19. des. 2011 : Líf og fjör hjá Alþjóðlegum foreldrum Kópavogsdeildar

Mikið líf og fjör hefur verið í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi alla fimmtudagsmorgna í haust þegar foreldrar af fjölbreyttum uppruna hittast með börn sín til að taka þátt í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Foreldrarnir koma frá hinum ýmsu löndum eins og Póllandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Litháen, Portúgal, Rússlandi, Kína, Japan og Íslandi. Markmið deildarinnar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

15. des. 2011 : Enter- og Eldhugastarfi haustsins lýkur hjá Kópavogsdeild

Krakkarnir í Enter, starfi fyrir unga innflytjendur í Kópavogi, og Eldhugar, starfi Kópavogsdeildar fyrir unglinga af íslenskum og erlendum uppruna, ljúka samverum sínum í þessari viku.

12. des. 2011 : Nýr samstarfssamningur undirritaður um rekstur Dvalar

Nýr samstarfssamningur um rekstur athvarfsins Dvalar var undirritaður fyrir helgi. Athvarfið er fyrir fólk með geðraskanir og tryggir samningurinn áframhaldandi rekstur á næsta ári. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, formaður Kópavogsdeildar, og Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, undirrituðu samninginn í Dvöl.

8. des. 2011 : Kjörnefnd Kópavogsdeildar

Stjórn Kópavogsdeildar samþykkti á fundi sínum þann 1. desember síðastliðinn að mynda þriggja manna kjörnefnd sem gera á tillögu um hverjir verði í kjöri, í stjórn og varastjórn á aðalfundi deildarinnar 2012. Verkefni kjörnefndar er að undirbúa kosningar stjórnar- og skoðunarmanna í samræmi við lög félagsins og tryggja að nægilega margir hæfir einstaklingar verði í framboði til þess að fylla þau sæti sem laus eru.

6. des. 2011 : Vel heppnuð sjálfboðaliðagleði í Kópavogi

Kópavogsdeild bauð sjálfboðaliðum sínum í gleði í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans sem haldinn er árlega 5. desember. Alls mættu 55 sjálfboðaliðar og makar þeirra. Þeir áttu notalega stund saman yfir góðum veitingum, tónlist, söng og upplestri.

5. des. 2011 : Til hamingju með daginn, sjálfboðaliðar!

Í dag, 5. desember, er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og í tilefni dagsins vill Kópavogsdeild Rauða krossins færa sjálfboðaliðum sínum bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf. Starf Rauða krossins er borið upp af sjálfboðnu starfi og án sjálfboðaliða gæti deildin ekki haldið úti öllum þeim verkefnum sem hún er að sinna og bjóða upp á. Störf sjálfboðaliða eru deildinni mikils virði og það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga traustan hóp sjálfboðaliða að, án ykkar værum við ekki til. Til hamingju með daginn!

2. des. 2011 : Sjálfboðaliðagleði í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans verður haldin hátíð mánudaginn 5. desember í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11 fyrir alla sjálfboðaliða Kópavogsdeildar. Hátíðin stendur yfir frá kl. 19.30-21.30 og verður margt góðra gesta. Við bjóðum meðal annars upp á upplestur, tónlistaratriði og söng. Einnig verða ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi á boði. Þetta er kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða deildarinnar til að hittast og skemmta sér saman á aðventunni.

1. des. 2011 : Tekið á móti umsóknum vegna neyðaraðstoðar fyrir jólin til 6. desember, fylgigögn nauðsynleg

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Kópavogsdeild Rauða krossins veita neyðaraðstoð fyrir komandi jól til þeirra sem eiga lögheimili í Kópavogi þann 1. desember 2011. Tekið er á móti umsóknum frá 7. nóvember til og með 6. desember.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands tekur við umsóknum í Rauðakrosshúsinu að Hamraborg 11, virka daga kl. 9-15. Einnig er hægt að sækja um hjá Mæðrastyrksnefnd Kópavogs í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 á þriðjudögum kl. 16-18.

Nauðsynleg fylgiskjöl með umsókn:
*Afrit frá staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra.
*Búsetuvottorð frá Kópavogsbæ.