28. maí 2009 : Rauði krossinn styður jafningjafræðslu í Malaví

Frá árinu 2002 hefur Rauði kross Íslands veitt Rauða krossinum í Malaví fjárhagslega og tæknilega aðstoð vegna alnæmisverkefnis í Nkalo í Chiradzulu héraði í suðurhluta landsins.

26. maí 2009 : Rauði krossinn leggur aukna áherslu á alþjóðlegt málsvarastarf

Alþjóða Rauði krossinn hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á málsvarastarf í þágu nauðstaddra og stefnt er að því að það verði æ stærri hluti af starfinu.

19. maí 2009 : Verkefni til að bæta matvælaöryggi í Malaví

Rauði kross Íslands hefur um nokkurra ára skeið stutt alnæmisverkefni malavíska Rauða krossins í Chiradzulu héraði í suðurhluta Malaví.

18. maí 2009 : Endurbyggingarstarf Rauða krossins vegna jarðskjálftans í Abruzzo héraði á Ítalíu

Enn er ekki lokið starfi ítalska Rauða krossins vegna jarðskjálftans 6. apríl í Abruzzo héraði á Ítalíu. Jarðskjálftinn mældist 6,3 stig á Richterskvarða og varð 298 manns að bana. Um það bil 1.000 manns særðust og 28.000 misstu heimili sín. Mikið enduruppbyggingarstarf fer nú í hönd og þar leikur landsfélagið mikilvægt hlutverk. Um það bil 750 sjálfboðaliðar frá flestum deildum Ítalíu hafa unnið á vöktum við hjálparstörf í Abruzzo frá því að jarðskjálftinn átti sér stað. Gert er ráð fyrir því að 2.500 sjálfboðaliðar og starfsmenn til viðbótar taki þátt í uppbyggingarstarfinu á næstu mánuðum. 

12. maí 2009 : Einstakur árangur í baráttunni við malaríu í Sambíu

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hefur dauðsföllum af völdum malaríu fækkað um 66% í Sambíu.

11. maí 2009 : Alþjóða Rauða krossinn flytur særða og dreifir matvælum í Sri Lanka

Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins fluttu um 500 veika og særða burt af átakasvæðum í norðusturhluta Sri Lanka nú um helgina. Ferja sem Alþjóða Rauði krossinn hefur tekið á leigu, Green Ocean I,  flutti einnig nauðþurftir frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þessum hjálpargögnum verður dreift meðal þeirra þúsunda óbreyttra borgara sem hafa lokast af niður við ströndina vegna átakanna.

„Miklir bardagar standa ennþá nálægt heilsugæslustöð í Mullavaikkal, en það stofnar lífi sjúklinga, hjúkrunarfólks, lækna og starfsmanna Rauða krossins í mikla hættu," sagði Jacques de Maio, yfirmaður aðgerða Rauða krossins fyrir suðurhluta Asíu. „Þetta hindrar flutninga á særðum, óbreyttum borgurum og fjölskyldum þeirra."

8. maí 2009 : Gerum veröldina betri á 150 ára afmæli Rauðakrosshreyfingarinnar

Rauði kross Íslands tekur þátt í alheimsáskorun Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem nefnist Veröldin okkar. Þú átt leik (www.ourworld-yourmove.org). Átakinu er hrint úr vör í dag 8. maí á alþjóðadegi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Því er ætlað að beina athyglinni að fórnarlömbum hamfara og styrjalda og fá fólk um allan heim til að leggja sitt af mörkum til að aðstoða þá sem eru í nauðum staddir og gera veröldina að betri stað.

Í tilefni þess að 150 ár eru liðin frá stofnun Rauða krossins hefur þessi stærsta mannúðarhreyfing í heimi helgað árið 2009 baráttunni fyrir að gera veröldina betri. Með verkefnum sínum heimafyrir og á alþjóðavettvangi vinnur Rauði kross Íslands að því ásamt 186 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim að reyna að milda afleiðingar loftslagsbreytinga, bæta heilsu, að draga úr ógnum styrjalda og afleiðingum efnahagsþrenginga.

6. maí 2009 : Íslenskur sendifulltrúi Rauða krossins á leið til Íraks

Valgerður Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, heldur til Íraks þann 7. maí á vegum Rauða kross Íslands til að starfa fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Valgerður verður staðsett í borginni Najaf, sem er um 160 km suður af Bagdad. 

Valgerður mun vinna við sjúkrahúsið í borginni, einkum við þjálfun innlendra heilbrigðisstarfsmanna og við eflingu bráðaþjónustu þar. Valgerður hefur tvisvar áður unnið sem sendifulltrúi fyrir Rauða kross Íslands - í bæði skiptin í Pakistan: árið 1996 í borginni Quetta og svo í Kasmírhéraði árið 2005 vegna jarðskjálfta sem grönduðu um 80.000 manns.

4. maí 2009 : 90 ára afmæli Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans var stofnað í París í Frakklandi þann 5. mai 1919. Í dag starfa 186 landsfélög og næstum því 100 milljónir sjálfboðaliða innan Alþjóðasambandsins, sem gerir það að stærstu mannúðarhreyfingu veraldar.
 
Alþjóðasambandið hefur skipulagt sérstök hátíðarhöld í Elysée höllinni í París til að minnast þessara tímamóta. Þar verður kynnt svonefnd Parísaryfirlýsing (Paris Declaration) en í henni er fjallað um þann vanda sem mest herjar á mannkynið í dag. Í skjalinu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn hamförum og skaðlegum áhrifum þeirra. Bent er á mikilvægi þess að draga úr þörfinni fyrir neyðarviðbrögð með neyðarvörnum.

4. maí 2009 : Mexíkóski Rauði krossinn í fremstu víglínu

Sjúkraflutningadeild mexíkóska Rauða krossins hefur það hlutverk að tryggja sjúklingum aðhlynningu áður en þeir komast á sjúkrahús og flytja þá þangað sem þeir geta fengið sérfræðiaðstoð. Þessi deild verður í lykilhlutverki ef inflúensa A (H1N1) breiðist enn meira út á meðal íbúa.

Deildin starfar undir kjörorðinu „tími er gull", það er að segja sá tími sem menn hafa til að veita þeim skyndihjálp sem eru í lífshættu. „Þetta er mjög erfitt hér í Mexíkó-borg, sem er stærsta borg heims. Til að bregðast við erfiðleikum á sviði samgangna og flutninga leggjum við höfuðáherslu á að þjálfa áfram þá 12.000 sjálfboðaliða sem við höfum yfir að ráða. Það er líka mikilvægt er að vernda sjálfboðaliða, starfsfólk og almenning með því að tryggja notkun hlífðarfatnaðar og að hreinlætisreglum sé fylgt, þar á meðal sótthreinsun sjúkrabíla," segir Roberto Chávez Manjarrez, yfirmaður sjúkraflutningadeildar.

4. maí 2009 : Tveir íslenskir sendifulltrúar taka þátt í hjálparstarfi vegna flóða í Namibíu

Rúmlega hálf milljón manns í Namibíu og Angóla hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna mestu flóða sem orðið hafa í Sambesí fljóti í fjörutíu ár. Þúsundir hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín og hafast nú við í búðum þar sem mikil hætta er á sjúkdómum. Sex vikur eru liðnar frá því að flóðin hófust og um það bil 54.000 manns bíða þess enn að geta snúið aftur heim til sín.

Tveir sendifulltrúar frá Rauða krossi Íslands, þau Baldur Steinn Helgason og Huld Ingimarsdóttir, taka þátt í hjálparstarfinu. Þau hafa umsjón með flutningi á bílum og neyðargögnum frá Harare til neyðaraðstoðarteymis breska Rauða krossins í Caprivi-héraði í Namibíu. Hjálpargögnin eru ætluð um 12,000 fórnarlömbum flóðanna í fimm búðum.