25. okt. 2007 : Rauði krossinn aðstoðar þúsundir manna vegna skógareldanna í Suður-Kaliforníu

Rauði krossinn sinnir hjálparstarfi fyrir þær þúsundir manna sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna skógareldanna í Suður-Kaliforníu.

Aðfararnótt miðvikudags hafði Rauði krossinn opnað 23 fjöldahjálparstöðvar sem hýstu þá vel á sjötta þúsund manns. 75 bílar eru á ferðinni, sem sjá um matvæladreifingu til þolenda og 40 vörubílar hafa komið á staðinn, fullir af matvælum og öðrum nauðsynjum.

Flestar fjöldahjálparstöðvarnar eru starfræktar í opinberum skólabyggingum eða félagsmiðstöðvum. Í þeim er þolendum séð fyrir gistiaðstöðu, nýjustu upplýsingum um ástandið, heitum mat, auk sálræns stuðnings og aðhlynningar.

Fyrst um sinn leggur Rauði krossinn megináherslu á að starfrækja fjöldahjálparstöðvar, sjá þolendum fyrir mat og sálrænum stuðningi.

16. okt. 2007 : Harður vetur í vændum í Mongólíu eftir þurrkasumar

Rannsóknir benda til þess að harður vetur og vor kunni að fylgja í kjölfar þurrkasumars í Mongólíu. Rauði krossinn bregst við þessum erfiðleikum með ýmsum hætti.

10. okt. 2007 : Takast þarf á við afleiðingar loftslagsbreytinga

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að hamfarir í heiminum hafa á undanförnum misserum orðið bæði tíðari og alvarlegri en á undanförnum áratugum. Það hefur orðið til þess að Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða Rauði krossinn gefa nú út áskorun til stjórnvalda í þjóðríkjum heims um að leggja aukna áherslu á að draga úr hættunni sem stafar af náttúruhamförum.

Þessi áskorun var lögð fram í dag á fundi með öllum aðildarþjóðum Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum lagði Alþjóða Rauði krossinn í félagi við Sameinuðu þjóðirnar (UN/ISDR, United Nations International Strategy for Disaster Reduction) fram hugmyndir sínar um að auka starf Rauða kross hreyfingarinnar á sviði fyrirbyggjandi aðgerða til að draga úr því tjóni sem náttúruhamfarir á borð við flóð og fellibylji valda íbúum á hættusvæðum. Fyrirhugaðar aðgerðir felast fyrst og fremst  í fyrirbyggjandi aðgerðum til að vernda mannslíf, draga úr tjóni af völdum hamfara og auka getu samfélagsins til að bregðast við þeim.

8. okt. 2007 : Tvö ár liðin frá jarðskjálftanum í Pakistan

Liðin eru tvö ár frá jarðskjálftunum í Pakistan þann 8. október 2005. Þeir urðu rúmlega 73.000 manns að bana og eyðilögðu heimili 3,5 milljóna manna. Endurbygging á þeim svæðum sem urðu verst úti er nú langt á veg komin og mjög hefur dregið úr þörfinni fyrir neyðaraðstoð. Þess er vænst að í vetur geti pakistanski Rauði hálfmáninn og Alþjóða Rauði krossinn beitt kröftum sínum til endurbyggingar í stað neyðaraðstoðar til þeirra samfélaga sem verst urðu úti í skjálftunum.

Um þetta leyti á síðasta ári var Rauði krossinn að undirbúa viðamikið hjálparstarf til aðstoðar tugum þúsunda manna sem stóu frammi fyrir öðrum vetri sínum í illa upphituðum bráðabirgðaskýlum. Aðgerðirnar heppnuðust vel og rúmlega 18.000 fjölskyldur á afskekktum stöðum fengu þau hjálpargögn sem þarf til að geta tekist á við veturinn í fjöllunum. Ríflega 1,1 milljón manna hafa nú fengið neyðaraðstoð frá pakistanska Rauða hálfmánanum og Alþjóða Rauða krossinum.

3. okt. 2007 : Ertu frönskumælandi og með háskólapróf?

Rauði kross Íslands leitar að háskólamenntuðum einstaklingi sem talar reiprennandi frönsku og ensku og hefur brennandi áhuga á mannúðarmálum til að vera á Veraldarvakt félagsins. Félagar á Veraldarvakt eru þeir sem eru tilbúnir til hjálparstarfa á erlendum vettvangi, oft með skömmum fyrirvara. Skilyrði fyrir veru á Veraldarvakt er að sækja sendifulltrúanámskeið félagsins.

Nú leitar Rauði kross Íslands sérstaklega að ofangreindum einstaklingi sem væri tilbúinn til að vinna með alþjóða Rauða krossinum á átakasvæðum að vernd og aðstoð til þeirra sem ekki taka þátt í átökum. Meðal helstu verkefna eru heimsóknir til fanga sem eru í fangelsi vegna átaka til að tryggja mannúðlega meðferð þeirra, leitarþjónusta og sameining fjölkyldna, skipulagning matvæladreifingar og útbreiðsla mannúðarlaga. 

3. okt. 2007 : Alvarlegt ástand á Gaza-ströndinni

Gaza-ströndin hefur verið nær algerlega lokuð í þrjá mánuði og ástandið er að verða mjög alvarlegt,“ sagði Angelo Gnaediger frá Alþjóða Rauða krossinum eftir nýlega heimsókn sína til Gaza. Erfitt er að halda sjúkrahúsum, vatnsveitum og skólpkerfi gangandi og fátækt hefur aukist gífurlega meðal almennings á svæðinu.

Aðgerðir hersins og innbyrðis deilur Palestínumanna hafa valdið miklum skemmdum á orkuveitu, seinkunum á greiðslum og stöðvað flutninga á eldsneyti. Þetta ásamt öðrum erfiðleikum hefur komið í veg fyrir rekstur og viðgerðir á vatnsveitum og frárennsliskerfi á Gaza-ströndinni.

1. okt. 2007 : Langtíma hjálparstarf nauðsynlegt vegna flóðanna í Afríku

Rúmlega milljón manna hefur orðið fyrir gríðarlegum skakkaföllum vegna flóða í Afríku síðan í sumar og tjónið nær nú til 18 landa. 650.000 manns hafa misst heimili sín vegna flóðanna og vitað er til þess að þau hafi orðið 250 manns að bana. Vatnselgurinn hefur jafnframt valdið skelfilegum spjöllum á uppskeru og matargeymslum.

Vegna þeirra gríðarlegu erfiðleika sem fórnarlömb flóðanna í Afríku eiga við að etja hefur Alþjóða Rauði krossinn óskað eftir því að alþjóðasamfélagið leggi hreyfingunni lið í hjálparstarfinu. Búist er við því að ástandið á svæðinu fari versnandi næstu vikur og þörf er á aðstoð bæði til skemmri og lengri tíma. Alþjóða Rauði krossinn hefur gefið út nokkrar neyðarbeiðnir til að sinna þörfum fórnarlamba á svæðinu.

1. okt. 2007 : Íslenskur sendifulltrúi tekur þátt í kennslu fyrir hermenn í Búrúndí

Hrafnhildur Sverrisdóttir starfar sem sendifulltrúi í sendinefnd Alþjóðaráðs Rauða krossins í Búrúndi þar sem hún starfar að vernd þeirra sem ekki taka þátt í stríðsátökum.