30. nóv. 2011 : SJÁ 102 í Menntaskólanum í Kópavogi er vinsæll áfangi

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hafa nú lokið áfanganum SJÁ 102 en alls voru 24 nemendur skráðir í áfangann á þessari önn. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum.

28. nóv. 2011 : Tvö hundruð og sjötíu þúsund söfnuðust á jólabasar Kópavogsdeildar

Jólabasar deildarinnar var haldin á laugardaginn síðastliðinn og var afraksturinn 270 þúsund krónur. Fjármagnið verður nýtt í verkefni deildarinnar innanlands. Á basarnum var hægt að gera góð kaup á alls kyns prjónavörum og jólaföndri. Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag lögðu til prjónavörur og sjálfboðaliðar í sérstökum basarhópi lögðu til ýmis konar jólaföndur en hópurinn tók til starfa í haust í þeim tilgangi að útbúa handverk á basarinn. Enn er handverk til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11, 2. hæð, og hægt að gera góð kaup á virkum dögum kl. 9-15

26. nóv. 2011 : Jólabasar í dag!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur jólabasar í dag 26. nóvember kl. 14-18 í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð. Hefð hefur myndast hjá deildinni síðustu ár að halda basar fyrir jólin og hægt er að gera góð kaup á alls kyns handverki sjálfboðaliða deildarinnar og styrkja gott málefni í leiðinni. Í boði eru prjónavörur, meðal annars peysur, húfur, vettlingar og sokkar í öllum stærðum, ungbarnateppi, saumaðar töskur, hárskraut, jóladúkar, ýmis konar jólaskraut og margt fleira. Allur ágóði af markaðnum rennur til verkefna Kópavogsdeildar innanlands.

25. nóv. 2011 : Undirbúningur í fullum gangi fyrir jólabasar Kópavogsdeildar á morgun, laugardag

Undirbúningur fyrir jólabasar deildarinnar á morgun er í fullum gangi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg. Í síðustu viku föndruðu Enter-krakkarnir hitaplatta og jólaskraut úr perlum og skemmtu sér vel við það. Í gær útbjuggu Eldhugarnir svo brjóstsykur líkt og þeir hafa gert undanfarin ár fyrir basar deildarinnar. Öllum söluvörunum verður svo raðað upp í salnum í dag og allt gert tilbúið fyrir morgundaginn.

21. nóv. 2011 : Gott vinnuframlag í Kópavogi!

Kópavogsdeild barst rausnarlegt framlag til starfseminnar frá sjálfboðaliðasamtökunum Veraldarvinir - Worldwide Friends á dögunum  þar sem  sjálfboðaliðar þaðan lögðu fram krafta sína. Sjálfboðaliðar úr félaginu sinna á ári hverju ýmsum verkefnum bæði fyrir ríki, einstaklinga og stofnanir. Má þar nefna umhverfisverkefni og aðstoð við bændur. Á veturna fækkar verkefnum fyrir hópinn og  þess vegna höfðu þau samband við Kópavogsdeild og buðu fram aðstoð sína.

16. nóv. 2011 : Enter-krakkar útbúa jólaföndur fyrir jólabasar Kópavogsdeildar

Enter-hópur Kópavogsdeildar vinnur nú að gerð jólaföndurs sem selt verður á jólabasar deildarinnar laugardaginn 26. nóvember næstkomandi. Börnin eru að útbúa hitaplatta með jólaívafi sem þau perla samviskusamlega. Vinnan gengur vel hjá börnunum og meðfram föndurgerðinni hafa þau einnig verið í markvissri málörvun sem sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í með krökkunum.

Jólabasarinn, sem afraksturinn verður seldur á, verður haldinn í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 14-18. Þar verður einnig selt fleira handverk sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, jólaskraut, sauma– og prjónavörur og fleira föndur.

10. nóv. 2011 : Heimilisfólkið í Sunnuhlíð tekur þátt í verkefninu Föt sem framlag

Konur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð gáfu Kópavogsdeild veglega gjöf í vikunni, 63 prjónuð teppi og 15 peysur ásamt sokkum og húfum. Boðið er upp á prjón í dægradvöl á heimilinu og hafa konurnar unnið að þessari gjöf allt árið. Þær nýta gjarnan afgangsgarn svo úr verður litríkt prjónles. Þessar prjónavörur verða sendar til Hvíta-Rússlands til barna og fjölskyldna í neyð og deildin þakkar konunum í Sunnuhlíð kærlega fyrir þessa hlýju gjöf

2. nóv. 2011 : Tilkynning - neyðaraðstoð fyrir jólin í Kópavogi

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Kópavogsdeild Rauða krossins veita neyðaraðstoð fyrir komandi jól til þeirra sem eiga lögheimili í Kópavogi þann 1. desember 2011. Tekið er á móti umsóknum frá 7. nóvember til og með 6. desember.

2. nóv. 2011 : Alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Kópavogi

Alþjóðlegir foreldrar er hópur af íslenskum og erlendum foreldrum sem hittist á fimmtudögum kl. 10-12 í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi með börnin sín á aldrinum 0-6 ára. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun foreldra af erlendum uppruna.