29. feb. 2008 : Alþjóða Rauði krossinn er uggandi um almenna borgara á Gazasvæðinu og í Ísrael

Alþjóða Rauði krossinn lýsti í gær yfir áhyggjum sínum vegna átaka sem blossað hafa upp að nýju á Gazasvæðinu og ísraelskum þorpum í nágrenninu. Átökin bitna sem fyrr mest á almennum borgurum, og þá sérstaklega á börnum.
 
Fjöldi eldskeyta hefur verið varpað á ísraelsku þorpin Ashkelon and Sderot og lent bæði á íbúahverfum og á sjúkrahúslóð í einu tilviki. Ísraelsher hefur brugðist við eldskeytunum með flugárásum á Gazasvæðinu. Almennir borgarar eru meðal þeirra sem hafa fallið eða særst.
 
„Lífi almennra borgara bæði í Gaza og í Ísrael er stefnt í hættu í þessum átökum," sagði Christoph Harnisch, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Ísrael og hernumdu svæðunum. „Alþjóða Rauði krossinn hvetur stríðandi aðila til að hætta árásunum og minnir þá jafnframt á skyldu þeirra að fara að alþjóðlegum mannúðarlögum í einu og öllu."

22. feb. 2008 : Sálrænn stuðningur til systurfélags Rauða krossins í Ísrael

Rauði kross Íslands hefur sent tæpa eina milljón króna til að aðstoða systurfélag sitt í Ísrael, Magen David Adom (Rauðu Davíðsstjörnuna)

18. feb. 2008 : Flóðunum í sunnanverðri Afríku er ekki lokið

Alþjóða Rauði krossinn hefur uppfært neyðarbeiðni sína vegna flóðanna í sunnanverðri Afríku. Óskað er eftir sem svarar tæplega 700 milljónum íslenskra króna.

12. feb. 2008 : Forvarnarstarf Rauða krossins gegn malaríu í Gambíu

Rauði krossinn í Gambíu dreifir flugnanetum til barnshafandi kvenna og mæðra ungra barna með aðstoð Alþjóða Rauða krossins.

6. feb. 2008 : Forgangsverkefni Alþjóða Rauða krossins á átakasvæðum

Régis Savioz, yfirmaður almannatengsladeildar Alþjóðaráðs Rauða krossins í Genf, kemur til Íslands í dag í boði Rauða kross Íslands.

5. feb. 2008 : Tveggja starfsmanna Alþjóða Rauða krossins er saknað

Alþjóða Rauði krossinn óttast afdrif tveggja starfsmanna sinna í Pakistan. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan laugardaginn 2. febrúar en þeir voru þá við hjálparstörf við landamæri Afganistans.

 

Teymi frá Rauða krossinum var í skipulagðri eftirlitsferð á merktum bíl í bænum Torkham sem er við landamæri Pakistans og Afganistans þegar starfsmaður Rauða krossins missti samband við þá. Þá voru þeir á fjölförnum vegi sem er mikið notaður til að koma hjálpargögnum frá Pakistan til Afganistans. Alþjóða Rauði krossinn lýsir áhyggjum yfir örlögum samstarfsfélaga sinna sem báðir eru pakistanskir borgarar.

„Við erum í stöðugu sambandi við yfirvöld til að tryggja að rétt sé að verki staðið við leit að þeim og að þeir komist til baka á öruggan hátt," segir Marc Archermann, yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í borginni Peshawar í norðausturhluta Pakistans.  „Öryggi hjálparstarfsmanna verður að vera til staðar til að fórnarlömb stríðsátaka fái þá hjálp sem þau þarfnast."

4. feb. 2008 : Öflugt starf sjálfboðaliða Rauða krossins vegna flóða í Sunnanverðri Afríku

Á undanförnum viku hafa flóð í sunnanverðri Afríku valdið bæði manntjóni og miklum skemmdum á mannvirkjum og heimilum. Rauða kross félög á svæðinu hafa unnið linnulaust að björgunarstörfum og hafa komið í veg fyrir enn meira manntjón af völdum hamfaranna. Hornsteinninn að þessu starfi eru tugir þúsunda sjálfboðaliða sem hlotið hafa bæði þjálfun og fræðslu á sviði hjálparstarfs.

„Það er mjög óvenjulegt að sjá flóð í Simbabve á þessum árstíma, og fólk segir að þetta hafi ekki gerst í 20 ár. Vanalega fer ekki að bera á flóðum fyrr en um miðjan febrúar en í vetur byrjuðu flóðin í desember og það er vatn allsstaðar,“ segir Tandiwe Muramba, sem er tveggja barna móðir og einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum Rauða krossins í Simbabve.

„Hluti af starfi okkar sem sjálfboðaliðar er að vara íbúa þorpa sem eru í hættu við flóði og að fá þá til að yfirgefa heimili sín,“ segir Tandiwe. „Við brýnum fyrir öðrum að þeir verði að rata þangað sem land stendur hærra ef nauðsyn krefur og segjum þeim að reka mælistikur í jörðina til að geta séð hvenær vatnsborðið fer að hækka.“