28. feb. 2011 : Nýr starfsmaður Rauðakrosshússins í Kópavogi

 

Egill Atlason hóf störf hjá deildum Rauða krossins í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi fyrir skemmstu en hann gegnir stöðu verkefnisstjóra Takts – Ungt fólk til athafna. Egill sinnir verkefni sem er tilkomið vegna samstarfs Rauða krossins og Vinnumálastofnunar og kallast Taktur - Ungt fólk til athafna en samstarfið er  hluti af átaki félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Tilgangur verkefnisins er að virkja atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18-24 ára, stuðla að virkni og starfshæfni þeirra og sporna gegn erfiðum félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum sem oft fylgja langvarandi atvinnuleysi. Þátttakendur fá þjálfun til að sinna hefðbundnum sjálfboðaliðaverkefnum hjá deildum Rauða krossins en einnig er gert ráð fyrir nýjum verkefnum.

Egill er menntaður hagfræðingur og hefur unnið ýmis störf sem tengjast ungu fólki. Hann hefur meðal annars unnið sem kennari á unglingastigi, með börnum með sérþarfir og sem þjálfari.

Kópavogsdeild býður Egil hjartanlega velkominn til starfa.
 

 

22. feb. 2011 : Kópavogsdeild fræðir nemendur um alþjóðaverkefni Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem kenndur er í Menntaskólanum í Kópavogi, fengu kynningu á alþjóðastarfi Rauða kross Íslands í síðustu viku. Verkefnastjóri alþjóðamála hjá Kópavogsdeild kynnti starfið en það er orðinn fastur liður í áfanganum að nemendur fái fræðslu um þetta málefni einu sinni á önn. Markmiðið er að veita nemendum innsýn í alþjóðaverkefni félagsins og að þau geti sett þau í samhengi við efnið sem fjallað er um í áfanganum. Eftir fræðsluna vinna svo nemendur verkefni og skýrslu.
 

21. feb. 2011 : Kveðja

Í dag kveður Kópavogsdeild Rauða krossins sjálfboðaliðann og hugsjónarkonuna Önnu Bjarnadóttur sem vann mikið og óeigingjarnt starf í þágu deildarinnar. Anna kom fyrst til starfa með deildinni árið 1984 þegar stofnaðir voru sjúkravinir í kjölfar opnunar á Sunnuhlíð. Sjúkravinir sáu um handavinnu, lásu fyrir fólk og stóðu fyrir samverum, allt gert til að stytta stundir og auka lífsgæði heimilismanna. Frá árinu 1988 vann Anna síðan við verkefnið Föt sem framlag sem byggist á því að útbúa ungbarnapakka fyrir börn og notaðir eru í neyðaraðstoð Rauða krossins. Anna gaf ekki bara vinnu sína heldur opnaði hún heimili sitt og gerði það að miðstöð sjálfboðaliða verkefnisins í rúm 15 ár en þangað kom reglulega fastur kjarni tólf sjálfboðaliða og útbjó ungbarnapakka af mikilli alúð og hlýju.

 
Verkefnið tók síðan stakkaskiptum árið 2007 þegar deildin fór að bjóða upp á prjónakaffi einu sinni í mánuði í húsnæði sínu í Hamraborginni og telur hópurinn í dag vel yfir 60 sjálfboðaliða. Litla verkefnið sem unnið var heima í stofu hjá Önnu er orðið með stærri verkefnum deildarinnar. Það er samstilltur hópur sjálfboðaliða sem mætir í prjónakaffi, mikil gleði og kátína í gangi og þangað var Anna dugleg að mæta með prjónana sína. Það var í raun undantekning ef hún mætti ekki enda mjög trú sínu verkefni. Það sama má segja um fjölskyldu hennar og fyrir það erum við mjög þakklát. Anna var gerð að heiðursfélaga deildarinnar á alþjóðadegi sjálfboðaliðans í desember síðastliðinn og er annar heiðursfélagi Kópavogsdeildar. Hún var sannur eldhugi og með samvinnu og samstilltu átaki okkar allra hjá Kópavogsdeild vinnum við áfram að því að gera heiminn betri.


Með vinsemd og virðingu þökkum við Önnu mikið og óeigingjarnt starf. Blessuð sé minning hennar.
Fyrir hönd sjálfboðaliða og starfsmanna Kópavogsdeildar. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður og Linda Ósk Sigurðardóttir framkvæmdastjóri.

17. feb. 2011 : Ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar að störfum í Sunnuhlíð

Nú hefur bæst enn frekar við verkefni Kópavogsdeildar innan Sunnuhlíðar en ungir sjálfboðaliðar úr áfanganum sjálfboðið starf 102 hafa nú hafið sjálfboðin störf á dvalarheimilinu. Starf þeirra felst  í stuðningi við starfsfólk og þátttakendur í svokallaðri virkni þar sem dvalargestir sinna handavinnu og félagslegu starfi. Þátttakendur í virkninni hafa meðal annars unnið fjöldan allan af fallegum, handgerðum prjónateppum í gegnum tíðina.Teppin nýtast vel í ungbarnapakka sem Kópavogsdeild sendir til Malaví og Hvíta Rússalands en þar eru þeir meðal annars afhentir einstæðum mæðrum og fjölskyldum í neyð.

15. feb. 2011 : Hundavinir kynntu verkefni Rauða krossins í Garðheimum

Garðheimar skipuleggja reglulega hundakynningar og í febrúar 2011 var haldin kynning á smáhundum. Hundavinum Rauða Kross Íslands er alltaf boðið að taka þátt í  kynningu Garðheima og var engin undantekning þar á í þetta sinn. Nokkrir frábærir fulltrúar mættu í Garðheima  og vöktu mikla athygli gesta og gangandi.

Rauði krossinn þakkar sjálfboðaliðum kærlega fyrir að hafa gefið sér tíma til að kynna Hundavini!

11. feb. 2011 : Starfsmenn heimaþjónustu Kópavogsbæjar komu í heimsókn á 112 deginum

Af tilefni 112 dagsins tók Kópavogsdeild á móti starfsfólki heimaþjónustu Kópavogs, alls 30 talsins. Deildin afhenti starfsfólkinu meðal annars bæklinginn ,,Getur þú hjálpað þegar á reynir?"  og þá fengu gestirnir einnig að heyra um helstu verkefni deildarinnar og starfsemi.

Í kjölfarið hélt Leifur Geir Hafsteinsson fræðandi fyrirlestur á opnu húsi deildarinnar um  næringu og heilbrigði. Þar mynduðust góðar umræður um ýmsar venjur varðandi mataræði, líkamsrækt og almennt heilbrigði. Um 20 manns voru á fyrirlestrinum og nutu góðs af fræðslu Leifs.

9. feb. 2011 : 112 dagurinn

Á föstudaginn verður haldið upp á 112 daginn um allt land en markmið 112 dagsins er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Samstarfsaðilar dagsins eru Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn og lögreglan, Mannvirkjastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.

Með einu símtali í 112 (einn, einn, tveir) er unnt að virkja á augabragði lögreglu, slökkvilið, almannavarnir, Landhelgisgæsluna, sjúkraflutninga, lækna og hjúkrunarfólk, hjálparlið Rauða krossins og björgunarsveitanna og barnaverndarnefndir.

Kópavogsdeild vekur athygli á því að í febrúar verða haldin tvö námskeið í almennri skyndihjálp í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11. Námskeiðin verða haldin mánudagana 21. og 28. febrúar kl. 18-22. Á námskeiðinum læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Nokkur sæti laus og geta áhugasamir skráð sig hér 

Í tilefni 112 dagsins mun Kópavogsdeild afhenda starfsmönnum heimaþjónustu Kópavogs, alls 30 manns bæklinginn Getur þú hjálpað þegar á reynir? Fyrir þá sem hafa áhuga að eignast bæklinginn þá er hann til sölu í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11 og kostar 200 krónur.

8. feb. 2011 : Tungumálakennari í Dvöl

Jessica Devergnies-Wastraete frá Belgíu er komin sem sjálfboðaliði  í Dvöl í gegnum Alþjóðleg ungmennaskipti (AUS).  
Hún er tungumálakennari að mennt og hefur náð alveg ótrulegum tökum á íslensku, eftir aðeins fjögra mánaða veru hér á landi.
Hlutverk hennar verður meðal annars að bjóða þeim sem hafa áhuga upp á að læra spænsku, einnig að kenna okkur að búa til franska og belgíska rétti.
Það stendur til að hún verði hjá okkur fram á sumar en þá ætlar hún að ferðast um landið. Kópavogsdeild bíður Jessicu velkomna til starfa.


 

3. feb. 2011 : Hundavinir hittast einu sinni í mánuði.

Þriðjudaginn 25. janúar hittust hundaheimsóknavinir í Borgartúni 25.

Farið var stuttlega yfir breytingar á hittingum á þessu ári. Stefnt er að því að eiga saman útihittinga annan hvern mánuð á móti almennum samverum innandyra. Einnig var kynntur nýr vefur fyrir sjálfboðaliða í hundaheimsóknum þar sem hægt er að skoða gamlar og nýjar fréttir ásamt myndasöfnum. Þá verður hægt að nýta sér spjallsvæði á vefnum.

Seinni hluta fundarins fengu síðan hundarnir að njóta sín þar sem Nanna Zophoníasdóttir mætti og kenndi eigendum að nudda hundana. Hundarnir virtust njóta þess vel að láta nudda sig og sátu stilltir á meðan eigendur þeirra stjönuðu við þá. Það er áreiðanlegt að allir hafi lært eitthvað nýtt á þessu og vonandi munu hundarnir njóta þess í framtíðinni að fá gott nudd af og til.

Næsti hittingur hundavina verður þriðjudaginn 22. febrúar og stefnt er að því að hittast þá við Reynisvatn og fara í stuttan göngutúr.