29. nóv. 2010 : Kópavogsdeild tók þátt í aðventuhátíð á Hálsatorgi

Á laugardaginn var tók Kópavogsdeild þátt í aðventuhátið Kópavogsbæjar sem haldin var á Hálsatorgi. Þar buðu sjálfboðaliðar deildarinnar upp á heittu kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stóð og ljósin voru tendruð á jólatrénu. Eldhugar úr unglingastarfi deildarinnar tóku einnig þátt í hátíðinni og sáu meðal annars um að ferja kakó á milli staða, dreifa bæklingum og gefa piparkökur.

Margir þáðu kakósopann með þökkum og styrktu deildina með framlagi eða skráðu sig til að kynnast frekar starfi deildarinnar. Þá var fjölbreytt dagskrá í boði á Hálsatorgi, kór Kársnesskóla söng og jólasveinar kíktu í heimsókn.

26. nóv. 2010 : Kakó á Hálsatorgi á morgun, laugardag

Á morgun, laugardaginn 27. nóvember kl. 16-17, verða sjálfboðaliðar deildarinnar á Hálsatorgi þegar kveikt verður á jólatré Kópavogs. Þeir verða með heitt kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stendur og tendrað verður á ljósunum á trénu.

25. nóv. 2010 : Námsaðstoð í nóvember og desember

Kópavogsdeild býður upp á ókeypis námsaðstoð yfir prófatímann fyrir framhaldsskólanemendur. Aðstoðin fer fram í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs að Hábraut 2.Á milli klukkan 17 og 19 dagana 29. nóvember, 1. desember, 2. desember og 7. desember munu sjálfboðaliðar sem búa yfir góðri sérþekkingu í stærðfræði vera til aðstoða fyrir þá sem þurfa.

Einnig er hægt að óska sérstaklega eftir aðstoð í öðrum fögum með því að hafa  samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected].

23. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur pakka jólagjöfum fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs

Ungir atvinnuleitendur af höfuðborgarsvæðinu hafa nýlega aðstoðað Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og pakkað inn jólagjöfum fyrir jólaúthlutunina í desember. Þessir atvinnuleitendur taka þátt í verkefni hjá Rauða krossinum þar sem blandað er saman atvinnuleit og sjálfboðaliðastarfi. Fimm sjálfboðaliðar sáu um pökkunina og var góð stemming í hópnum. Einn sjálfboðaliði hafi jafnvel orð á því að þetta væri ágætis upphitun fyrir jólainnpökkun fjölskyldunnar.

22. nóv. 2010 : Prjónavörur til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg

Enn eru prjónavörur til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11 frá því á markaðinum um síðustu helgi. Það má meðal annars finna prjónaðar peysur á góðu verði, trefla, vettlinga, sokka og húfur. Þá eru einnig handgerð jólakort og dagatöl fyrir 2011 til sölu en ungir innflytjendur í Rauða kross starfi hjá deildinni gerðu þau. Handverk frá Mósambík er líka í boði, eins og skartgripir, töskur og batik-myndir. Hægt að gera góð kaup og styrkja í leiðinni gott málefni. Allur ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

20. nóv. 2010 : Bestu þakkir!

Fjöldi fólks mætti í Rauðakrosshúsið í Kópavogi í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 300.000  þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

20. nóv. 2010 : Markaður í dag, laugardag!

Markaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag, laugardag, og þar verður hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Það verður líka hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik-myndir og fleira.  Einnig verða til sölu kökur og brjóstsykur sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir markaðinn. Dagatöl sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu. Allur ágóði rennur til verkefna innanlands.

19. nóv. 2010 : Markaður á morgun, laugardag!

Markaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 á morgun, laugardag, og þar verður hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Það verður líka hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik-myndir og fleira.  Einnig verða til sölu kökur og brjóstsykur sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir markaðinn. Dagatöl sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu. Allur ágóði rennur til verkefna innanlands.

18. nóv. 2010 : Nemendur í SJÁ 102 vinna lokaverkefni sitt fyrir Kópavogsdeild

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 vinna þessa dagana að því að setja upp markað Kópavogsdeildar en hann er lokaverkefni þeirra í áfanganum. Nemendurnir eru 14 talsins á þessari önn og hafa unnið sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, með Enter- börnunum og í Dvöl. Þar að auki sátu þau grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þau tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins þann 2.október síðastliðinn, Göngum til góðs og auk þess hafa þau haldið dagbók um störf sín sem þau skila nú í lok annar.

Á markaðinum verða seld handverk sjálfboðaliða deildarinnar, sauma-og prjónavörur, bakkelsi sem nemendurnir baka og annað föndur. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Einnig verður hægt að kaupa leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik- myndir og fleira.

16. nóv. 2010 : Börn og ungmenni í starfi Kópavogsdeildar útbúa handverk fyrir markað

Síðustu vikur hafa börnin í Enter og unglingarnir í Eldhugum, barna- og unglingastarfi Kópavogsdeildarinnar unnið að gerð handverks sem selt verður á markaði hennar á laugardaginn, 20. nóvember næstkomandi. Vinnan hefur gengið vel en Enter börnin hafa unnið að gerð dagatals og Eldhugarnir búið til lakkrísbrjóstsykur. Þess má einnig geta að ungmenni úr Plúsnum, starfi fyrir 16-24 ára sjálfboðaliða, hafa búið til hálsklúta, hárskraut og skartgripi sem einnig verða til sölu á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk, eins og prjónavörur, sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handgerðir munir frá Mósambík.

15. nóv. 2010 : Frábær stemning á „Kaffihúsakvöldi án landamæra”

Ungir sjálfboðaliðar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, Alþjóðatorg ungmenna og Molinn, ungmennahús Kópavogs, stóðu fyrir alþjóðlegu kaffihúsakvöldi sem kallaðist „Kaffihús án landamæra” í Molanum í síðustu viku. Kvöldið heppnaðist í alla staði frábærlega, fjölbreyttur og alþjóðlegur hópur gesta mætti og mikil stemning myndaðist í húsinu.

Kynnar kvöldsins voru sjálfboðaliðar Plússins, Hulda Hvönn, Dagbjört Rós og Sæunn. Þær sáu einnig um leikinn „án landamæra” sem miðaði að því að þjappa fólki saman og vekja fólk til umhugsunar um að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn þá deili fólk oft sömu reynslu. Þá var boðið upp á hlaðborð með alþjóðlegu snakksmakki frá ýmsum löndum líkt og Suður-Afríku, Rússlandi, Svíþjóð, Póllandi, Hollandi, Mexíkó og Íslandi en sjálfboðaliðar af erlendum uppruna úr Plúsnum og Alþjóðatorgi höfðu útbúið veitingarnar sjálf.

12. nóv. 2010 : Samvera heimsóknavina

Mánaðarleg samvera heimsóknavina var haldin fyrr í vikunni og var boðið upp á erindið „Hvernig stöndumst við álag?“ að þessu sinni. Á þessum samverum er venjulega boðið upp á einhvers konar fræðslu fyrir heimsóknavinina til að efla þá í starfi og miðla til gestgjafa sinna. Samverurnar eru annan þriðjudag í hverjum mánuði og á þeim eru heimsóknavinir sem heimsækja á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, hjúkrunarheimilum og Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Alltaf er þörf á nýjum heimsóknavinum og geta áhugasamir haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected]. Næsta námskeið fyrir nýja heimsóknavini á höfuðborgarsvæðinu verður haldið þriðjudaginn 16. nóvember. Frekari upplýsingar og skráningu má fá með því að smella hér.

11. nóv. 2010 : Plúsinn heldur kaffihús án landamæra í kvöld, fimmtudag

Í kvöld kl. 20.30 munu sjálfboðaliðar í Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, Alþjóðatorg ungmenna og Molinn, ungmennahús Kópavogs, standa fyrir alþjóðlegu kaffihúsakvöldi sem kallast ,,Kaffihús án landamæra” í Molanum að Hábraut 2. Plúsinn hefur áður haldið álíka viðburð í samstarfi við Molann sem þá kallaðist palestínskt kaffihúsakvöld.

Dagskráin hefst með alþjóðlegu snakksmakki en ungir sjálfboðaliðar af erlendum uppruna munu koma með slíkt að heiman fyrir gesti til að smakka. Þá mun trúbadorinn Trausti koma og spila nokkur lög og Salsa-Iceland koma fólki í gírinn með því að sýna nokkur vel valin spor. Auk þess munu ungmenni frá Alþjóðatorgi kenna salsatakta. Sjálfboðaliðar úr Plúsnum verða einnig með leik sem kallast ,,Engin landamæri"- leikur fyrir ALLA!

5. nóv. 2010 : Göngum til góðs söfnunin gerir kleift að efla hjálparstarfið í Malaví

Rauði kross Íslands hefur unnið að hjálparstarfi í Malaví síðan 2002, fyrst í einu þéttbýlasta og fátækasta héraði landsins, Chiradzulu, og síðan 2008 einnig í héraðinu Mwanza. Árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning frá sjálfboðaliðum. Áætlað er að efla verkefni Rauða krossins í Malaví enn frekar á næstu árum, meðal annars með því fjármagni sem safnaðist í landssöfnuninni Göngum til góðs í október 2010.

Einn megin styrkur þessara verkefna er að þau eru unninn í samvinnu við heimamenn, sniðin að aðstæðum á hverjum stað og það er verið að styrkja landsfélag Rauða krossins, samfélagið og fólkið til sjálfshjálpar. Mikill árangur hefur náðst í samstarfi Rauða kross Íslands og í Malaví í þau átta ár sem samvinnan hefur staðið. Vegna þess að um langtímaskuldbindingu er að ræða hafa verkefnin breyst og þróast til að mæta nýjum aðstæðum og þörfum skjólstæðinga Rauða krossins. 

4. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur taka þátt í starfi deildarinnar

Kópavogsdeild er með tvö verkefni sem miða að því að virkja atvinnuleitendur á meðan á atvinnuleit stendur. Annað verkefnið ber yfirskriftina „Nýttu tímann“ og samanstendur af opnu húsi í húsnæði deildarinnar. Boðið er upp á námskeið, fyrirlestra, ráðgjöf og samverur. Markmiðið er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun. Opna húsið er þrjá daga í viku og er þátttaka ókeypis. Hver og einn mætir á sínum eigin forsendum, hvort sem það er að mæta á fyrirlestur, nýta sér ráðgjöf eða kíkja í kaffi og spjall. Þá er einnig hægt að taka þátt með því að gerast leiðbeinandi og sjá um fyrirlestur, námskeið eða samverur. Hægt er að kynna sér dagskrá opna hússins með því að smella hér.

3. nóv. 2010 : 658 fatapakkar á árinu

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa pakkað alls 658 fatapökkum á árinu. Þeir hafa pakkað þrisvar sinnum og nú síðast fyrir viku síðan. Þá pökkuðu sjálfboðaliðarnir 240 pökkum. Fatapakkarnir eru sendir til barna og fjölskyldna í neyð erlendis og síðasta sending fór til Hvíta-Rússlands en sú næsta fer til Malaví. Sjálfboðaliðarnir prjóna, hekla og sauma peysur, sokka, húfur, teppi og bleyjubuxur en auk þess fer líka í pakkana handklæði, treyja, buxur, samfellur, taubleyjur og taustykki.

1. nóv. 2010 : Tombóla

Diljá Pétursdóttir, Sigurjón Bogi Ketilsson og Rakel Svavarsdóttir héldu tombólu á dögunum og söfnuðu alls 5.282 kr. Þau heimsóttu deildina með afraksturinn til að styrkja Rauða krossinn. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.