í söfnuninni Göngum til góðs í Kópavogi á laugardaginn. 250 manns gengu í hús og þó að ekki hafi tekist að ganga í öll hús náðu sjálfboðaliðarnir að fara í stærsta hluta þeirra. Gengið var út frá 8 söfnunarstöðvum í bænum og sáu alls 14 sjálfboðaliðar um þær. 25 manns stóðu síðan vaktina á 6 fjölförnum stöðum eins og í Smáralind og á Smáratorgi. Sjálfboðaliðunum var flestum vel tekið og var fólk tilbúið að styrkja Rauða krossinn í þessari söfnun. 

Í ár verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

2. okt. 2010 : Takk fyrir stuðninginn!

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í landssöfnuninni Göngum til góðs. Framlag sjálfboðaliða er deildinni mikils virði. Þá þökkum við bæjarbúum fyrir góðar móttökur, framlag ykkar og stuðningur ykkar skiptir okkur miklu máli. Alls lögðu 289 sjálfboðaliðar söfnuninni lið í Kópavogi og gengu í  hús í bænum.

2. okt. 2010 : Göngum til góðs í dag!

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar og annarra deilda Rauða krossins ganga í hús um allt land með söfnunarbauka í dag til að safna fé til verkefna Rauða krossins í Afríku.

Söfnunarstöðvarnar Kópavogsdeildar opna kl. 10 í morgun en deildin er með átta söfnunarstöðvar í Kópavogi, Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, í Sundlaug Kópavogs, Digranesskóla, Snælandsskóla, Smáraskóla, Vatnsendaskóla, í Sundlauginni Versölum og Dvöl, Reynihvammi 43.  Þeir sem vilja ganga til góðs í Kópavogi eru hvattir til að mæta á einhverja af söfnunarstöðvum deildarinnar, skrá sig, fá söfnunarbauk og götu úthlutað og ganga af stað.  Þá eru sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar með söfnunarbauk á nokkrum fjölförnum stöðum í bænum.

1. okt. 2010 : Hvaða götu tekur þú?

Landssöfnun Rauða kross Íslands Göngum til góðs verður á morgun, laugardag, og er undirbúningur fyrir hana í fullum gangi hjá félaginu. Verkefnastjórar eru meðal annars að taka saman gögn fyrir söfnunarstöðvar og útbúa kort fyrir göngufólk. Þá er leitað til sjálfboðaliða deildarinnar með að manna söfnunarstaði, þ.e. fjölfarna staði í Kópavogi eins og Smáralind og Smáratorg, til að safna þar líka. Stefnt er að því að ganga í öll hús á landinu og þarf Rauði krossinn því á 3.000 sjálfboðaliðum að halda. Hvaða götu ætlar þú að taka?