19. mar. 2008 : Eftir fimm ára stríð búa milljónir Íraka enn við hörmungar

Fimm árum eftir að stríðið hófst í Írak hefur mannúðarástand í landinu versnað mjög mikið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða Rauða krossins um ástandið í Írak. Átökin valda því að milljónir manna búa við lélega hreinlætisaðstöðu og takmarkaðan aðgang að góðu drykkjarvatni og heilsugæslu. Núverandi hörmungar eru enn alvarlegri vegna fyrri styrjalda og langvarandi viðskiptabanns.

„Þó að öryggisástand hafi batnað víða í Írak er mikilvægt að hafa í huga að milljónir manna búa enn við mjög kröpp kjör," sagði Beatrice Megevand Roggo sem hefur yfirumsjón með verkefnum Alþjóða Rauða krossins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Meðal þeirra sem þurfa að þola mestan skort er fólk sem hefur flúið heimili sín, en einnig fjölskyldur sem hafa snúið aftur heim, börn, aldraðir, fatlaðir, ekkjur og fjölskyldur þeirra. Eins glíma fjölskyldur manna sem eru í varðhaldi oft við mikla erfiðleika."

14. mar. 2008 : Fellibylur eykur enn á neyð í Mósambík

Mósambík varð aftur fyrir alvarlegu áfalli þegar fellibylurinn Jokwe reið yfir landið um síðustu helgi.  Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem náttúruhamfarir valda eyðileggingu í Mósambík.  Tugþúsundir manna er enn heimilislausar eftir mikil flóð í febrúar.  Rúmlega 8.000 hús meðfram ströndinni í norðurhluta landsins eyðilögðust af völdum fellibylsins, og rúmlega 40.000 manns þurftu að flýja heimili sín.

„Nákvæmar tölur fyrir landið allt eru ekki tiltækar því að ríksstjórnin og aðrar stofnar hafa enn ekki metið ástandið að fullu," segir Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík. „Rauði krossinn vinnur nú með yfirvöldum að því að leggja mat á ástandið og búist er við mun fleiri hafi orðið fyrir barðinu á fellibylnum."

12. mar. 2008 : „Erfitt en áhugavert"

Samnorrænt sendifulltrúanámskeið er haldið í Munaðarnesi þessa vikuna. 25 þátttakendur frá Norðurlöndunum og Póllandi taka þátt í námskeiðinu, þar af níu á vegum Rauða kross Íslands.

Á námskeiðinu læra tilvonandi sendifulltrúar um grundvallarmarkmið og tilgang Rauða kross hreyfingarinnar, sögu hennar og um Rauða kross merkið. Þeir kynnast starfi landsfélaga, Alþjóðasambandsins og Alþjóðaráðs Rauða krossins. Markmiðið með námskeiðinu er að gera tilvonandi sendifulltrúa sem best í stakk búna til að sinna hjálparstarfi á vettvangi vegna neyðarástands í kjölfar náttúruhamfara eða vegna stríðsátaka en líka til að starfa að langtíma þróunarsamvinnu með systurlandsfélögum. Þeir fá fræðslu um heilsufarsvandamál sem upp geta komið, um öryggismál og um daglegt líf sendifulltrúa á vettvangi.

7. mar. 2008 : Alþjóðadagur kvenna: Eru þeir enn á lífi? Konur leita sannleikans um afdrif ástvina sinna

Um allan heim þurfa hundruð þúsunda kvenna að þola hörmungar af völdum vopnaðra átaka. Meðal þess sem veldur þeim mestum þjáningum er það hve erfitt getur reynst að fá vitneskju um horfna ættingja.

Flestir þeirra sem eru drepnir eða hverfa eru karlmenn og því lendir það fyrst og fremst á konum að reyna að komast að því hvað orðið hafi um þá. Í tilefni af alþjóðlega kvennadeginum 8. mars vill Alþjóða Rauði krossinn vekja athygli á því starfi sem unnið er til að draga úr þjáningum þeirra kvenna sem leita að horfnum ástvinum víða um heim.

4. mar. 2008 : Sjúkrahús í Gaza anna vart umönnun særðra borgara

Sívaxandi ofbeldiog átök á Gazasvæðinu undanfarna daga hafa haft veruleg áhrif á íbúa, sérstaklega í næsta nágrenni við Ísrael. Óbreyttir borgarar hafa orðið verst fyrir barðinu á aðgerðum ísraelska hersins. Síendurteknar árásir hersins gera Rauða hálfmánanum erfitt um vik að flytja sært og veikburða fólk frá átakasvæðunum.

Bardögum hefur heldur linnt frá því á mánudag, en ástandið er enn viðkvæmt og mikil spenna ríkir. Unnið er á gjörgæslu- og skurðstofum allan sólarhringinn, en sjúkrahúsin í Gaza geta varla annað þessu mikla álagi sem verið hefur undanfarna daga.