22. apr. 2009 : Mestu flóð í sunnanverðri Afríku í 50 ár

Frá því í febrúar 2009 hefur úrkoma verið langt yfir meðallagi í sunnanverðri Afríku. Namibía og Angóla hafa þurft að þola mestu flóð í 50 ár. Í Angóla og Namibíu hefur yfir hálf milljón manna orðið fyrir skakkaföllum vegna flóðanna, um hundrað og tuttugu manns látið lífið og þúsundir fjölskyldna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Til að styðja flóðaaðgerð Rauða krossins mun íslenskur sendifulltrúi, Baldur Steinn Helgason starfa í tvo mánuði á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í sunnanverðri Afríku og stjórna þar innkaupum og flutningum neyðarbirgða vegna flóðaaðgerða á svæðinu. Að auki er hluti starfsins fólginn í því að bæta vinnuferli í birgðastjórnun og innkaupum hjá Rauða krossinum í sunnanverðri Afríku.

10. apr. 2009 : Fatapakkar frá sjálfboðaliðum Rauða kross Íslands til Malaví

Rauði kross Íslands sendi gám með notuðum fatnaði og vörum sem skortur var á til malavíska Rauða krossins í nóvember 2008.

8. apr. 2009 : Hvernig ber að skilgreina hugtakið „vopnuð átök” skv. alþjóðlegum mannúðarlögum og tilkall til verndar gegn handahófskenndu ofbeldi (e. indiscriminate violence)

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur gefið út skjal þar sem varpað er ljósi á ríkjandi lagalegan skilning á hugtakinu „vopnuð átök sem eru alþjóðlegs eðlis" og á hugtakinu „vopnuð átök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis" skv. alþjóðlegum mannúðarlögum.

7. apr. 2009 : Ítalski Rauði krossinn vinnur sleitulaust að rústabjörgun og neyðaraðstoð vegna jarðskjálftans

Klukkan 3:30 þann 6. apríl varð öflugur jarðskjálfti í borginni L'Aquila í miðhluta Ítalíu, 120 km norðaustan við Róm. Skjálftinn mældist 6,3 stig á Richter samkvæmt upplýsingum frá ítalska Rauða krossinum. Tala látinna er komin yfir 200 og 1500 eru slasaðir í L'Aquila og nálægum þorpum. 70 manns hafa enn ekki fundist. Þessar tölur gætu enn átt eftir að hækka. Tugir þúsunda hafa misst heimili sín, en í borginni búa alls um 70.000 manns.

Björgunarsveitir frá ítalska Rauða krossinum voru komnar til L'Aquila innan klukkustundar frá því að jarðskjálftinn reið yfir. Leitað var í rústum alla nóttina með ljóskösturum og sífellt kemur meira hjálparlið og búnaður á jarðskjálftasvæðið. Þeir sem misst hafa heimili sín fá teppi, mat og önnur nauðsynleg hjálpargögn.

6. apr. 2009 : Rauði krossinn hjálpar nauðstöddum börnum í Mósambík

Þegar Sergio Macuculi var lítill drengur bjó fjölskylda hans við sárustu örbirgð. Foreldrar hans áttu hvorki fyrir skólagjöldum eða mat handa fjórum sonum sínum. Loks ákvað móðir Sergios að fara með hann á Centro de Boa Esperanca, athvarf fyrir nauðstödd börn sem rekið er í samstarfi við Rauða krossinn í Mósambík.

Sergio var sex ára gamall þegar móðir hans kom með hann í athvarfið. Í dag, þrettán árum síðar er þessi hávaxni og hrausti ungi maður ákaflega ánægður að hún skyldi hafa tekið þessa ákvörðun.

„Fjölskylda mín átti við mikla erfiðleika að stríða þegar ég kom hingað fyrst og Centro de Boa Esperanca breytti lífi mínu sannarlega til hins betra. Hér hef ég lært að velja hið góða fram yfir hið illa og gera mér bjartar framtíðarvonir “, sagði Macuculi brosandi.

1. apr. 2009 : Sinnti hjálparstarfi í Pakistan í skugga átaka

Áslaug Arnoldsdóttir hefur starfað fyrir Rauða krossinn um margra ára skeið og er hjálparstarf órjúfanlegur hluti af lífi hennar. Síðastliðið haust lá leið hennar til Pakistan þar sem hún aðstoðaði flóttamenn. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.