27. jún. 2008 : Filippseyjar: Alþjóða Rauði krossinn sendir út neyðarbeiðni

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út neyðarbeiðni að upphæð 637 milljónir króna vegna hjálparstarfs á Filippseyjum í kjölfar fellibylsins Fengshen sem skall á eyjaklasan 21. júní. Hamfarirnar hafa haft áhrif á meira en 200 þúsund fjölskyldur.

Til að mæta allra brýnustu þörfum fólksins hefur Alþjóða Rauði krossinn sent Rauða krossinum á Filippseyjum rúmlega 15 milljónir króna úr neyðarsjóði sínum, sem Rauði kross Íslands er aðili að.

20. jún. 2008 : Alþjóðadagur flóttamanna 20. júní

Um 40 milljónir manna um allan heim hafa hrakist frá heimkynnum sínum vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka.  Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn í öðru landi, en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra.  Í dag, á Alþjóðadegi flóttamanna, er vakin sérstök athygli á aðstæðum þessa fólks um gjörvallan heim.

Að þessu tilefni stendur Rauði krossinn að dagskrá á Akranesi, heimabæ næsta hóps flóttamanna sem kemur til Íslands í haust. Klukkan 16:00 verður flóttamannaverkefni íslenskra stjórnvalda og Rauða krossins kynnt við kaffihúsið Skrúðgarðinn, í sérstöku tjaldi frá Flóttamannastofnun.  Þar gefst fólki einnig færi á að kynna sér ferlið sem flóttafólk þarf að ganga í gegnum áður en því er veitt hæli í öðru landi.  Thomas Straub, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi flytja ávarp.  Allir eru velkomnir.

6. jún. 2008 : Fulltrúar flóttamannanefndar á leið til Al Waleed flóttamannabúðanna í Írak

Íslensk sendinenfnd skipuð fulltrúum frá flóttamannanefnd og Útlendingastofnun lagði í dag af stað til Íraks til að taka viðtöl við flóttafólk sem boðið verður hæli hér á landi nú í haust. Atli Viðar Thorstensen verkefnisstjóri Rauða krossins um málefni flóttamanna er einn þriggja fulltrúa sendinefndarinnar.

Flóttafólkið dvelst í Al Waleed flóttamannabúðunum sem liggja á einskismannslandi nærri landamærum Sýrlands og býr við skelfilegar aðstæður. Það er mat Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að palestínskir flóttamenn í Írak séu í brýnni þörf fyrir öruggt skjól, og fóru Sameinuðu þjóðirnar því þess á leit við íslensk stjórnvöld að veita hluta þeirra sem þar dvelja hæli.

Vegna ótryggs ástands í Al Waleed flóttamannabúðunum geta hvorki Flóttamannastofnun, Rauði krossinn né önnur hjálparsamtök hafst við í búðnum, og er aðeins hægt að fara þangað í björtu.

5. jún. 2008 : Hálf milljón Sómala fær aðstoð frá Alþjóða Rauða krossinum

Alþjóða Rauði krossinn stefnir nú að því að auka verulega hjálparstarf sitt í Sómalíu til að bregðast við vaxandi vanda íbúa í landinu.

 

2. jún. 2008 : Sáttmáli um klasasprengjur veitir óbreyttum borgurum aukna vernd

Alþjóðaráð Rauða krossins fagnar sögulegu banni við klasasprengjum. Þessi vopn hafa valdið óbreyttum borgurum gríðarlegum þjáningum um áratugaskeið.