30. maí 2011 : Metþátttaka í vorgleði sjálfboðaliða um helgina

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðar deildarinnar fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja en vel yfir 80 manns voru mættir.

Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þeir sungu saman og börnin fengu andlitsmálun ásamt því að töframaður sýndi listir sínar. Nokkrir hundar sem starfa sem heimsóknavinir mættu einnig og slógu í gegn hjá öðrum gestum vorgleðinnar.

Myndir úr vorgleðinni má sjá ef smellt er á hlekkinn hér að neðan.
 

27. maí 2011 : Námskeiðið Slys og veikindi barna 31.maí og 1.júní

Þann 31. maí og 1. júní verður haldið 6 klukkustunda námskeið um forvarnir gegn slysum og viðbrögð við veikindum barna. Kennslan fer fram í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi, Hamraborg 11, á 2.hæð milli 18 og 21 báða dagana.

Skráning er í fullum gangi og ennþá eru nokkur pláss laus. Hægt er að skrá sig beint á námskeið með því að smella hér. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 554-6626 og fá nánari upplýsingar.

25. maí 2011 : Kópavogsdeild fékk viðurkenningu fyrir Eldhuga, Enter og Takt á aðalfundi Rauða kross Íslands

Aðalfundur Rauða kross Íslands var haldinn í Stapanum í Reykjanesbæ laugardaginn 21.maí.

Á annað hundrað fulltrúar af öllu landinu sóttu fundinn og voru veittar viðurkenningar til verkefna sem rjúfa félagslega einangrun, sinna berskjölduðum og efla ungmenni í samfélaginu. Kópavogsdeild tók við viðurkenningu fyrir verkefnin Eldhuga og Enter. Í Enter hittast ungir innflytjendur einu sinni í viku í deildinni og er markmiðið að auðvelda börnum af erlendum uppruna að aðlagast íslensku samfélagi og virkja þeirra þátttöku í því. Verkefnið er unnið í samvinnu við mótttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Eldhugar eru unglingar í Kópavogi á aldrinum 13-16 ára. Þar vinna íslensk og erlend ungmenni  að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Verkefninu er einnig ætlað að skapa grundvöll fyrir ungmenni af ólíkum uppruna til að hittast og hafa gaman saman.

Einnig fékk deildin viðurkenningu fyrir að taka þátt í átaksverkefni á vegum Vinnumálastofnunnar sem bar heitið Ungt fólk til athafna - Taktur. Þar fékk ungt atvinnulaust fólk að kynnast sjálfboðastörfum ásamt því að fá aðstoð í atvinnuleit og ferilskrárgerð.

Myndir af fundinum á Facebook.

23. maí 2011 : Rauði krossinn hvetur fólk til að huga að sínum nánustu og nágrönnum á hamfarasvæðinu

Rauði krossinn hvetur íbúa á hamfarasvæðunum að huga vel að sínum nánustu og sinna nágrönnum sínum, sérstaklega þeim sem ekki eiga aðstandendur á svæðinu. Mikilvægt er að finna fyrir samhug og samstöðu þegar áföll sem þessi dynja yfir.
 
Jóhann Thoroddsen, verkefnisstjóri áfallahjálpar Rauða krossins, segir að reynslan sé sú að fólk þurfi að sýna sjálfu sér þolinmæði hvað varðar viðbrögð við álaginu sem það býr við.
 
„Það skiptir máli að vera í samvistum við fjölskyldu sína, vini og félaga því mikill stuðningur felst í því. Börnin þurfa að geta sótt stuðning og öryggi til foreldra sinna og annarra fullorðinna sem þau treysta. Það er því mikilvægt að þau upplifi samstöðu fullorðna fólksins," segir Jóhann.

22. maí 2011 : Fjöldahjálparstöðvar opnar og Hjálparsíminn 1717 veitir upplýsingar vegna gossins - Icelandic Red Cross response to the volcanic eruption in Vatnajökull glacier

Tvær fjöldahjálparstöðvar eru nú opnar á hamfarasvæðinu, á Kirkjubæjarklaustri og Hofgarði í Öræfum. Rauði krossinn vinnur nú að því að skipuleggja áfallahjálp til íbúa á svæðinu ásamt heilbrigðisþjónustunni, kirkju, sveitarfélögum og almannavörnum.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 var virkjaður þegar í gærkvöldi sem upplýsingasími fyrir almenning eins og jafnan er gert í almannaástandi. Fólki er því bent á að hringja í Hjálparsímann 1717 til að nálgast almennar upplýsingar og til að sækja sér sálrænan stuðning.

Um 1000 íbúar eru á hamfarasvæðinu, og njóta þeir aðstoðar sitthvorum megin við Skeiðarársand þar sem Vegagerðin hefur lokað veginum af öryggisaðstæðum. Klausturdeild og Hornafjarðardeild Rauða krossins sjá um aðstoð á svæðinu, en aðrar deildir verða virkjaðar eftir því sem þörf krefur þar sem sjálfboðaliðar eru margir hverjir einnig þolendur vegna öskufallsins og þurfa að huga að fjölskyldu og eigin aðstæðum.

Mikið öskufall er í Vestur Skaftafellssýslu. Almenningur er hvattur til að halda sig innandyra en nota grímur og hlífðargleraugu þegar menn eru utandyra.

Two shelters have been opened for inhabitants and tourists in the disaster area, one at the community centre in Kirkjubæjarklaustur at Klausturvegur 10 and at Hofgardur in Öræfi. The Icelandic Red Cross is organizing psychological support in the area together with health authorities, municipalities and the civil protection authorities.
The Red Cross Helpline 1717 serves as a source of general information for the public during times of emergency. For all information about the current situation in the area around Vatnajökull glacier simply dial 1717. If you are calling from abroad the number is + 354 551 7853 and you will be connected with the helpline. Calls from abroad are not free of charge.

Ashfall is ongoing in the area from east of Vík to Höfn. People are advised to stay inside, but use masks when travelling outside. Road 1 is closed east of Klaustur.

20. maí 2011 : Blómlegu barna-unglingastarfi vetrarins fagnað

Krakkarnir sem taka þátt Enter- starfi fyrir unga innflytjendur í Kópavogi og Eldhugum- starfi Kópavogsdeildar fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna hafa nú lokið starfi sínu í vetur og héldu upp á það með sínum hætti. Börnin í Enter fóru í hestaferð með öðrum deildum af höfuðborgarsvæðinu en Eldhugarnir hittu jafnaldra sína úr starfi Hafnarfjarðardeildar þar sem meðal annars var haldin myndasýning úr starfi vetrarins. Starfið í vetur hefur verið í miklum blóma bæði í Enter og Eldhugum og krakkarnir tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum en þátttakendur í báðum verkefnum hafa sömuleiðis verið af fjölbreyttum uppruna eða frá Víetnam,Tælandi, Haítí,Rúmeníu, Póllandi, Portúgal, Spáni, Litháen og Rússlandi.
 

19. maí 2011 : Nemendur í Lindaskóla láta gott af sér leiða

Á dögunum afhentu Eyþór Hafliðason gjaldkeri nemendafélags Lindaskóla í Kópavogi og Gunnsteinn Sigurðsson skólastjóri skólans fulltrúum Rauða krossins 123.000 krónur. Peningarnir eru afrakstur fjáröflunar sem nemendur unglingadeildarinnar stóðu fyrir á þemadögum fyrir skemmstu. Þá höfðu nemendur ákveðið í sameiningu að ágóðinn rynni til Rauða krossins til hjálpar bágstöddum í Japan.

Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðamála Rauða kross Íslands og Hrafnhildur Helgadóttir, verkefnastjóri ungmenna og alþjóðamála Kópavogsdeildar veittu framlaginu viðtöku, þökkuðu skólanum og nemendum fyrir frábært framlag, auk þess sem þau gerðu grein fyrir þeim verkefnum sem Rauði krossinn vinnur að í Japan. 

Kópavogsdeild þakkar Lindaskóla fyrir frábært framtak og þann góða hug sem þar ríkir.

 

16. maí 2011 : Gaf hluta fermingapenings til Malaví

Anna Rún Arnfríðardóttir, nemandi í 8.bekk Kópavogsskóla, kom færandi hendi á dögunum til Kópavogsdeildar með peningagjöf að upphæð 20.000 krónur. Upphæðin var hluti  fermingarpeningsins hennar og vildi Anna Rún láta þessa fjárhæð renna til góðs. Hún óskaði eftir því að peningurinn rynni til alþjóðaverkefna en hún hafði einnig tekið þátt í Göngum til góðs síðastliðið haust og vildi að peningurinn rynni í sama málstað. Peningagjöfin verður því nýtt til að styrkja starf Rauða kross Íslands í Malaví en hann hefur unnið að hjálparstarfi þar síðan 2002. Mikill árangur hefur náðst í starfi Rauða kross Íslands í Malaví í þau ár sem samvinnan hefur staðið og má til að mynda nefna að árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning. Áætlað er að efla verkefni Rauða krossins í Malaví enn frekar á næstu árum, meðal annars með því fjármagni sem safnaðist í landssöfnuninni Göngum til góðs í október 2010.

Kópavogsdeild er stolt af því að ungir Kópavogsbúar vilji láta gott af sér leiða með þessum hætti og færir Önnu Rún bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag.

 

13. maí 2011 : Kópavogsdeild færir nemum Sjá 102 viðurkenningu

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru 28 í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, í athvarfinu Dvöl og í Sunnuhlíð. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um markað í Rauðakrosshúsinu sem haldinn var þann 16. apríl síðastliðinn. Á markaðinum mátti finna ýmist handverk sjálfboðaliða frá aldrinum 7 ára upp í 96 ára. Þá var einnig bakkelsi til sölu  sem nemendur höfðu útbúið sjálfir. Að þessu sinni rann allur ágóði markaðarins til neyðaraðstoðar innanlands. Markaðurinn gekk mjög vel og alls söfnuðu MK-nemarnir 230 þúsund krónum.  
 

12. maí 2011 : Kópavogsdeild á afmæli í dag 12.maí.

Kópavogsdeild var stofnuð þennan dag árið 1958 og fagnar því nú 53 ára afmæli sínu. Deildin hefur stækkað hratt síðustu ár og er nú með fjöldan allan af öflugum sjálfboðaliðum sem starfa í fjölbreyttum verkefnum.

Deildin leitast reglulega við að umbuna sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf og má þess geta að fyrir skemmstu bauð Borgarleikhúsið 60 sjálfboðaliðum ásamt mökum á sýninguna ,,Nei-Ráðherra“ og komust færri að en vildu.

Laugardaginn 28.maí verður haldinn vorfagnaður sjálfboðaliða í Dvöl, Reynihvammi 43. Deildin vonast til þess að sjá sem flesta sjálfboðaliða gleðjast saman og fagna öflugu vetrarstarfi um leið og við höldum inn í sumarið. 
 

10. maí 2011 : Sjálfboðaliðar kynntu verkefni deildarinnar í Íþróttahúsinu Digranesi

Um helgina var uppskeruhátíð eldra fólks í Kópavogi haldin í Íþróttahúsinu Digranesi. Margt var á dagskránni og var mikið um að vera. Boðið var uppá kynningar á félagslífi eldri borgara, samkvæmisdansa, jóga, tréskurð, bókband og margt fleira.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Kópavogi létu sig ekki vanta og voru með bás á staðnum. Þar var hægt að fræðast um hin ýmsu verkefni deildarinnar ásamt því að spjalla við sjálfboðaliða um starfið. Þó nokkur umgangur var um básinn og vel var tekið á móti öllum sem stoppuðu við.

Kópavogsdeild þakkar aðstandendum hátíðarinnar fyrir að fá að taka þátt í þessari skemmtilegu uppákomu.

9. maí 2011 : Margt um að vera hjá Enter krökkunum

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið á döfinni síðustu vikur hjá Enter krökkunum. Þau fengu meðal annars góða heimsókn þar sem söngur var á dagskránni en Birte Harksen tónlistarkennari kenndi börnunum ýmis lög sem vöktu mikla athygli og lukku hjá börnunum. Uppruni laganna var frá ýmsum löndum og meðal annars frá þeirra fæðingarlöndum. Þá fóru krakkarnir einnig í heimsókn í Þjóðminjasafnið þar sem þau fengu góðar móttökur, fengu málörvun og fóru í ýmsa leiki. Á laugardaginn næsta verður síðan farið með hópinn í hina árlegu vorferð þar sem börnin fá að fara á hestbak og leiki úti í náttúrunni

4. maí 2011 : Kópavogsdeild býður upp á námsaðstoð í Molanum

Kópavogsdeild býður upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri í Molanum, ungmennahúsi að Hábraut 2 í Kópavogi.
 

Í Molanum er opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en dagana 4. maí, 6.maí, 9.maí og 10. maí kl. 17-19 verða sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild á staðnum. Þar munu þeir veita þeim sem vantar sérstaka leiðsögn í stærðfræði en sjálfboðaliðarnir búa allir yfir góðri þekkingu í því fagi. Einnig er hægt að óska eftir aðstoð í öðrum fögum með því að hafa samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á [email protected]