9. mar. 2009 : Búfénaði á láglendi Eþíópíu fækkar verulega vegna loftslagsbreytinga

Bændur í sunnanverðri Eþíópíu hafa misst stóran hluta búfjár síns á síðustu tuttugu árum. Samkvæmt skýrslu eþíópískra og hollenskra fræðimanna sem birt var nýlega má rekja mikla fækkun dýranna til áhrifa loftslagsbreytinga og þá sérstaklega til mikilla þurrka í landinu.

Í skýrslunni kemur fram að hver bóndi í Borena í Oromiayahéraði á nú 3 uxa í stað 10 áður, 7 kýr í stað 35 og 6 geitur í stað 33 fyrir tveimur áratugum síðan. Þessi þróun hefur geigvænleg áhrif á samfélagið sem er háð dýrunum um tekjur og matarbjörg. Skýrsluhöfundar segja að vegna áhrifa loftslagsbreytinga hafi fátækt aukist í sunnanverðri Eþíópíu og að fólk eigi nú í meiri erfiðleikum með að afla sér fæðu.

3. mar. 2009 : Kópavogsdeildin er virkur þátttakandi í alþjóðastarfi Rauða krossins

Markmið deildarinnar er að taka þátt í alþjóðlegri neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Einn liður í þessu starfi er verkefnið Föt sem framlag en vel yfir 50 sjálfboðaliðar störfuðu við það árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Sjálfboðaliðarnir útbúa fatapakka fyrir börn í neyð og eru þeir sendir til Malaví í Afríku. Alls sendu þeir frá sér 640 pakka og yfir 100 teppi á síðasta ári. Þá lögðu gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, verkefninu lið með handavinnu sem fer fram í athvarfinu. Konur á hjúkrunarheimilinu í Sunnuhlíð lögðu einnig sitt af mörkum með því að afhenda deildinni teppi og aðrar prjónavörur.