30. mar. 2011 : Plúsinn afhendir styrk til Haítí

Sæunn Gísladóttir og Anna María Guðmundsdóttir fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs og Sólveigu Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs, hátt í fimmtíu þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði hópsins þann 19. mars síðastliðinn.

Peningurinn verður nýttur til að styðja við börn á Haítí sem enn eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið fyrir rúmu ári. Samanlagt hefur þá Plúsinn styrkt það verkefni um vel yfir hundrað þúsund krónur en þau lögðu einnig ágóða af markaði sínum á síðasta ári í sama verkefni.

28. mar. 2011 : Duglegar vinkonur héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum

Þær Guðrún, Ásta og Katla Rut, allar nemendur í 4. bekk í Kársnesskóla héldu tombólu á dögunum og söfnuðu  1.207 kr. til styrktar Rauða krossinum.  Þær höfðu safnað dóti í smá tíma og seldu fyrir utan sundlaug Kópavogs. Framtakinu var vel tekið og fengu þær góð viðbrögð frá gestum sundlaugarinnar.

Þessar stúlkur eru dæmi um þau fjölmörgu börn sem árlega styrkja ýmis góð málefni með með álíka hætti. Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, alla virka daga á milli kl. 9-15.


 

25. mar. 2011 : Birta brött og bleik heimsækir Kópavogsdeild

Krakkarnir í Enter og Eldhugum fengu skemmtilega heimsókn í vikunni en kötturinn Birta kom í heimsókn ásamt eiganda sínum Belindu Theriault. Belinda byrjaði á að lesa upp úr bókinni ,,Birta brött og bleik” sem fjallar um hvernig hægt er að takast á við fordóma á skemmtilegan hátt og að allir þurfi ekki að vera steypti í sama mót.  Þegar upplestrinum var lokið kom Belinda krökkunum á óvart með því að sækja Birtu og leyfa henni að vera með og hitta krakkana.
 

21. mar. 2011 : Ungir sjálfboðaliðar safna til styrktar börnum í neyð

Margir lögðu leið sína á hinn árlega fatamarkað Plússins sem ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar  héldu í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs á laugardaginn var. Á markaðinum voru seld notuð föt til styrktar börnum sem enn búa við mikla neyð eftir jarðskjálftana á Haítí fyrir rúmu ári. Full þörf er á áframhaldandi stuðning þar og nauðsynlegt að halda áfram að styðja við þau verkefni sem fyrir eru og þarfnast neyðaraðstoðar, þó svo að ný og krefjandi verkefni séu að bætast við. Fötin voru seld á mjög vægu verði, nærri allt undir þúsund krónum, auk þess sem fólk gat fengið að prútta niður verð á stærri flíkum. Salan gekk vel og alls söfnuðust hátt í fimmtíu þúsund krónur. Að auki var var Alþjóðatorg ungmenna með svokallað lifandi bókasafn á staðnum en það líkt og venjulegt bókasafn þar sem lesendur koma og fá lánaða bók í takmarkaðan tíma.

17. mar. 2011 : Öflugir ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar halda fatamarkað

Ungir sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi Rauða krossins í Kópavogi fyrir 16-24 ára, hafa unnið að margvíslegum verkefnum undanfarin ár og haft áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti. Hægt er að taka þátt í ýmsum hópum innan Plússins líkt og stýrihópi, hönnunarhópi og fræðsluhópi.

Meðal verkefna sem Plúsinn hefur staðið að eru alþjóðleg kaffihúsakvöld, forvarnarfræðsla, viðburðir og fjáraflanir en undanfarna daga hafa þeir verið að undirbúa sinn árlega fatamarkað til styrktar góðu málefni.

15. mar. 2011 : List til styrktar Rauða krossinum

Verk eftir fjórar listakonur sem gefið hafa  verk sín styrktar Hjálparsjóði Rauða krossins eru nú til sölu hjá Gallerí Fold. Um er að ræða verk eftir hinar hæfileikaríku listakonur Fríðu Gísladóttur (nafn verks: Mjólk sem sjór, verð 70.000), Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur (nafn verks: Eyðibýlið, verð 80.000) Laufey Johansen (nafn verks: Áhrif frá Vúlkan, verð 110.000) og Sesselju Tómasdóttur (nafn verks: Kærleikurinn, verð: 50.000).

14. mar. 2011 : Eldhugar undirbúa viðburð gegn fordómum

Unglingarnir í Eldhugum Kópavogsdeildar standa í ströngu þessa dagana við að undirbúa  viðburð í Smáralind sem þeir hyggjast taka þátt í á fimmtudaginn næstkomandi, þann 17.mars  kl. 17.30. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Rauða krossins, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Æskulýðsstarfs þjóðkirkjunnar og Alþjóðatorgs ungmenna  sem standa saman að því fagna fjölmenningu á Íslandi. Viðburðurinn er haldinn í tengslum við alþjóðadaginn gegn kynþáttamisrétti sem er 21.mars en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í Evrópu.
 

11. mar. 2011 : Góð mæting á aðalfund

Í gærkvöldi var aðalfundur Kópavogsdeildar og mættu yfir 30 manns á fundinn. Talsverð endurnýjun varð í stjórn og varastjórn á fundinum. Kjörnir voru fjórir stjórnarmenn, tveir í varastjórn og tveir skoðunarmenn. Garðar Briem fyrrverandi formaður Kópavogsdeildar og fulltrúi kjörnefndar kynnti frambjóðendur, auk hans sátu Reynir Guðsteinsson og Anna Þrúður Þorkelsdóttir í nefndinni.

Guðbjörg Sveinsdóttir var endurkjörin í stjórn til tveggja ára og Ingibjörg Bjartmaz úr varastjórn var kjörin í stjórn til tveggja ára. Þá var Ingibjörg Ingvadóttir kjörin í stjórn til tveggja ára og Samúel Örn Erlingsson í stjórn til eins árs. Í varastjórn til tveggja ára voru kjörin þau Sigrún Árnadóttir, sem áður sat í aðalstjórn og Gunnar M. Hansson sem setið hefur í varastjórn í tvö ár. Skoðunarmenn voru kjörin þau Guðmundur Kr. Einarsson og Rúna H. Hilmarsdóttir, bæði kjörin til tveggja ára.
 

9. mar. 2011 : Aðalfundur Kópavogsdeildar

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 10.mars kl. 20 í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð. Allir sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.
 

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.
Önnur mál.
 

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða sýndar myndir úr starfi deildarinnar síðastliðið ár. Sjáumst vonandi sem flest!

7. mar. 2011 : Hundavinir hittast

Hundavinir Rauða krossins hittust í fyrsta útihitting sínum við Reynisvatn í Grafarholti  síðastliðinn þriðjudag.

Hundar taka þátt í heimsóknum til þeirra sem þess óska með eigendum sínum, bæði á stofnunum og í heimahúsum og eru til að mynda oft hvatning til þeirra sem vilja fara út að ganga. Hundarnir þurfa fyrst að uppfylla viss skilyrði til að fara með og eigendur þeirra sækja einnig sérsniðin námskeið fyrir sjálfboðaliða áður en heimsóknir hefjast.

2. mar. 2011 : Aðalfundur Kópavogsdeildar 10. mars

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn fimmtudaginn 10. mars kl. 20 í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.

Fundarstjóri verður Hjördís Einarsdóttir, kennari og fyrrverandi stjórnarmeðlimur Kópavogsdeildar.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.
Önnur mál