30. nóv. 2007 : Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember: „Almenningur þarf að taka málin í sínar eigin hendur“

Í tilkynningu Alþjóða Rauða krossins á Alþjóðlega alnæmisdeginum er lögð á það höfuðáhersla að hjálpa samfélögum að taka frumkvæðið í baráttunni gegn alnæmi og ójafnri stöðu kynjanna.

28. nóv. 2007 : Alþjóða Rauði krossinn óskar eftir auknum framlögum fyrir Bangladess

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú lagt fram nýja neyðarbeiðni fyrir Bangladess að upphæð tæplega 1,4 milljörðum íslenskra króna (24.500.000 CHF). Það fé sem safnast verður notað til að hjálpa 1,2 milljónum manna sem orðið hafa fórnarlömb fellibylsins Sidr. Rauði kross Íslands sendi þriggja milljóna króna framlag til neyðaraðstoðarinnar þann 19. nóvember.

Aðstoðin mun ná til níu af þeim héruðum landsins þar sem fellibylurinn olli mestu tjóni. Þar verður  fjölskyldum sem misst hafa heimili sín í hamförunum séð fyrir mat, húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu, vatni og hreinlætisaðstöðu. Neyðaraðstoðinni er ætlað að koma til móts við mikilvægustu þarfir fórnarlambanna. Dreift verður byggingarefni, mat, fötum og fólkinu séð fyrir hreinu vatni og  heilbrigðisþjónustu.

27. nóv. 2007 : 186 landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Rauði kross Svartfjallalands (Montenegro) hefur verið formlega samþykktur af Alþjóða Rauða krossinum, og eru landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans nú 186 að tölu um allan heim. 

Þó svo að Rauði krossinn í Svartfjallalandi sé nýjasta landsfélagið í Rauða kross hreyfingunni fer því fjarri að það sé nýtekið til starfa. Félagið var stofnað árið 1875, en varð síðan deild innan Rauða kross Júgóslavíu þegar ríkið var stofnað í lok fyrri heimstyrjaldar árið 1918 og allt þar til landið hlaut sjálfstæði árið 2006 þegar það gekk úr ríkjasambandi við Serbíu.

27. nóv. 2007 : Þjóðríki gera lítið til að draga úr notkun klasasprengna

Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með þau þjóðríki sem eiga aðild að alþjóðasáttmála um takmörkun hefðbundinna vopna, en fulltrúar aðildarríkjanna samþykktu

26. nóv. 2007 : Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða Rauði krossinn: Öflug samvinna í þágu mannúðar

Í ræðu sinni á aðalfundi Alþjóða Rauða krossins fjallaði Dr Asha-Rose Migiro varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sérstaklega um þá vaxandi samvinnu við Alþjóða Rauða krossinn sem stofnunin hefur notið á undanförnum árum.

26. nóv. 2007 : Saman í þágu mannúðar - Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og ríkisstjórna 26.-30. nóvember

Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans hófst í Genf í dag. Búist er við því að um 1.500 fulltrúar Rauða kross hreyfingarinnar og þjóðríkja sem eiga aðild að Genfarsamningunum taki þátt í  ráðstefnunni sem haldin er undir kjörorðunum „Saman í þágu mannúðar.”

Alþjóðaráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti. Eitt af meginmarkmiðum hennar nú er að fjalla um þann margslungna vanda sem steðjar að jarðarbúum á komandi áratugum. Meðal helstu umræðuefna má nefna stórfellda fólksflutninga milli landa og heimshluta, vaxandi glæpi og ofbeldi í borgum, sjúkdómsfaraldra, loftslagsbreytingar og annan umhverfisvanda. Á ráðstefnunni munu samstarfsaðilar ræða hvað þeir geti gert í sameiningu til að hjálpa bágstöddum samfélögum að takast á við framtíðina.

20. nóv. 2007 : Sögulegur dagur í Mósambík

Heilsugæslustöð sem Rauði krossinn og Þróunarsamvinnustofnun Íslands reistu í sameiningu í Mósambík var formlega opnuð þann 30. október. Stöðin var afhent heilbrigðisyfirvöldum í Mósambík til rekstrar.

19. nóv. 2007 : Fjárskortur hamlar blóðsöfnun Rauða krossins í Mongólíu

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mongólíu vinna ötullega að blóðsöfnun og gengur hún langbest meðal nemenda í skóla einum í Ulaanbaatar. Greinin er eftir Francis Markus hjá Alþjóða Rauða krossinum í Mongólíu.

19. nóv. 2007 : 3 milljónir í neyðaraðstoð til Bangladess

Rauði kross Íslands sendi í dag þriggja milljóna króna framlag til neyðaraðstoðar í Bangladess vegna fellibyljarins Sidr sem gekk yfir landið á fimmtudag. Alþjóða Rauða krossinn kallaði í gær eftir 213 milljónum íslenskra króna til að aðstoða 235.000 manns á hamfarasvæðunum næstu níu mánuðina. 

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða hálfmánans í Bangladess hafa unnið sleitulaust að neyðaraðstoð frá því að hamfarirnar gengur yfir. Fjöldi látinna er nú talin rúmlega 3.000, en óttast er að enn fleiri hafi farist þar sem aðstoð hefur enn ekki borist á afskekktari svæði.

15. nóv. 2007 : Að ganga í óstraujaðri flík er ósómi í Gambíu

María Guðrún Gunnlaugsdóttir sjálfboðaliði URKÍ-R fór til Gambíu og starfaði með vinadeild Reykjavíkurdeildar í Banjul. Fréttablaðið tók viðtal við Maríu sem birtist þann 17. október síðastliðinn.

6. nóv. 2007 : Rauði krossinn í Mexíkó aðstoðar þúsundir fórnarlamba flóðanna í landinu

Tabasco-fylki er enn lamað eftir verstu flóð í sögu þess. Yfirvöld áætla að 90% af fylkinu og yfir milljón manns hafi orðið fyrir barðinu á flóðunum. Flóðin hafa eyðilagt uppskeru og lifibrauð fólks.

Um sex þúsund sjálfboðaliðar Rauði krossins í Mexíkó taka nú á móti framlögum til hjálparstarfsins á söfnunarstöðum um allt land.  Í Tabasco-fylki taka sjálfboðaliðar þátt í björgun fólks sem er innlyksa vegna flóðanna, veita læknishjálp, sinna sjúkraflutningum og aðstoða fólk í neyðarskýlum. Um 56 þúsund fjölskyldur hafa fengið matarpakka sem duga á fyrir fimm manna fjölskyldur í eina viku auk vatns og klæðnaðar.

3. nóv. 2007 : Gríðarleg flóð í Mexíkó

Tabasco-fylki í Mexíkó er lamað eftir úrhellisrigningar. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda er 80% af fylkinu undir vatni. Rauði krossinn í Mexíkó hefur kallað út 2.500 sjálfboðliða sem veita fyrstu hjálp, taka þátt í leit og björgun, dreifa nauðsynjum og meta þörfina á áframhaldandi hjálparstarfi.

Forgangsverkefni Rauða krossins eru að útvega mat, hreint vatn, veita húsaskjól og hreinlætisaðgerðir.

1. nóv. 2007 : Tsjad: sameiginleg fréttatilkynning frá Alþjóða Rauða krossinum, Flóttamannastofnun og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR og UNICEF) vegna barnanna 103 frá Abéché

Abéché, 1. nóvember 2007 – Alþjóða Rauði krossinn (ICRC), Flóttamannastofnun og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR og UNICEF) hafa sameiginlega annast börnin 103 sem tekin voru úr umsjá starfsmanna frönsku samtakanna Örk Zoéar á flugvellinum í Abéché þann 25. október síðastliðinn.  Starfsmenn frönsku samtakanna voru handteknir í kjölfarið.

Börnin eru nú vistuð í munaðarleysingjahæli í borginni Abéché.  Alþjóða Rauði krossinn, Flóttamannastofnun og UNICEF hafa farið þess á leit við yfirvöld í Tsjad að þau sjái börnunum fyrir húsnæði, fæði, og brýnustu nauðsynjum auk heilbrigðisþjónustu með stuðningi Rauða krossins í Tsjad.

Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins, Flóttamannastofnunar og UNICEF hafa undanfarna daga rætt við börnin til að komast að persónulegum högum þeirra og hvaðan þau eru upprunninn.