26. des. 2007 : Þrjú ár liðin frá flóðbylgjunni við Indlandshaf

Nú, þegar þrjú ár eru liðin frá flóðbylgjunni hrikalegu í Indlandshafi, hefur Alþjóða Rauði krossinn stutt þúsundir samfélaga við Bengalflóa í að taka mikilvæg skref á vegferð þeirra til bata.

Samkvæmt þriggja ára skýrslu Alþjóða Rauða krossins, þar sem teknar eru saman aðgerðir meira en þrjátíu landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans, hafa hjálpargögn og aðstoð við uppbyggingu náð til 3.873.000 manns í tíu löndum.

Aðstoð Rauða kross Íslands, sem fer að langmestu leyti í gegnum Alþjóða Rauða krossinn, heldur áfram í samstarfi við Rauða kross félögin á svæðinu. Heildarframlög Rauða kross Íslands til verkefna vegna flóðbylgjunnar námu samtals rúmlega 150 milljónum íslenskra króna.

Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir að klára endurreisn að mestu í lok árs 2009. Hægt er að hlaða niður þriggja ára skýrslu Alþjóða Rauða krossins á slóðinni www.ifrc.org/tsunami

19. des. 2007 : Styrkur til vinadeildarsamstarfs í Gambíu

Bæjaryfirvöld á Akranesi veittu Rauða krossinum styrk að upphæð hundrað og fimmtíu þúsund krónur til verkefna í Gambíu. Styrkurinn er þannig til kominn að í stað þess að senda út jólakort til viðskiptavina Akraneskaupstaðar var ákveðið að veita þeim fjármunum sem til þess hefði verið kostað í verðugt mannúðarverkefni.

Deildir á Vesturlandi hafa um árabil átt í vinadeildarsamstarfi við Rauða kross deildina í Western Region í Gambíu. Íslensku deildirnar styðja systurdeild sína á ýmsan hátt, m.a. með þjálfun sjálfboðaliða sem veita fólki á svæðinu fjölbreytta aðstoð. Um fimm þúsund flóttamenn frá Senegal hafa flúið til vesturhluta Gambíu og njóta þeir liðsinnis sjálfboðaliða Rauða krossins. Einnig er áhersla lögð á að aðstoða þá sem missa hús sín í bruna eða flóðum sem eru tíð í Gambíu.

18. des. 2007 : Rauði krossinn bregst við loftslagsbreytingum

Rauði krossinn fagnar því að ríkari þjóðir heims skuli ætla að stofna sérstakan sjóð til að auðvelda þróunarríkjum að aðlagast lofslagsbreytingum. Stofnun sjóðsins var samþykkt á loftslagsþinginu í Balí nú um helgina.

 

Á Alþjóðaráðstefnu Rauða krossins í lok nóvember sem sótt var af 192 ríkisstjórnum og 186 landfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans var skorað á þátttakendur í loftslagsþinginu í Balí um að auka aðstoð við fátækar þjóðir sem þurfa að takast á við æ fleiri náttúruhamfarir sem afleiðingar loftslagsbreytinga.

17. des. 2007 : Árleg neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins aldrei verið hærri

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur gefið út neyðarbeiðni fyrir árið 2008 þar sem óskað er eftir rúmum milljarði svissneskra franka (um það bil 55 milljörðum íslenskra króna) til að fjármagna mannúðarstarf félagsins í 80 löndum.

„Vopnuð átök eiga sér stað um allan heim og það er mikilvægara en nokkru sinni að Alþjóðaráð Rauða krossins bregðist við þeim mannúðarvanda sem af því hlýst. Stundum skapast alvarlegt neyðarástand mjög skyndilega og þá þarf að taka á því tafarlaust. Víða ríkir einnig langvarandi mannúðarvandi af völdum ófriðar og þar er þörf fyrir hjálparstarf til lengri tíma,“ sagði Jakob Kellenberger formaður Alþjóðaráðsins þegar árleg neyðarbeiðni félagsins var birt styrktaraðilum í Genf. „Hlutleysi og sjálfstæði Alþjóða Rauða krossins gerir okkur mögulegt að ná til þeirra sem þurfa á vernd og hjálp að halda á átakasvæðum.“

17. des. 2007 : Rauði krossinn fordæmir morð á sjálfboðaliða í Sri Lanka

Landsfélög Rauði krossins og Rauði hálfmánans um allan heim fordæma morðið á sjálfboðaliða Rauða krossins í Sri Lanka þann 14. desember síðastliðinn.  Sooriyakanthy Thavarajah var sjálfboðaliði í deild Rauða krossins í Jaffna í norðurhluta landsins. Hann var numinn á brott af heimili sínu á föstudaginn var. Lík hans fannst í gær, sunnudag.  Ekki er vitað hverjir voru að verki.

Thavarajah hafði unnið fyrir Rauða krossinn í Sri Lanka í fjöldamörg ár. Árið 2005 hlaut hann sjálfboðaliðaviðurkenningu landsfélags síns fyrir óeigingjörn störf í þágu fórnarlamba flóðbylgjunnar miklu

14. des. 2007 : Þjáningar almennings í Palestínu vaxa með degi hverjum

Lífsskilyrði íbúa á herteknu svæðunum í Palestínu hafa versnað mikið á undanförnum misserum vegna takmarkana á ferðafrelsi og vöruinnflutningi. Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna þeirra erfiðleika sem almenningur býr við af þessum sökum.

„Aðgerðir Ísraelsmanna hafa gríðarleg áhrif á lífskjör Palestínumanna. Almenningur hefur ekki nóg til að geta lifað af því sómasamlega," sagði Béatrice Mégevand Roggo sem hefur yfirumsjón með aðgerðum Alþjóða Rauða krossins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Þjáningar almennings fara stöðugt vaxandi vegna átaka milli Ísraelshers og stríðandi fylkinga Palestínumanna. Innbyrðis ófriður meðal Palestínumanna gera ástandið enn verra. Það er fyrst og fremst almenningur í Palestínu sem þjáist af þessum sökum."

13. des. 2007 : Mismunun í neyðarstarfi

Í dag verður árleg skýrsla Alþjóða Rauða krossins um hamfarir í heiminum kynnt á heimsvísu. Þetta er í fimmtánda sinn sem skýrslan kemur út, og er henni ætlað að skoða með gagnrýnum augum á hvernig tekist hefur til að veita neyðaraðstoð í kjölfar hamfara.

Sérstakt þema er tekið fyrir ár hvert, og í þetta sinn er tekin fyrir mismunun í neyðarstarfi. Þar er litið til þess hvaða hópar verða helst útundan í slíku starfi og hvers vegna, hvaða áhrif slík mismunun hefur og hvernig fórnarlömbin verða því berskjaldaðri fyrir afleiðingum hamfara

12. des. 2007 : Rauði hálfmáninn í Alsír hjálpar fórnarlömbum sprengjuárásarinnar

Rauði hálfmáninn í Alsír tók strax virkan þátt í björgunarstörfum eftir að tvær sprengjur sprungu í miðborg Algeirsborgar í gær. Önnur sprengjan féll á skólabíl en hin við skrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Hydra hverfi þar sem skrifstofur sendiráða og fjármálaráðuneytið eru staðsett. Fréttir herma að um 26 manns hafi látist. Sprengingin olli miklum skemmdum á byggingu Flóttamannastofnunar og starfsfólk stofnunarinnar er meðal þeirra sem létust. Sprengingarnar eru taldar tengjast Al Kaída hryðjuverkamönnum.

Á annað hundrað sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans frá nærliggjandi stöðum fóru á vettvang og hjálpuðu við leitar- og björgunaraðgerðir. Settar voru upp neyðarstöðvar þar sem veitt er skyndihjálp. Sjálfboðaliðar eru einnig til staðar á vettvangi og á sjúkrahúsum þar sem þeir sinna sálrænum stuðningi og flutningi á slösuðum með sjúkrabílum Rauða hálfmánans.

5. des. 2007 : Hlutlaus, óháð mannúðaraðstoð bjargar mannslífum

Brýn nauðsyn er á að skerpa línurnar milli mannúðarstarfs hlutlausra og óháðra samtaka eins og Rauða krossins og þeirrar aðstoðar sem ríki veita í pólitískum og hernaðarlegum tilgangi á átakasvæðum.