30. ágú. 2011 : Hefurðu áhuga á handverki og vilt gefa af þér?

Kópavogsdeild leitar að sjálfboðaliðum til að taka þátt í skemmtilegu og handavinnumiðuðu fjáröflunarverkefni. Deildin er að fara af stað með basarhóp sem hefur það hlutverk að útbúa ýmis konar handverk fyrir jólabasar. Okkur vantar áhugasamt fólk í hópinn til að föndra, prjóna, hekla, sauma eða búa til hvers kyns handverk til að selja á basarnum. Vertu með og nýttu handavinnu til góðs!

25. ágú. 2011 : Viðtal við sjálfboðaliða: Íris Sigurðardóttir

Íris Sigurðardóttir er ungur sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeildinni sem sinnir sjálfboðnu starfi í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? Hún, ásamt fleiri sjálfboðaliðum, sér um vikulegar samverur þar sem íslenskir sjálfboðaliðar hitta fólk af erlendum uppruna sem vill æfa sig í að tala íslensku. Markmiðið er að gefa þeim sem vilja læra meiri íslensku tækifæri til að nota málið og auka við orðaforða sinn.

Íris hafði lengi hugsað um að gerast sjálfboðaliði og gera gagn. Hún segir: „Maður getur alltaf fundið tíma til að gera eitthvað sem gerir öðrum gott og þá fer manni sjálfum líka að líða betur.“ Hún segist hafa kynnst yndislegu fólki sem býr yfir ótrúlegum krafti og metnaði og hún dáist að því. Það er hvatning fyrir hana að sjá hvað fólk getur lagt mikið á sig til að ná markmiðum sínum.

19. ágú. 2011 : Krakkarnir duglegir með tombólur

Síðustu daga hafa nokkrir vinir komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi með afrakstur tombólu og styrkt Rauða krossinn. Vinirnir Birkir Steinarsson og Sigurjón Bogi Ketilsson sem eru í Snælandsskóla og á leið í 5. bekk héldu tombólu í Hamraborginni og söfnuðu alls 8.122 kr. Þá héldu vinkonurnar Saga Dögg Christinsdóttir, Freyja Ellingsdóttir og Hafdís Ósk Hrannarsdóttir tombólu fyrir utan Samkaup í Vatnsendahverfinu og söfnuðu rúmlega 6 þúsund krónum. Þær eru í Hörðuvallaskóla og einnig á leið í 5. bekk. Hægt er að sjá myndir af þeim hér fyrir neðan.

17. ágú. 2011 : Leikföng óskast

Kópavogsdeild óskar eftir leikföngum fyrir börn á aldrinum 0-6 ára. Deildin heldur vikulegar samverur fyrir foreldra allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn. Boðið er upp samverur þar sem reglulega fara fram fjölbreyttar kynningar og fræðsla fyrir foreldrana. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og vantar nú fleiri leikföng fyrir hópinn.

11. ágú. 2011 : Tombóla

Systkinin Ísólfur Unnar og Friðný Karítas héldu tombólu á dögunum í Hamraborg og komu með afraksturinn til Kópavogsdeildar. Þau söfnuðu 1.000 kr. og mun framlag þeirra aðstoða börn í neyð erlendis.

Systkinin eru dæmi um þau fjölmörgu börn sem árlega styrkja ýmis góð málefni með álíka hætti. Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar.

8. ágú. 2011 : Góð gjöf

Katrín Rós Torfadóttir kom færandi hendi í Rauðakrosshúsið í Kópavogi. Hún vildi leggja Rauða krossinum lið en nú stendur yfir söfnunarátak vegna hungursneyðar í Sómalíu. Framlag hennar verður nýtt til að kaupa vítamínbætt hnetusmjör sem Rauði krossinn gefur börnum á næringarstöðvum í Sómalíu. Katrín Rós safnaði peningum með því að fara út að ganga með hunda en hún gaf einnig hluta af afmælispeningum sínum. Hún færði Rauða krossinum rúmlega 3.000 krónur en þær duga til að kaupa hnetusmjör handa tveimur alvarlega vannærðum börnum. Að öllu jöfnu tekur tvær til fjórar vikur að hjúkra barni þannig til fullrar heilsu eftir að það kemur illa vannært til Rauða krossins.

4. ágú. 2011 : Undirbúningur hafinn fyrir haustið!

Rauðakrosshúsið í Kópavogi hefur opnað aftur eftir sumarlokun og undirbúningur fyrir verkefni haustsins er því hafinn. Nú þegar eru nokkur námskeið komin á döfina sem hægt er að skrá sig á. Kópavogsdeild býður upp á þrjú skyndihjálparnámskeið á haustmánuðum þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Þá verður boðið upp á tvö námskeið Slys og veikindi barna þar sem meðal annars er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Frá september býður Rauði kross Íslands upp á grunnnámskeið Rauða krossins einu sinni í mánuði en á þeim námskeiðum er farið yfir störf hreyfingarinnar hér heima sem og á alþjóðavettvangi. Það er ætlað sjálfboðaliðum og öðru áhugafólki um málefnið.