31. jan. 2011 : Gengu um hverfið sitt og söfnuðu dósum til styrktar börnum á Haiti

Systkynin Jón Skúli Guðmundsson og Helga Guðmundsdóttir löbbuð ásamt vinum sínum Páli Eyþórssyni og Baldvini Degi í hverfinu sínu og söfnuðu dósum til styrktar verkefnum Rauða kross Íslands á Haiti. Jón Skúli hefur fylgst vel með því sem Alþjóðabjörgunarsveitin var að gera á Haiti og ætlar hann sér að verða björgunarsveitamaður þegar hann verður stór.

26. jan. 2011 : Gjöf til Kópavogsdeildar

Kópavogsdeild Rauða krossins fékk í síðustu viku góða gjöf þegar Powertalk deildin Fífa í Kópavogi afhenti deildinni gjafabréf í tilefni að 25 ára afmæli sínu. Um er að ræða námskeið í sex þáttum handa atvinnuleitendum í Kópavogi eða til þeirra sem deildin telur að komi að gagni innan Kópavogsdeildar.

Námskeiðið er ætlað 10-15 manns og verður haldið um miðjan mars. Þjálfunarsamtökin POWERtalk International eru alþjóðlegur félagsskapur sem býður upp á markvissa þjálfun í öflugum tjáskiptum svo sem ræðumennsku, félagsmálum, fundarsköpum og mannlegum samskiptum, ásamt  skipulagningu og stjórnun, með sjálfsnámi og jafningjafræðslu. Grunnþjálfunin fer fram í deildum og eru þær starfræktar á nokkrum stöðum á landinu

25. jan. 2011 : Velkomin í prjónakaffi

Á morgun verður fyrsta prjónakaffið á nýju ári. Fjöldi prjónandi sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framalag mæta í Rauðakrosshúsið í Kópavogi síðasta miðvikudag hvers mánaðar kl. 15-18, prjóna til góðs og eiga ánægjulega stund saman yfir prjónunum og kaffispjalli.

Sjálfboðaliðarnir prjóna, sauma og hekla ungbarnaföt sem síðan er pakkað í þar til gerða fatapakka og sendir til barna og neyð erlendis. Þeir búa til dæmis til litlar peysur, sokka, húfur og teppi. Þá fara einnig í pakkana samfellur, buxur, taubleyjur og treyjur. Tilgangurinn með þessu verkefni er að mæta skorti á barnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Handavinnan miðar að því að draga úr þessum skorti.

24. jan. 2011 : Vertu sjálfboðaliði og gefðu gæðastundir

Gefðu þér tíma til góðra verka

Rauði krossinn er með fjölmörg ólík verkefni fyrir sjálfboðaliða um allt land og á höfuðborgarsvæðinu eru þau flest.

19. jan. 2011 : Kópavogsdeild í enn frekara samstarf við Menntaskólann í Hamrahlíð

Menntaskólinn við Hamrahlíð óskaði eftir enn frekara samstarfi við Kópavogsdeild Rauða krossins á nýju ári en deildin hefur átt í farsælu samstarfi við skólann með margvíslegum hætti undanfarin ár. Að þessu sinni felst samstarfið í því að 28 nemar á undirbúningsnámskeiði fyrir IB–braut munu fá innsýn inn í starf sjálfboðaliðans með því að taka þátt í ýmsum verkefnum. IB–braut  stendur fyrir International Baccalaureate en það er alþjóðleg námsbraut til stúdentsprófs þar sem nær allt námið fer fram á ensku en sjálfboðið starf er einnig hluti námsins.

18. jan. 2011 : Velkomin í Rauðakrosshúsið í Kópavogi

Kópavogsdeild er með opið hús í húsnæði deildarinnar á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum kl. 11-15. Margt áhugavert er í boði þessa daga og er þátttaka ókeypis og opin öllum. Hægt er að kynna sér dagskrána betur með því að smella hér.

Opna húsið er hluti af verkefni með yfirskriftinni „Nýttu tímann“. Markmiðið er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að koma í Rauðakrosshúsið í Kópavogi og nýta sér áhugaverða dagskrá. Alltaf heitt á könnunni og allir velkomnir!
 

12. jan. 2011 : Fjölbreytt námskeið í boði

Kópavogsdeild býður reglulega upp á fjölbreytt námskeið og hér á síðunni er hægt að fá upplýsingar og skrá sig á næstu námskeið. Námskeiðin eru kennd í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2 hæð.

Tvö námskeið í almennri skyndihjálp verða haldin, það fyrra  21. febrúar og það seinna 28. febrúar. Farið verður yfir grundvallaratriðið í skyndihjálp og endurlífgun.

Námskeið í sálrænum stuðningi verður svo 14. mars en þar fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram 14. og 15. febrúar. Þá verður meðal annars fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri.

Í maí og júní verður svo námskeiðið Börn og umhverfi fyrir ungmenni á 12. aldursári og eldri. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn auk slysavarna og skyndihjálpar. Námskeiðin verða nánar auglýst síðar.

Áhugasamir er eindregið hvattir til að skrá sig á námskeiðin með því að smella á hlekkina hér fyrir ofan eða hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected].  Þátttakendur á öllum námskeiðunum fá staðfestingarskírteini frá Rauða krossinum.

10. jan. 2011 : Kjörnefnd

Stjórn Kópavogsdeildar samþykkti á fundi sínum þann 9. desember síðastliðinn að mynda þriggja manna kjörnefnd sem gera á tillögu um hverjir verði í kjöri í stjórn og varastjórn á aðalfundi deildarinnar 2011. Verkefni kjörnefndar er að undirbúa kosningar stjórnar- og skoðunarmanna í samræmi við lög félagsins og tryggja að nægilega margir hæfir einstaklingar verði í framboði til þess að fylla þau sæti sem laus eru.

Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram eða vilja tilnefna einhvern til setu í stjórn eða varastjórn deildarinnar eru vinsamlega beðnir um að senda inn tilnefningar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Nefndin tekur á móti tilnefningum til 28. janúar næstkomandi.

Við ákvörðun um tilnefningar stjórnar- og varastjórnarmanna skal nefndin eftir því sem við verður komið taka mið af hæfni viðkomandi eintaklinga og gæta jafnvægis milli karla og kvenna, sbr. ákvæði 8. gr. starfsreglna deildarinnar. Kjörnefndina skipa Reynir Guðsteinsson, Garðar Briem og Anna Þrúður Þorkelsdóttir.

Aðalfundur Kópavogsdeildar verður 10. mars nk.

Áhugasamir sendi inn tilnefningar hér.

6. jan. 2011 : Kópavogsdeild auglýsir eftir sjálfboðaliðum í ýmis verkefni á vorönn

Undirbúningur fyrir starf deildarinnar á vorönn er nú í fullum gangi og vantar sjálfboðaliða til að sinna ýmsum verkefnum á næstu mánuðum.

Verkefnin eru fjölbreytt og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar.

Verkefnin bjóða upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

4. jan. 2011 : Duglegir krakkar söfnuðu 18.000 kr. til styrktar Rauða krossinum

Sigurrós, Sólveig Birna, Sverrir Haukur, Stefán, Sindri, Guðjón Valur og Ísar, nemar í 4.bekk í Álfhólsskóla, færðu á dögunum Kópavogsdeild afrakstur söfnunar til styrktar Rauða krossinum. Börnin héldu í heildina 6 tombólur og söfnuðu heilum 18.000 krónur. Þau gengu í hús til að safna dóti og héldu tombólur á fjölbreyttum stöðum í bænum, líkt og Nótatúni, Krónunni og fyrir utan Bónus en að þeirra sögn tók fólk mjög vel í þetta framtak þeirra.

Afrakstur tombólunnar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi alla virka daga á milli klukkan 10 og 16.