30. nóv. 2006 : Alþjóðlegi alnæmisdagurinn: Rauði krossinn segir konum og stúlkum hættara við alnæmissmiti vegna kynbundins ofbeldis

Í yfirlýsingu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í tilefni af alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember segir að samtökin hafi vaxandi áhyggjur af aukningu á alnæmissmiti kvenna og stúlkna um allan heim. Ástæðurnar felast einkum í slæmum félagslegum aðstæðum kvenna sem eru fórnarlömb nauðgana, misnotkunar, mansals og vændis.

Rauði kross Íslands styrkir alnæmisverkefni í Malaví, Suður Afríku og Mósambík, en alnæmistíðni er hæst í heimi í löndunum í sunnanverðri Afríku þar sem allt að 40% íbúa eru alnæmissmitaðir. Skjólstæðingar Rauða krossins í þessum löndum eru flestir konur.

„Alnæmissmit vegna kynbundins og kynferðislegs ofbeldis  má líkja við neyðarástand á þessum slóðum,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni vegna alnæmisverkefna í sunnanverðri Afríku þar sem sóst er eftir 21 milljarði íslenskra króna sem verja á til baráttunnar gegn alnæmi næstu árin.

15. nóv. 2006 : Yfirlýsing frá Alþjóða Rauða krossinum á 61. Allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna, New York, 18. október 2006.

Yfirlýsing frá Alþjóða Rauða krossinum á 61. Allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna, New York, 18. október 2006.

Herra forseti.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ályktun 59/39 var samþykkt hefur mikilvæg þróun átt sér stað á sviði alþjóðlegra mannúðarlaga. Alþjóða Rauði krossinn telur stóran áfanga hafa náðst með viðurkenningu allra ríkja heims á Genfarsamningunum fjórum frá 1949. Sú staðreynd að öll ríki heims hafa skuldbundið sig til að fylgja eftir ákvæðum Genfarsamninganna eru sterk rök gegn þeim sem halda því fram að alþjóðleg mannúðarlög séu ekki lengur fullnægjandi til þess að meðhöndla ástand sem skapast í vopnuðum átökum sem eiga sér stað í dag. Viðurkenningin gefur þvert á móti til kynna að alþjóðasamfélagið allt vill að þessir samningar séu virtir í hvívetna.