8. júl. 2011 : Sumarlokun í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi

Rauðakrosshúsið í Kópavogi er lokað frá 11. júlí og opnar aftur miðvikudaginn 3. ágúst og verður þá opið sem fyrr alla virka daga kl. 9-15. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected] og við höfum samband við fyrsta tækifæri.

6. júl. 2011 : Þakkir til sjálfboðaliða og leiðbeinenda!

Kópavogsdeild hélt námskeiðið Gleðidagar tvisvar sinnum í júní og vill þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum og leiðbeinendum sem tóku þátt og stuðluðu að vel heppnuðum námskeiðum. Alls nutu 30 börn á aldrinum 7-9 ára leiðsagnar eldri borgara og lærðu af þeim. Markmiðið með námskeiðunum var að þeir yngri lærðu af þeim eldri. Börnin lærðu meðal annars að prjóna og binda hnúta. Þau fóru á söfn, lærðu um plöntur, fóru í leiki og nutu útiveru. Þá heimsóttu þau einnig hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og lærðu um starfsemi þess.

5. júl. 2011 : Rauði krossinn vinsælastur á Facebook

Facebook, fyrirtækið sem rekur samnefndan félagsmiðil, hefur með hjálp notenda vefsins valið Rauða krossinn sem þá alþjóðlegu hjálparstofnun sem fjallað verður sérstaklega um á miðlinum. Í tilefni af Degi félagsmiðla í síðustu viku gerði Facebook skoðanakönnun meðal þeirra 46 milljóna manna sem fylgjast með fréttum af fyrirtækinu. Fólk var spurt hvaða hjálparstofnun af fjórum sem nefndar voru það vildi hafa í hávegum á deginum.

Af þeim fjórum stofnunum eða félögum sem nefnd voru – Alþjóðaráð Rauða krossins, Læknar án landamæra, Livestrong og UNICEF – fékk Rauði krossinn rúmlega helming atkvæða.

Kópavogsdeild er með síðu á Facebook og geta áhugasamir gerst vinir deildarinnar þar. Á síðunni er hægt að fylgjast með fréttum og viðburðum hjá deildinni. Síðuna má finna með því að smella hér.