30. jún. 2011 : Viðhorfskönnun vegna viðburða í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg

Deildin minnir á viðhorfskönnunina sem hefur verið sett upp hérna á síðunni vegna opna hússins sem deildin hefur boðið upp á síðustu misseri. Gestir á opnu húsi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg eru beðnir um að svara þessari stuttu viðhorfskönnun varðandi þátttöku sína í viðburðum hússins. Markmiðið er að kanna hverjir hafa sótt viðburði á opnu húsi og hvað gestunum hefur fundist um dagskrána. Þá er einnig hægt að koma með tillögur að dagskrárliðum fyrir haustið. Könnunina er að finna með því að smella hér.

23. jún. 2011 : Gestir Dvalar á Hvanneyri

Gestir Dvalar og starfsmenn lögðu á dögunum land undir fót og var ferðinni heitið til  Hvanneyrar. Þátttakan var mjög góð og hópurinn söng á leiðinni ásamt því að njóta leiðsagnar um það sem fyrir augu bar. Það var tekið vel á móti hópnum á Hvanneyri og hann fékk fræðslu um traktora og önnur gömul tæki auk þess að skoða kirkjuna á staðnum. Þá var einnig komið við í Ullarsetrinu þar sem hópurinn kynnti sér garn og prjónavörur.

22. jún. 2011 : Gaman á Gleðidögum

Kópavogsdeild heldur námskeiðið „Gleðidagar – ungur nemur gamall temur“ þessa dagana. Námskeiðið er ókeypis og er fyrir 7-9 ára börn. Það er haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu eldri borgarar og er markmiðið að þeir yngri læri af þeim eldri. Deildin heldur tvö námskeið, eitt í þessari viku og það seinna í næstu viku. Fullt er á bæði námskeiðin.

16. jún. 2011 : Viðhorfskönnun vegna viðburða í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg

Viðhorfskönnun hefur verið sett upp hérna á síðunni vegna opna hússins sem Kópavogsdeild hefur boðið upp á síðustu misseri. Gestir á opnu húsi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg eru beðnir um að svara þessari stuttu viðhorfskönnun varðandi þátttöku sína í viðburðum hússins. Markmiðið er að kanna hverjir hafa sótt viðburði á opnu húsi og hvað gestunum hefur fundist um dagskrána. Þá er einnig hægt að koma með tillögur að dagskrárliðum fyrir haustið. Könnunina er að finna með því að smella hér.

10. jún. 2011 : Ungir sjálfboðaliðar stóðu fyrir söfnun til styrktar Japans

Elvar Bragi Bjarkason, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins, stóð fyrir söfnun þar sem hann og samnemendur hans úr Menntaskólanum við Hamrahlíð söfnuðu pening til styrktar bágstöddum í Japan. Fleiri sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, tóku einnig þátt í söfnuninni.

Unga fólkið hélt tónleika ásamt því að selja kökur og handgerða hluti í Smáralind. Þá gengu sjálfboðaliðarnir um með bauka og dreifðu bankanúmeri fyrir þá sem vildu gefa til söfnunarinnar.

9. jún. 2011 : Tombóla!

Vinkonurnar Mjöll Ívarsdóttir, Kolka Ívarsdóttir, Eyrún Flosadóttir og Helga Hlíf Snorradóttir héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Hamraborginni til styrktar Rauða kossinum. Þær söfnuðu alls 3.042 kr. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

7. jún. 2011 : Laus pláss á námskeiðið Gleðidagar

Nokkur pláss voru að losna á námskeiðið Gleðidagar sem Kópavogsdeild stendur fyrir núna í júní. Námskeiðin verða tvö og eru fyrir börn fædd á árunum 2002-2004. Fyrra námskeiðið verður 20.-24. júní og það síðara 27. júní-1. júlí.

Á námskeiðinu eru eldri borgarar í hlutverki leiðbeinenda. Markmið námskeiðsins er að tengja saman kynslóðirnar og miðla reynslu og þekkingu þeirra á milli. Rauði kross Íslands stendur fyrir námskeiðunum í samstarfi við Öldrunarráð Íslands. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg. Meðal þess sem boðið er upp á eru: gamlir leikir, tafl, prjónaskapur, tálgun, hnútabindingar, kveðskapur, söngur, ljósmyndun, skyndihjálp og vettvangsferðir.
 

6. jún. 2011 : Árleg kirkjuferð á uppstigningardag

Á uppstigningardag var farin hin árlega kirkjuferð með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð. Þá er fólkinu boðið í messu í Kópavogskirkju í tilefni af kirkjudegi aldraðra sem er þennan sama dag. Heimsóknavinir og sjálfboðaliðar deildarinnar sem sjá um upplestur og söngstundir í Sunnuhlíð fara í ferðina og aðstoða fólkið á leiðinni. Eftir messu er svo boðið upp á kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar. Að þessu sinni fóru yfir 40 manns í ferðina og um 10 sjálfboðaliðar.