22. feb. 2007 : Fellibyljir ógna fórnarlömbum flóða í Mósambík - Rauði kross Íslands veitir 3 milljónir króna í neyðarhjálp

Rauði kross Íslands veitti í dag 3 milljónir íslenskra króna til neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna gífurlegra flóða í Mósambík. Neyðarbeiðnin hljóðar upp á 7,5 milljónir svissneskra franka (ríflega 400 milljónir króna) til að styðja við starf mósambíska Rauða krossins vegna hamfaranna.

Gríðarlegar rigningar undanfarnar vikur hafa orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína, þar á meðal Zambezi fljótið. Fellibylurinn Favio gekk á land í morgun í ferðamannahéraðinu Inhambane, en virðist ekki hafa ollið miklum usla enda Rauði krossinn með mikinn viðbúnað á þessum slóðum. Fellibyljir hafa oft valdið gífurlegu tjóni og mannskaða í Mósambík og er óttast að fleiri muni koma í kjölfar Favio. 

20. feb. 2007 : Á leið til hjálparstarfa í Búrúndí

Hrafnhildur Sverrisdóttir er á leið til Búrúndí til starfa á vegum Rauða krossins. Starf hennar felur í sér heimsóknir í fangelsi, leitarþjónustu og kynningu á alþjóða mannúðarlögum í samvinnu við Rauða krossinn í Búrúndí.

15. feb. 2007 : Alþjóða Rauði krossinn eflir hjálparstarfið í sunnanverðri Afríku

Alþjóða Rauði krossinn mun auka stuðning við landsfélög Rauða krossins í sunnanverðri Afríku, meðal annars með auknum fjárframlögum, til að bregðast við gríðarlegum flóðum á svæðinu síðan í byrjun janúar. Flóðin hafa leitt af sér að kólerutilfellum hefur fjölgað töluvert á sumum svæðum. Þau lönd sem verst hafa orðið úti eru Angóla, Mósambík og Sambía.

Sambía: Gríðarlegar rigningar hafa einnig skollið á nokkur landsvæði í Sambíu. Í norðurhluta landsins hafa 200 hús og kamrar hrunið í héruðunum Solwezi og Mpulungu og hafa menn miklar áhyggjur af slæmu hreinlæti í kjölfarið. Rauði kross Sambíu veitir neyðaraðstoð, meðal annars með klórtöflum, og fylgist er vel með útbreiðslu kóleru. Tilkynningar hafa borist um slík tilfelli í Sambíu frá því í október og síðustu vikuna hefur tilfellum fjölgað í höfuðborginni, Lusaka. Alls hafa 414 tilfelli verið skráð og 143 hafa látist.

14. feb. 2007 : Utanríkisráðuneytið styrkir starf Rauða krossins í Síerra Leóne

Utanríksráðherra hefur ákveðið að styrkja verkefni Rauða krossins vegna baráttunnar gegn barnahermennsku í Síerra Leóne um 10,6 m.kr. Framlagið rennur að hluta til byggingar endurhæfingarathvarfa þar sem börn og ungmenni fá bæði kennslu og sálræna aðstoð vegna afleiðinga borgarastyrjaldarinnar. Sérstök athvörf verða byggð fyrir ungar mæður þar sem þær fá aðstöðu fyrir börn sín meðan þær stunda nám.

Markmiðið með þessu verkefni er að hlúa að stríðshrjáðum börnum, veita þeim menntun, sálfræðiaðstoð og kennslu í iðngreinum til að gera þau betur í stakk búin til þess að takast á við eðlilegt líf.

11. feb. 2007 : Fræðsla um rétt viðbrögð varð móður til lífs

Rauði kross Íslands hefur valið Egil Vagn Sigurðsson sem Skyndihjálparmann ársins 2006 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Egill Vagn tók við viðurkenningunni í dag kl. 13:20 við athöfn í Smáralind sem viðbragðsaðilar í björgun og almannavörnum standa að í tilefni af 112-deginum.

Egill Vagn sem er einungis 8 ára bjargaði lífi móður sinnar í júní í fyrra þegar hún hneig niður á heimili þeirra og missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Egill Vagn brást skjótt við og sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar og sprautaði hana í handlegginn en hringdi síðan í neyðarlínuna 112 eftir hjálp. Hann fór svo eftir fyrirmælum neyðarvarðar þar til sjúkrabíll kom á staðinn.

8. feb. 2007 : Flóðin í Indónesíu

Miklar rigningar það sem af er febrúar hafa orsakað gríðarleg flóð í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Flóð eru algeng í Indónesíu á regntímanum en flóðin nú eru þau mestu í Jakarta í fimm ár. Slæmt holræsakerfi og erfið aðstaða til að hafa stjórn á flóðunum hafa gert ástandið verra. Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi rigningum næstu vikuna, einkum þar sem mikið eru um hæðir, og því er búist við enn frekari flóðum. Mestar eru áhyggjurnar af fólki sem misst hefur heimili sín, vatnsmengun og útbreiðslu sjúkdóma á borð við niðurgang, blóðkreppusótt og dengue hitasótt.

Fólk hefur verið flutt á brott og stjórnvöld, samtök og aðrir hafa komið upp tímabundnu húsaskjóli, aðallega í moskum, skólum og opinberum stöðum.

7. feb. 2007 : Starf Rauða krossins síðan flóðbylgjan skall á löndin við Indlandshaf

Hinn níu stiga jarðskjálfti sem skók vesturströnd Súmötru sunnudagsmorguninn 26. desember 2004 kl. 7:59 að morgni að staðartíma (00:59 að íslenskum tíma) kom af stað gríðarlegum flóðbylgjum sem skullu á strandhéruðum landa sem liggja að Indlandshafi.