19. des. 2012 : Lokun um jól og áramót - Gleðilega hátíð

Rauði krossinn í Kópavogi færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.
Rauðakrosshúsið í Kópavogi verður lokað frá 20.desember en opnar aftur mánudaginn 7. janúar 2013 kl. 10.
Hægt er að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] og við svörum við fyrsta tækifæri.

Gleðilega hátíð! 

19. des. 2012 : Sjálfboðaliðagleði hjá Rauða krossinum í Kópavogi

Rauði krossinn í Kópavogi bauð sjálfboðaliðum í gleði í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans sem haldinn er árlega 5. desember. Hátíðin heppnasðist vel og sjálfboðaliðar áttu notalega stund saman yfir góðum veitingum, tónlist, söng og upplestri.
 

27. nóv. 2012 : Undirbúningur fyrir Jólabasarinn í fullum gangi

Nú er undirbúningur fyrir Jólabasar Rauða krossins í Kópavogi í fullum gangi en hann verður haldinn laugardaginn næsta 1.desember frá klukkan 12-16  í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð.

Í ár er úrvalið enn fjölbreyttara en áður þar sem á boðstólnum verða húfur, treflar, kragar, svuntur, töskur, og vettlingar fyrir allan aldur, handgerðir fylgihlutir og hárskraut, sem og að sjálfsögðu heilmikið úrval af gjafavöru í gæðaflokki.

Afurðirnar sem til sölu verða eru unnar af sjálfboðaliðum í Basarhópi og  verkefninu Föt sem framlag. Sjálfboðaliðar úr Menntaskólanum í Kópavogi taka einnig þátt með því að útbúa bakkels og  standa vaktina á sjálfum basarnum ásamt öðrum sjálfboðaliðum.

Rauði krossinn í Kópavogi hvetur sem flesta til að mæta, gera góð kaup og styrkja gott málefni en allur ágóði mun renna til verkefna deildarinnar innanlands

20. nóv. 2012 : Hundavinir - afrekshundar ársins 2012

Hundavinir Rauða krossins voru heiðraðir sem afrekshundar ársins 2012 á alþjóðlegri sýningu Hundaræktarfélags Íslands 17. nóvember síðastliðinn.

Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi veitti viðurkenningunni viðtöku og með henni mætti 21 heimsóknarhundur ásamt eigendum sínum.

9. nóv. 2012 : Met slegið í pökkun ungbarnapakka í Kópavogi

Met var slegið í pökkun ungbarnapakka þegar sjálfboðaliðar úr verkefninu Föt sem framlag hittust í Rauðkrosshúsinu í vikunni og pökkuðu ungbarnafötum í fatapakka sem síðan verða sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Hvíta Rússlandi. Fjöldi sjálfboðaliða pakkaði alls 408 pökkum á rúmum tveimur klukkutímum.

 

9. nóv. 2012 : Jólabasar Rauða krossins í Kópavogi 1.desember

Jólabasar Rauða krossins í Kópavogi  verður haldinn laugardaginn 24. nóvember  frá klukkan 12-16  í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2.hæð.

 

9. nóv. 2012 : Tilkynning - neyðaraðstoð fyrir jólin í Kópavogi

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Rauði krossinn í Kópavogi  veita neyðaraðstoð fyrir komandi jól til þeirra sem eiga lögheimili í Kópavogi þann 1. desember 2012. Tekið er á móti umsóknum frá 12. nóvember til og með 3. desember.

Rauði krossinn í Kópavogi  tekur við umsóknum í Rauðakrosshúsinu að Hamraborg 11, virka daga kl. 10-13. Einnig er hægt að sækja um hjá Mæðrastyrksnefnd Kópavogs í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 á þriðjudögum kl. 16-18.

 

8. nóv. 2012 : Vegleg gjöf frá sjálfboðaliðum í Sunnuhlíð

Heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð gáfu Rauða krossinum í Kópavogi veglega gjöf í vikunni sem leið, eða70 prjónuð teppi. Boðið er upp á prjón í virknistundum á heimilinu og hafa sjálfboðaliðarnir unnið að þessari gjöf allt árið. Allt garn sem notað var í teppin var fengið gefins en afgangsgarn er gjarnan nýtt í þessi teppi svo úr verður litríkt prjónaverk. Teppin verða nýtt í verkefnið Föt sem framlag sem miðar að því að vinna flíkur í þar til gerða ungbarnapakka. 7. nóvember fór fram pökkun í húsnæði Rauða krossins í Kópavogi þar sem ungbarnapakkarnir voru útbúnir og síðan sendir til Hvíta-Rússlands til barna og fjölskyldna í neyð. Rauði krossinn í Kópavogi er afar þakklátur heimilisfólkinu í Sunnuhlíð fyrir sitt framlag í þetta verðuga verkefni og nýtti tækifærið þegar teppin voru afhent til að kynna verkefnið í myndum og máli.

31. okt. 2012 : Námskeið í nóvember

Rauði krossinn í Kópavogi býður upp á tvö námskeið í nóvember. 7. nóvember verður haldið fjögurra tíma skyndihjálparnámskeið þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram dagana 21. og 22. nóvember. Þá verður meðal annars fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri.

31. okt. 2012 : Hrekkjavaka hjá Alþjóðlegum foreldrum

Alþjóðlegir foreldrar koma saman alla fimmtudaga í húsnæði Rauða krossins í Kópavogi. Samverurnar hafa verið mjög vel sóttar í haust og ríkir ávallt mikil stemmning í húsinu þegar það fyllist af kátum krökkum. Í liðinni viku var haldin Hrekkjavaka og mættu börnin í búningum. Til að mynda var þar að finna ofurhetjur, prinsessur og grasker.

26. okt. 2012 : Tombóla til styrktar börnum í neyð

Vinkonurnar Hildur Ylfa Eyþórsdóttir, Anna Lilja Aðalsteinsdóttir og Eik Ægisdóttir úr Hörðuvallaskóla héldu tombólu á dögunum fyrir utan Samkaup. Þær fengu gefins dót frá nágrönnum og fjölskyldu til að selja á tombólunni. Afraksturinn, rúmar 4000 krónur, afhentu þær Rauða krossinum í Kópavogi til styrktar börnum í neyð. 

25. okt. 2012 : Álafoss styrkir verkefnið Föt sem framlag með kaupum á handverki sjálfboðaliða

Verkefnið Föt sem framlag er eitt af stærstu verkefnum Kópavogsdeildar. Verkefnið er margþætt og sinna sjálfboðaliðar deildarinnar ýmis konar störfum sem miða að því að nýta föt til að aðstoða aðra.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar vinna við að flokka föt, þeir vinna í Rauða kross búðunum við afgreiðslu og sinna einnig handavinnu sem er seld til fjáröflunar eða úthlutað til fólks í neyð. Sá hópur sem vinnur að gerð fatnaðar til barna og fjölskyldna í neyð hittist síðasta miðvikudaginn kl. 15-18 í hverjum mánuði í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg í svokölluðu prjónakaffi. Þá fá sjálfboðliðarnir garn til að prjóna úr og tækifæri til að eiga skemmtilega stund saman. Hópurinn hittist einnig reglulega og pakkar flíkunum í þar til gerða ungbarnafatapakka sem sendir eru erlendis til barna og fjölskyldna í neyð. Síðustu ár hafa pakkarnir aðallega verið sendir til Malaví og Hvíta-Rússlands.
 

Þá er einnig starfræktur basarhópur hjá deildinni en hlutverk hans er að útbúa ýmis konar handverk

22. okt. 2012 : Söfnuðu 36 þúsund krónum til styrktar hjálparstarfi fyrir börn

Þórhildur E. Ásgeirsdóttir, María Líf Flosadóttir, Viktor Snær Flosason og Guðlaug E. Helgadóttir úr Kársnesskóla stóðu ásamt fjölda vina fyrir mikilli söfnun til styrktar hjálparstarfi fyrir börn. Þau héldu fjölmargar tombólur um helgar fyrir utan sundlaug Kópavogs og söfnuðu þannig 36 þúsund krónum sem þau færðu Rauða krossinum í Kópavogi. Mikill metnaður var í hópnum fyrir söfnuninni og lögðu fjölmargir vinir þeirra og fjölskyldur söfnuninni lið.

8. okt. 2012 : Mikil þátttaka í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs til styrktar börnum í neyð

Mikil stemning skapaðist í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg síðastliðinn laugardag þegar Rauði krossinn í Kópavogi tók þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs.  Stefnt var að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum en það munaði afar litlu að það metnaðarfulla markmið næðist. Mikill fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í söfnuninni en rúmlega 200 manns gengu með bauka í hús í Kópavogi eða söfnuðu á fjölförnum stöðum. Söfnunarfénu í ár verður varið í alþjóðleg verkefni á vegum Rauða krossins fyrir börn í neyð í nokkrum löndum, svo sem í Sómalíu, Hvíta-Rússlandi, Palestínu, Malaví og á Haíti. Fyrstu tölur sýna að í ár safnaðist rúmlega hálfri milljón meira í Kópavogi en í síðustu Göngum til góðs söfnun árið 2010.

5. okt. 2012 : Göngum til góðs á morgun, laugardaginn 6. október

Á morgun, laugardaginn 6.október, verður „Gengið til góðs“ í sjöunda sinn þar sem safnað verður fyrir börnum í neyð. Þá verður gengið með söfnunarbauka í hús um allt land og þarf Rauði krossinn í Kópavogi á fjölmörgum sjálfboðaliðum að halda.

1. okt. 2012 : Göngum til góðs og hjálpum börnum í neyð

Dálítil gönguferð laugardaginn 6. október er góð fyrir bæði sál og líkama. Vertu með, gakktu með okkur eða taktu vel á móti göngufólki. Þinn stuðningur getur skipt sköpum í lífi barns í neyð.

Skráðu þig í gönguna

27. sep. 2012 : Landssöfnun 6. október 2012. Hjálpum börnum í neyð!

Rauði krossinn í Kópavogi  tekur þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 6. október. Stefnt er að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum. Við þurfum því á liðsinni fjölda sjálfboðaliða að halda. Í ár verður gengið til góðs fyrir börn í neyð. Söfnunarfénu verður því varið í verkefni á vegum Rauða krossins fyrir börn í neyð í nokkrum löndum, svo sem í Sómalíu, Hvíta-Rússlandi, Palestínu, Malaví og á Haíti.

20. sep. 2012 : Óskað er eftir hljóðfæraleikara til að sinna undirspili í söngstundum

 Óskað er eftir hljóðfæraleikara til að sinna undirspili í  söngstundum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Söngstundirnar eru vikulega á mánudögum kl. 15-16 og eru hugsaðar sem afþreying fyrir heimilisfólk Sunnuhlíðar. Sjálfboðaliðar sjá um söng og nú vantar píanóleikara eða gítarleikara til að sjá um undirspil. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected].

17. sep. 2012 : Námskeið um slys og veikindi barna í næstu viku

26. og 27. september n.k. verður námskeiðið Slys og veikindi barna haldið hjá Rauða krossinum í Kópavogi. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Meðal annars er leiðbeint í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn, hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

Enn eru nokkur pláss laus. Hægt er að skrá sig með því að smella hér eða hafa samband í síma 554-6626.

*Leiðbeinandi er Sigrún Pétursdóttir, hjúkrunarfræðingur.
*Námskeiðsgjald: 8.000kr. á mann. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fá ókeypis á námskeiðið og félagsmenn sem greitt hafa félagsgjaldið fyrir 2012 fá 10% afslátt.
*Innifalin eru námskeiðsgögn og skírteini sem staðfestir þátttöku.

13. sep. 2012 : Mikil stemning þegar alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Kópavogi

Vikulegar samverur alþjóðlegra foreldra eru hafnar á ný og margt spennandi í boði  á haustmánuðum. Alþjóðlegir foreldrar er hópur íslenskra og erlendra foreldra sem hittist alla fimmtudaga kl. 10-12 í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi með börnin sín á aldrinum 0-6 ára. Á samverum er reglulega boðið upp á ýmiss konar fræðslu sem tengist börnum eða innflytjendum á Íslandi. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar í boði. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun foreldra af erlendum uppruna.

12. sep. 2012 : Tombóla á Hamraborgarhátíðinni

Alex Kristinsson og Sylvía Þorleifsdóttir tóku þátt í Hamraborgarhátíðinni sem haldin var 1. september s.l. Þau héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum fyrir utan Reyni bakara. Afraksturinn var 13.867 sem þau færðu Rauða krossinum til þess að hjálpa börnum. 

11. sep. 2012 : Rauði krossinn fær öfluga sjálfboðaliða til að standa vaktina í versluninni á Laugavegi 12!

Fyrirtækið Auður Capital telur það góðan sið að fyrirtæki láti eitthvað af hendi rakna til samfélagsaðstoðar og vill það leggja þeim lið sem stuðla að jákvæðri uppbyggingu og framförum.

Dagsverk Auðar er samfélagsverkefni starfsmanna Auðar, sem felst m.a. í því að allir starfsmenn vinna sem nemur einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis. Starfsmennirnir velja sjálfir verkefni sem hljóta fjár- eða vinnuframlag. Rauði kross Íslands hefur notið góðs af Dagsverki Auðar, því árið 2009 sáu starfsmenn þeirra um að manna eina vakt í heilt ár í einni af verslunum Rauða krossins. Samstarfið var mjög ánægjulegt fyrir alla aðila og nú hafa þau boðist til að endurtaka leikinn. 

5. sep. 2012 : Duglegar tombólustelpur

Vinkonurnar Bryndís Perla Garðarsdóttir og Kolbrún Lena Rafnsdóttir úr Snælandsskóla héldu tombólu fyrir utan Snælandsvídeó í sumar. Þær söfnuðu 2653kr sem þær færðu  Rauða krossinum í Kópavogi. Rauði krossinn þakkar þessum duglegu stelpum. 

1. sep. 2012 : Mikil sala á handverki sjálfboðaliða á Hamraborgarhátíð

Rauði krossinn í Kópavogi tók þátt í Hamraborgarhátíðinni sem haldin var í dag, laugardaginn 1.september. Margt var um manninn og  sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra sem innan og seldu prjóna- og saumavörur sjálfboðaliða. Salan gekk langt framar vonum og ágóðinn, alls 90.000 krónur mun renna til verkefna deildarinnar innanlands.

Gestir fengu einnig tækifæri til að kynna sér starf og verkefni deildarinnar, auk þess sem boðið var upp á kaffi.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka sjálfboðaliðum sem unnu í dag, sem og þeim sem vinna allt það fallega handverk sem var til sölu innilega fyrir þeirra störf.

Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um verkefni deildarinnar eða taka þátt í því geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða sent tölvupóst á [email protected]

31. ágú. 2012 : Rauði krossinn í Kópavogi tekur þátt í Hamraborgarhátíð

Rauði krossinn í Kópavogi verður með opið hús í húsnæði sínu að Hamraborg 11, 2. hæð  á morgun, laugardaginn 1. september í tilefni af Hamraborgarhátíðinni. Þar verður til sölu fjölbreytt handverk sjálfboðaliða og allur ágóði af þeirri sölu mun renna til verkefna innanlands. Heitt verður á könnunni og hægt verður að kynna sér starf og verkefni deildarinnar kl. 12-15.

Ásamt Rauða krossinum í Kópavogi munu menningarstofnanir, listamenn, íþróttafélög og fleiri að setja skemmtilegan svip á Hamraborgina þennan dag.

Verið velkomin!

29. ágú. 2012 : Sjálfboðaliðar fjölmenna í Prjónakaffi

Í dag var haldið fyrsta prjónakaffi í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi eftir sumarfrí en það er jafnan haldið síðasta miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 15-18. Prjónaglaðir sjálfboðaliðar fjölmenntu líkt og vanalega og komu með prjónaflíkur sem þeir höfðu unnið að frá því í vor. Í leiðinni fengu þeir meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo var boðið upp á kaffi og meðlæti og áttu sjálfboðaliðarnir ánægjulega stund saman.

Prjónahópurinn tilheyrir verkefninu Föt sem framlag og prjónar, heklar og saumar ungbarnaföt sem send eru til fjölskyldna og barna í neyð bæði í  Afríkuríkinu Malaví og Hvíta Rússlandi. Sjálfboðaliðarnir útbúa pakka með fötunum en í þá fer prjónuð peysa, teppi, sokkar, húfa og bleyjubuxur ásamt handklæði, buxum og samfellum. Rauði krossinn í Kópavogi sendir alla jafna hundruði pakka á ári hverju og nú þegar eru þeir orðnir 346 en fleiri pakkar verða útbúnir í október næstkomandi.

Þeir sem vilja styrkja verkefni með garnafgöngum er bent á að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]. Allir afgangar eru virkilega vel þegnir. 

20. ágú. 2012 : Viltu gefa gæðastund?

Þann 30. ágúst næstkomandi kl. 18-20.30  verður haldið námskeið fyrir verðandi heimsóknavini ef næg þátttaka næst. Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér en námskeiðið verður haldið á Landsskrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti 9.

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru eitt af umfangsmestu verkefnum Kópavogsdeildar og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi.

Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við ýmsar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn. Heimsóknavinir sjá einnig um söngstundir og aðra afþreyingu fyrir unga sem aldna á stofnunum.

14. ágú. 2012 : Hafa safnað nær 50.000 krónum á árinu til styrktar börnum í neyð

Vinkonurnar Berglind Freyja Hilmarsdóttir, Sólveig Þórarinsdóttir og Áróra Hallmundardóttir færðu Rauða krossinum í Kópavogi afrakstur tombólusölu sumarsins í dag. Þær héldu 4 tombólur og söfnuðu rúmum 37.000kr. Tombólurnar héldu þær hjá Stöðinni við Smáralind, á Smáratorgi og við Krónuna. Þessar duglegu stelpur söfnuðu saman eigin dóti til að selja en gengu einnig í nágrannahús til þess að fá dót á tombólurnar.  Í febrúar færðu þær Rauða krossinum einnig rúmar tíu þúsund krónur, sem var afrakstur tombólu sem þær héldu fyrir utan Stöðina hjá Smáralind. Samtals hafa þær því safnað nær 50.000kr sem renna í sérstakan hjálparsjóð sem ráðstafað er úr einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð.

Rauði krossinn færir þessum duglegu stelpum sérstakar þakkir.

13. ágú. 2012 : Rauðakrosshúsið í Kópavogi opnar aftur eftir sumarfrí

Rauðakrosshúsið í Kópavogi hefur opnað aftur eftir sumarlokun. Undirbúningur fyrir verkefni haustsins er nú í fullum gangi. Nú þegar eru nokkur námskeið komin á döfina sem hægt er að skrá sig á. Rauði krossinn í Kópavogi býður upp á þrjú skyndihjálparnámskeið á haustmánuðum þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Þá verður boðið upp á námskeiðið Slys og veikindi barna þar sem meðal annars er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Dagsetningar verða auglýstar síðar hér á síðunni. Námskeið fyrir verðandi heimsóknavini verða haldin einu sinni í mánuði. Fyrsta námskeiðið verður haldið 30. ágúst n.k ef næg þátttaka næst. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

3. júl. 2012 : Sumarlokun í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi

Rauðakrosshúsið í Kópavogi er lokað frá 2. júlí og opnar aftur þriðjudaginn 7. ágúst og verður þá opið sem fyrr alla virka daga kl. 9-15. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected] og við höfum samband við fyrsta tækifæri.

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu sumarkveðjur.

2. júl. 2012 : Vinkonur halda tombólu til styrktar Rauða krossinum

Vinkonurnar Bryndís Laufey og Esther Ósk héldu tombólu á dögunum við verslunina 10-11 í Hjallabrekku. Áður höfðu stelpurnar gengið í nágrannahús og safnað dóti til þess að hafa á tombólunni. Afrakstur tombólunnar var tæpar 3000 krónur. 

2. júl. 2012 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Vinkonurnar Hanna Álfheiður, Björg Þórunn, Gabríela og Emilía héldu tombólu fyrir utan Hagkaup í Garðabæ til styrktar Rauða krossinum. Samtals söfnuðust tæplega 6000 krónur sem þær færðu Rauða krossinum til styrktar börnum í neyð. 

26. jún. 2012 : Tombóla

Systkinin Breki, Katla og Svava héldu tvær tombólur á dögunum við Nettó í Salahverfi og fyrir framan Bónus á Smáratorgi. Þau söfnuðu alls 5.051kr sem þau færðu Rauða krossinum til styrktar börnum í neyð.

20. jún. 2012 : Heimsóknavinir Kópavogsdeildar sinna fjölbreyttum verkefnum

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru eitt af umfangsmestu verkefnum Kópavogsdeildar og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi.

Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við alls konar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn þó þeir eigi jafnvel stórar fjölskyldur.

Heimsóknavinir heimsækja fólk í heimahúsum og veita því félagsskap með því að spila, spjalla og fara í göngu- eða ökuferðir, svo eitthvað sé nefnt. Heimsóknavinir heimsækja heimilisfólk á hjúkrunarheimilinum í Sunnuhlíð, Boðaþingi og  fólkið sem býr á sambýlum aldraðra í Gullsmára og  Roðasölum. Í Sunnuhlíð og Roðasölum eru einnig starfandi sönghópar sem sem syngja og spila fyrir heimilisfólk. Börnin í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, njóta einnig félagsskapar heimsóknavina og heimsóknavinur sinnir upplestri á líknardeildinni í Kópavogi

18. jún. 2012 : Sumarferð í Hvalfjörð og listaverk í mótun

Í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, hefur sumarið borið með sér mikla gleði. Þriðjudaginn 12. júní var farið í ferð um Hvalfjörðinn og á Skagann. Í Hvalfirði var stoppað í ríki Gauja litla á Hlöðum og hernámssafnið skoðað. Gaui litli tók á móti okkur og sýndi okkur staðinn og þar borðuðum við hádegismat. Frá Hlöðum lá leiðin á Skagann og var safnasvæðið á Akranesi skoðað í krók og kima. Á safnasvæðinu eru nokkur söfn þar á meðal íþróttasafn, steinasafn og minjasafn.  Margt að skoða og upplifa. 

14. jún. 2012 : Garmarnir gefa gömlum flíkum nýtt líf

Verslanir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu munu vera í samstarfi með tveimur ungum listakonum í sumar.

Rakel Jónsdóttir fatahönnunarnemi og Þyri Huld Árnadóttir dansari standa fyrir verkefni sem þær kalla Garmarnir. Þessar ungu konur fengu styrk frá Hinu húsinutil að vinna skapandi störf í sumar.

12. jún. 2012 : Sungið, spilað og galdrað á vorgleði sjálfboðaliða

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðar deildarinnar fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja.


 

5. jún. 2012 : Kvennahlaup ÍSÍ styður Rauða krossinn

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rauði krossinn og Sjóvá standa fyrir söfnun á brjóstahöldum og öðrum undirfötum í tengslum við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ sem fram fer þann 16. júní.

5. jún. 2012 : Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar verður haldin 9. júní kl. 12-14 í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43.

 

30. maí 2012 : Gakktu í bæinn fimmtudagskvöldið 31. maí frá kl. 18-22

Dagana 31. maí - 3. júní stendur yfir lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar í Hafnarfirði. Þetta er í tíunda sinn sem Hafnarfjarðarbær efnir til hátíðarinnar á þessum bjartasta tíma ársins. Kíktu í Rauðakrossbúðina á Strandgötu 24 og gerðu góð kaup á Björtum dögum fimmtudagskvöldið 31. maí til kl. 22.

 

 

25. maí 2012 : Líf og fjör hjá Alþjóðlegum foreldrum

Alþjóðlegir foreldrar héldu lokasamveru þessa vetrar í liðinni viku en þeir hafa hist alla fimmtudaga í vetur í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi. Verkefnið er í boði fyrir foreldrar allra landa en markmiðið með því er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára.
Boðið er upp á samverur þar sem reglulega fara fram fjölbreyttar kynningar og fræðsla fyrir foreldrana. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar í boði.

Í vetur hafa foreldrar frá hinum ýmsu löndum tekið þátt í starfinu líkt og Svíþjóð, Noregi, Kanada, Póllandi, Mexíkó, Spáni, Litháen, Þýskalandi, Kína, Japan og Íslandi og úr því myndast góður hópur sem ætlar að halda sambandi áfram. Á dagskrá var meðal annars svefnráðgjöf barna frá Landspítalanum, fræðsla um holla næringu fyrir börn, fyrirlestur um málþroska tvítyngdra barna, kynning á þroskaleikföngum og heimsókn frá Tónagulli þar sem foreldrarnir fengu fræðslu um tónlistaruppeldi. Auk þess voru fastir liðir eins og þegar þátttakendur koma með veitingar frá sínu heimalandi en þær samverur eru kallaðar,, a taste from home session”. 

25. maí 2012 : Viðurkenning fyrir verkefnið Hundaheimsóknavinir

Á aðalfundi Rauða krossins sem haldinn var þann 19. maí 2012 var Brynju Tomer veitt viðurkenning fyrir verkefnið Hundaheimsóknavinir. Brynja hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafi og hefur séð um námskeið fyrir verðandi hundavini og skapgerðamat fyrir hundana sem taka þátt í verkefninu.

24. maí 2012 : Börn og umhverfi í júní

Ákveðið hefur verið að bæta við einu námskeiði Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild.
Námskeiðið er 16 kennslustundir og skiptist á 4 kvöld, dagana 6., 7., 11. og 12. júní.
Kennt er öll kvöldin frá kl. 17-20.   

22. maí 2012 : Ertu að taka til í skápunum ?

Þegar tekið er til í skápum er alltaf eitthvað sem hentar ekki lengur og við viljum losa okkur við fatnað, handklæði og sængurföt, gardínur, skó og fleira. Margir spyrja hvað sé best að gera við það sem þarf að losna við, því flest okkar viljum ógjarnan henda einhverju sem aðrir geta haft gagn af. Svarið er, að Rauði krossin tekur við þessu öllu.

Söfnunargáma Rauða krossins er að finna um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði og eru söfnunargámar á öllum endurvinnslustöðum Sorpu. Stundum eru gámar við húsnæði deilda en oft eru þeir líka við áhaldahús eða gámasvæði sveitarfélaga og víðar. Með því að setja fatnað og vefnaðarvöru í söfnunargáma Rauða krossins styrkjum við fólk í neyð. 

16. maí 2012 : Fatasöfnunardagur Rauða krossins og Eimskips á Uppstigningardag 17. maí

Taktu þátt í fatasöfnunardegi Rauða krossins og Eimskips á morgun og komdu með gömlu fötin þín, skó, handklæði, rúmföt, gluggatjöld og aðra vefnaðarvöru á fatasöfnunarstöðvar Rauða krossins fimmtudaginn 17. maí. Allur fatnaður, hvort sem hann er slitinn eða heill, nýtist Rauða krossinum í hjálparstarfi hérlendis sem erlendis.

16. maí 2012 : Fataúthlutun Rauða krossins - sumarlokun

Lokað verður hjá Fataúthlutun Rauða krossins frá 1. júlí.
Fyrsta fataúthlutun eftir frí verður miðvikudaginn 15. ágúst.

 

The Clothing Service Centre of The Red Cross is closed from 1st of July.
The Clothing Service Centre reopens on Wednesday August 15 th.

15. maí 2012 : Viltu tala meiri íslensku? fer í sumarfrí

Nú er samverum í  verkefninu Viltu tala meiri íslensku? lokið í bili en þátttakendurnir í verkefninu voru með lokasamveru fyrir sumarfrí í liðinni viku. Hópurinn hefur hist vikulega í allan vetur í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs en þess fyrir utan hefur hann einnig hist á kaffihúsum, horft á kvikmyndir og farið  á listasýningar svo eitthvað sé nefnt.

Viltu tala meiri íslensku? er verkefni sem  hófst í janúar 2009 hjá Kópavogsdeild. Þar hitta íslenskir sjálfboðaliðar innflytjendur og tala saman á íslensku. Með verkefninu vildi Kópavogsdeild miða að því að ná til innflytjenda og gefa þeim tækifæri til að þjálfa sig í íslensku og bæta orðaforða sinn. Verkefninu er einnig ætlað að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

Á samverum gefst fólki af erlendum uppruna tækifæri til að tala íslensku frjálslega og þjálfa sig í notkun málsins við ýmsar aðstæður. Þátttaka í verkefninu hefur aukist með árunum og margir einnig verið þátttakendur í því frá því það hófst.

9. maí 2012 : Börn styrkja börn

Katla Pétursdóttir og vinkona hennar Ísabella Eir héldu tombólu á dögunum fyrir utan Bónus. Afraksturinn voru rúmar 2000kr sem þær gáfu Rauða krossinum.

Stuðningur tombólubarna er ákaflega mikils virði og fara peningarnir sem þannig safnast til að styrkja hjálparstarf fyrir börn. Rauði krossinn þakkar þessum ungu sjálfboðaliðum fyrir dugnaðinn.

Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, alla virka daga á milli kl. 9-15.

9. maí 2012 : Góðverk fyrir önnur börn

Vinirnir Hlynur Freyr og Henrik úr 4. bekk í Kópavogsskóla vildu gera góðverk fyrir önnur börn. Þeir söfnuðu dósum og var afraksturinn af söfnuninni 1000kr sem þeir færðu Rauða krossinum til þess að hjálpa öðrum.

Rauði krossinn metur mikils framtak þeirra en framlagið rennur í sérstakan hjálparsjóð á landsvísu. Einu sinni á ári er ráðstafað úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis.

Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, alla virka daga á milli kl. 9-15.

8. maí 2012 : Nemendur ljúka áfanga um sjálfboðið starf í MK

Nú hafa 15 nemendur í áfanganum SJÁ 102 við Menntaskólanum í Kópavogi lokið námi sínu á þessari önn. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum. Nemendurnir gátu valið um sjálfboðin störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, í athvarfinu Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, í Sunnuhlíð, dvalarheimili aldraðra í Kópavogi og í Fatabúðum Rauða krossins víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

4. maí 2012 : Öflugt kynningarstarf og fræðsla hjá Kópavogsdeild

Kópavogsdeild hefur sinnt öflugu fræðslu og kynningarstarfi í vetur. Má þar nefna heimsóknir í skóla með kynningu á starfi Rauða krossins og dreifingu kynningarefnis um hin fjölbreyttu verkefni deildarinnar líkt og heimsóknar -og hundavinaverkefnin. Auk þess voru ungir sjálfboðaliðar deildarinnar með umsjón yfir kynningarstarfi í félagsmiðstöðvum bæjarins. Hópurinn hefur nú farið með kynningar inn í langflestar félagsmiðstöðvar bæjarins og þar með náð til fjölmargra ungmenna á aldrinum 13-16 ára í Kópavogi. Kynningin samanstendur af fræðslu um Rauða krossinn, markmið hans, uppruna og starfsemi bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Þá er vakin athygli á fordómum og  farið í skemmtilega leiki með það að markmiði að vekja ungt fólk til umhugsunar. Deildin hefur líka haldið erindi  í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Menntaskólanum í Kópavogi.

Að auki hefur fjöldi fólks sótt námskeið á vegum deildarinnar í vetur líkt og Skyndihjálp, Slys og veikindi barna og Börn og umhverfi.

26. apr. 2012 : Sjálfboðaliða vantar í fatabúðir

Kópavogsdeild leitar að sjálfboðaliðum til starfa í fatabúðum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

 

23. apr. 2012 : Námskeiðin Börn og umhverfi að hefjast hjá Kópavogsdeild

Námskeiðin Börn og umhverfi eru að hefjast hjá Kópavogsdeild Rauða krossins. Fullbókað er á námskeiðið sem hefst í dag. Næstu námskeið verða 7.-10. maí og 21.- 24. maí. Enn eru laus pláss á þau námskeið og hægt að skrá sig hér

14. apr. 2012 : Takk fyrir stuðninginn!

Vorbasar deildarinnar var haldin í dag og var afraksturinn 190.000 þúsund krónur. Fjármagnið verður nýtt í verkefni deildarinnar innanlands. Á basarnum var hægt að gera góð kaup á alls kyns handverki sjálfboðaliða.  Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag lögðu til prjónavörur,  sjálfboðaliðar í basarhópi lögðu til ýmis konar handverk og nemar í MK mættu með bakkelsi auk þess að vinna á markaðnum ásamt öðrum sjálfboðaliðum deildarinnar. Handverk sjálfboðaliða verður áfam til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11, 2. hæð og hægt að gera góð kaup á virkum dögum kl. 9-15.

Deildin færir sjálfboðaliðum sem lögðu fram krafta sína fyrir basarinn bestu þakkir sem og öllum þeim sem styrktu deildina með kaupum sínum. Takk fyrir!

13. apr. 2012 : Risabasar í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur RISAbasar á morgun laugardaginn 14. apríl kl. 12-16 í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð. Þar verður hægt er að gera góð kaup á alls kyns handverki sjálfboðaliða deildarinnar en þeir hafa staðið í ströngu við að undirbúa Basarinn síðustu vikur. Í boði verða prjóna- og saumavörur af ýmsu tagi. Meðal annars treflar, peysur, húfur, vettlingar og sokkar í ýmsum stærðum, ungbarnateppi, saumaðar töskur, hárskraut, gjafakort og margt fleira.Nemendur úr áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi verða einnig með kökubasar á staðnum.

Allur ágóði af markaðnum rennur til verkefna Kópavogsdeildar innanlands.

 

13. apr. 2012 : Samningur um rekstur Rauðakrossbúðanna á höfuðborgarsvæðinu

Deildir á höfuðborgarsvæði hafa gert með sér samstarfssamning um rekstur Rauðakrossbúðanna á svæðinu og mun Kópavogsdeild Rauða krossins fara með stjórnun verkefnisins fyrir hönd deildanna. Markmiðið með sölu á notuðum fatnaði í Rauðakrossbúðunum er að afla tekna í Hjálparsjóð Rauða kross Íslands, fyrir 1717 og deildir á svæðinu. 

11. apr. 2012 : Undirbúningur fyrir Risabasar í fullum gangi

Undirbúningur fyrir Risabasar Kópavogsdeildar á laugardaginn næstkomandi er nú í fullum gangi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg. Basarhópurinn hefur hist alla þriðjudaga í haust til að útbúa handverk á basarinn en ungmennin í hönnunarhóp Plússins eiga einnig vörur á basarnum. Þá hafa sjálfboðaliðar í Föt sem framlag einnig lagt til vörur á basarinn. Öllum söluvörunum verður svo raðað upp í salnum á föstudaginn og allt gert tilbúið fyrir þennan Risabasar.

22. mar. 2012 : Rauði kross Íslands tekur þátt í Hönnunarmars

Í gamla Sautján húsinu að Laugavegi 89 verður mikið um að vera á Hönnunarmars sem stendur yfir dagana 22.- 25.mars. Þar hafa 37 íslenskir fata- og skartgripahönnuðir komið upp aðstöðu til að sýna nýjustu framleiðslu sína. Gestum gefst kostur á að hitta hönnuðina og gera góð kaup.

Rauðakrossverslun verður opnuð í kjallaranum og hefur fatnaðurinn sem þar er til sölu verið sérstaklega valinn fyrir þetta tilefni. Þar munu því leynast gersemar á góðu verði sem vert er að kíkja á. Allur ágóði af sölu í Rauðakrossversluninni rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.

21. mar. 2012 : Framkvæmdastjóri Rauða krossins í Síerra Leone heimsækir Kópavogsdeild

Í gær kom Emmanuel Tommy, framkvæmdastjóri Rauða Krossins í Síerra Leone, í heimsókn til Kópavogsdeildar en hann er hér á landi til þess að taka þátt í Málefnaþingi Rauða krossins um alþjóðlegt hjálparstarf.

Ástæða þess að Emmanuel heimsótti Kópavogsdeild sérstaklega er sú að deildin er með svokallað Vinaverkefni sem  miðar að því að aðstoða ungmenni við að koma undir sig fótunum eftir stríðshörmungar í Síerra Leone. Þar eru rekin endurhæfingarathvörf þar sem ungmenni læra að lesa og skrifa og fá þjálfun í iðngrein að eigin vali en Vinaverkefnið er hluti af langtímaverkefni í alþjóðlegu hjálparstarfi sem Rauði kross Íslands tekur þátt í. Kópavogsdeild styður við afmarkaða verkþætti innan verkefnisins en þeir eru ákvarðaðir í samstarfi við alþjóðasvið Rauða kross Íslands hverju sinni. Stuðningurinn miðar þó alltaf að því að aðstoða ungmenni við að vinna að sinni iðngrein eftir útskrift.

Hópur sjálfboðaliða úr Vinaverkefninu og stjórn deildarinnar tóku vel á móti Emmanuel. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, formaður deildarinnar, kynnti fyrir honum helstu verkefni deildarinnar og  Arndís Ósk Ólafsdóttir, hópstjóri sjálfboðaliða í Vinaverkefninu fór sérstaklega í gegnum starf hópsins og aðkomu Kópavogsdeildar að verkefninu. Hún sagði frá nýjum fjáröflunarhugmyndum hópsins og leiðum sem hann vinnur að með það að markmiði að geta stutt enn frekar við ungmennin í endurhæfingarathvarfinu.

15. mar. 2012 : Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar útbúa fatapakka til ungbarna í neyð

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittust í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi  í gær og pökkuðu ungbarnafötum. Fatapakkarnir verða síðan sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Hvíta Rússlandi. Fjöldi sjálfboðaliða úr verkefninu mætti til að taka höndum saman og pakkaði hvorki meira né minna en 252 pökkum á tæpum tveimur klukkutímum. Í pakkana fara prjónaðar peysur, húfur, sokkar, teppi og bleyjubuxur ásamt samfellum, treyjum, buxum, handklæðum og taubleyjum. Hópurinn hefur sent frá sér alls um 680 pakka frá því á síðasta ári.

13. mar. 2012 : Aðalfundur Kópavogsdeildar

Fimmtudaginn 8. mars var haldinn aðalfundur Kópavogsdeildar og mættu um 30 manns á fundinn. Fundarstjóri var Svanfríður Lárusdóttir. Rúna H. Hilmarsdóttir, fulltrúi kjörnefndar kynnti frambjóðendur en auk hennar sátu Anna Þrúður Þorkelsdóttir og Garðar Briem í nefndinni. Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir í stjórn. Katrín Þórðardóttir var kjörin í aðalstjórn til eins árs og Aðalheiður Gylfadóttir var kjörin í varastjórn til eins árs. Kópavogsdeild býður nýja stjórnarmenn velkomna til starfa.

2. mar. 2012 : Sjálfboðaliðar úr Basarhópi og Hönnunarhópi Plússins útbúa handverk fyrir vorbasar Kópavogsdeildar

Undirbúningur fyrir vorbasar Kópavogsdeildar er nú í fullum gangi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg. Basarhópur hittist alla þriðjudaga frá kl.10-14 og Hönnunarhópur Plússins hittist annan hvern fimmtudag kl.19.30-21. Sjálfboðaliðarnir í hópunum eru að prjóna húfur, trefla, kraga og vettlinga. Sauma svuntur og töskur, handgera fylgihluti og hárskraut, þæfa ljósaseríur og margt fleira. Fyrir utan varninginn sem þessir tveir hópar útbúa þá munu sjálfboðaliðar í Föt sem framlag einnig leggja til margskonar prjónavörur á basarinn. 

  

22. feb. 2012 : Slípa íslenskuna í spjalli

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Kópavogi kenna nýbúum málið. Afslappað andrúmsloft og áherslan á að efla færni með samræðu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22.02.2012

20. feb. 2012 : Tombóla

Vinirnir Axel Ingi, Dagur Ingi og Emil Grettir héldu tombólu á dögunum fyrir utan Nettó í Kópavogi.  Þeir höfðu safnað alls konar dóti frá fjölskyldu og vinum til að selja á tombólunni. Afraksturinn var rúmlega 6000kr sem þeir færðu Rauða krossinum til þess að hjálpa öðrum.

20. feb. 2012 : Tombóla

Vinkonurnar Áróra, Berglind Freyja og Sólveig Rut héldu tombólu á dögunum. Þær voru í rúma 5 tíma fyrir utan Stöðina við Smáralind. Starfsfólk á Stöðinni tók þeim mjög vel og gáfu þeim m.a. kakó. Stúlkurnar komu í Rauðakrosshúsið í Hamraborg 11 með afraksturinn sem var rúmlega 10.000kr. 

15. feb. 2012 : Bjargaði lífi móður sinnar

Theodór Fannar Eiríksson var meðal þeirra sem tilnefndir voru til skyndihjálparmanns ársins 2011. Theodór tók á móti viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi fyrr í vikunni. Viðurkenninguna hlaut hann fyrir að bjarga lífi móður sinnar þegar eldur kom upp í íbúð þeirra og læstist í móður hans. Viðbrögð Theodórs voru hárrétt en hann rúllaði móður sinni inn í teppi og slökkti þannig eldinn og kom henni út úr húsinu. Atvikið átti sér stað í desember sl.

11. feb. 2012 : Bjargaði lífi dóttur sinnar með hjartahnoði

Rauði kross Íslands hefur valið Gísla Örn Gíslason sem skyndihjálparmann ársins 2011 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu þegar dóttir hans fór í hjartastopp á heimili þeirra þann 29. janúar 2011. Gísli tók við viðurkenningu Rauða krossins í göngugötunni í verslunarmiðstöðinni Smáralind kl. 14:00 í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.

9. feb. 2012 : Nýir söngvinir bætast í hópinn hjá Kópavogsdeild

Tveir nýjir söngvinir hafa bæst í hóp heimsóknavina Kópavogsdeildar sem taka þátt í söngstundum á dvalarheimilum fyrir aldraða. Einnig hefur nýr sjálfboðaliði sem spilar á gítar hafið störf í sambýlinu fyrir aldraða í Roðasölum. Þar spilar hann undir og syngur með vistmönnum og fleiri sjálfboðaliðum. Hann leysir einnig af í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð á meðan leitað er að öðrum gítarspilara til þess að sjá um söngstundina þar á fimmtudögum.

1. feb. 2012 : Eldhugastarf í félagsmiðstöðvum Kópavogs

Hópur ungra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar hefur tekið að sér umsjón með kynningarstarfi Eldhuga í félagsmiðstöðvum bæjarins. Hópurinn hefur undirbúið sig vel og samanstendur af sjálfboðaliðum deildarinnar sem sumir hverjir hafa tekið þátt í starfinu frá unga aldri.

1. feb. 2012 : Tombóla

Vinkonurnar Viktoría Rós Antonsdóttir og Embla Helgadóttir Isaksen í 3.SGG í Álfhólsskóla héldu tombólu á dögunum. Þær seldu jólakort, afmæliskort og listaverk sem þær höfðu sjálfar búið til. Afraksturinn var um 4000kr sem þær færðu Rauða krossinum til þess að hjálpa öðrum. 

31. jan. 2012 : Slys og veikindi barna 6. og 7. febrúar – nokkur laus pláss

Enn eru nokkur laus pláss á námskeiðið slys og veikindi barna sem haldið verður dagana 6. og 7. febrúar n.k.. Kennslan fer fram í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi, Hamraborg 11, á 2. hæð kl.18 til 21 báða dagana. Hægt er að skrá sig beint á námskeið með því að smella hér. Einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected] eða hringja í síma 554-6626 og fá nánari upplýsingar.

30. jan. 2012 : Nýr starfsmaður hjá Kópavogsdeild

Hrafnhildur Kvaran hóf störf hjá Kópavogsdeild Rauða krossins í byrjun vikunnar en hún gegnir stöðu verkefnastjóra félags- og sjálfboðaliðamála í 50% starfi. Hún starfar einnig hjá Garðabæjardeild Rauða krossins þar sem hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra síðan um mitt árið 2010.

19. jan. 2012 : Kópavogsdeild óskar eftir garni og ungbarnafötum

Deildin starfrækir verkefnið Föt sem framlag þar sem sjálfboðaliðar útbúa fatapakka til að senda til ungbarna í neyð í Malaví. Í pakkana fara prjónaðar flíkur sem og notuð föt en markmiðið með verkefninu er að mæta skorti á ungbarnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Þeir sem eiga garn, garnafganga og ungbarnaföt aflögu og vilja aðstoða deildina í þessu verkefni geta komið í Rauðakrosshúsið í Hamraborg 11 með framlag sitt. Af ungbarnafötum er tekið á móti samfellum, nærfötum, peysum, buxum, sokkum og treyjum fyrir 0-12 mánaða.

17. jan. 2012 : Gítarleikari óskast í sjálfboðið starf í Sunnuhlíð

Kópavogsdeild vantar sjálfboðaliða til að spila á gítar í söngstundum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Söngstundirnar eru vikulega á fimmtudögum kl. 15-16 og eru hugsaðar sem afþreying fyrir heimilisfólk Sunnuhlíðar. Sjálfboðaliðar sjá um söng og vantar nú gítarleikara í undirspil. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected]

13. jan. 2012 : Laust starf: Rekstrarstjóri

Kópavogsdeild Rauða krossins auglýsir eftir rekstrarstjóra fataverslana á höfuðborgarsvæðinu í 50% starf. Um er að ræða fimm verslanir sem selja notaðan fatnað og sjá sjálfboðaliðar félagsins um afgreiðslustörf.

11. jan. 2012 : Námskeið hjá Kópavogsdeild í febrúar og mars

Kópavogsdeild býður upp á hefðbundin námskeið í febrúar og mars og hér á síðunni er hægt að fá upplýsingar og skrá sig á þau. Þann 13. febrúar og 14. mars verða almenn skyndihjálparnámskeið þar sem farið verður yfir grundvallaratriðið í skyndihjálp og endurlífgun. Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram 6.-7. febrúar og 6.-7. mars. Þá verður meðal annars fjalla um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri.

3. jan. 2012 : Þú skiptir máli! - Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum

Rauði krossinn í Kópavogi leitar að hópstjórum í verkefni á nýju ári.

Við leitum að duglegu fólki sem hefur góðan tíma aflögu og vill gefa af sér. Hópstjórar bera ábyrgð á hluta framkvæmdar og eftirfylgni verkefnanna. Hlutverk hópstjóranna eru margvísleg en þeir þurfa að hafa leiðtogahæfileika og góða samstarfs-, skipulags- og samskiptahæfni