29. jún. 2009 : Gaza: Ein og hálf milljón manna í greipum örvæntingar

Sex mánuðir eru nú liðnir frá því að hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna á Gasa lauk. Enn ríkir þó mjög alvarlegt ástand meðal almennings á svæðinu. Óbreyttir borgarar sjá ekki fram á geta komið lífi sínu í eðlilegt horf að nýju og fyllast æ meiri örvæntingu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem  Alþjóða Rauða krossinn (ICRC) sendi frá sér í dag. Ný skýrsla frá Alþjóða Rauða krossinum um ástandið á Gasa sýnir að íbúar eiga æ erfiðara með að sjá fyrir sér. Um leið fá alvarlega veikir sjúklingar ekki nauðsynlega læknisþjónustu. Skýrslan sýnir einnig að þúsundir Gasabúa sem misstu heimili sín og eignir fyrir hálfu ári hafa enn ekki fengið þak yfir höfuðið.

24. jún. 2009 : Í fótspor Henry Dunant

Í dag eru nákvæmlega 150 ár liðin frá því að orrusta við Solferino á Norður Ítalíu leiddi af sér hugmynd sem hefur síðan breytt heiminum. Svisslendingurinn Henry Dunant varð vitni að miklum hörmungum á völlunum við Solferino en jafnframt óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi íbúa í nærliggjandi bæjum sem hlúðu að hermönnum án tillits til þjóðernis þeirra.

Við heimkomuna lagði Dunant til að stofnuð yrðu hlutlaus sjálfboðaliðafélög sem myndu aðstoða þolendur vopnaðra átaka án tillits til þjóðernis, stjórnmálaskoðana eða trúarbragða. Þessi félög starfa í dag í 186 löndum og mynda með sér Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans, stærstu mannúðarhreyfingu veraldar.

23. jún. 2009 : Pálína Ásgeirsdóttir hlaut fálkaorðuna fyrir hjálparstörf

Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og einn allra reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands var sæmd fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn 17. júní fyrir alþjóðlegt hjálparstarf.  Hartnær 25 ár eru síðan Pálína hóf störf með Rauða krossinum og er hún vel að þessum heiðri komin.

“Ég lít á þennan heiður ekki síður sem viðurkenningu fyrir hjúkrunarstéttina og hjálparstarf almennt,” sagði Pálína Ásgeirsdóttir að þessu tilefni.

Fyrsta starf Pálínu á vettvangi hjálparstarfa var við neyðaraðstoð í Eþíópíu árið 1985, en þangað hélt hún á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar vegna mikillar hungursneyðar sem þar geisaði.  Árið 1986 varð hún sendifulltrúi Rauða kross Íslands við skurðspítala Alþjóða Rauða krossins á Tælandi.

Pálína hefur síðan þá starfað fyrir Alþjóða Rauða krossinn og hefur gríðarlega reynslu af störfum á átakasvæðum bæði sem hjúkrunarfræðingur og sem stjórnandi aðgerða.  Hún hefur meðal annars unnið í Sómalíu, í Afganistan, Pakistan og Kenýa vegna borgarstríðs í Súdan.  Pálína starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins við friðargæslustörf á hersjúkrahúsi NATO í Bosníu árið 1999.  Þá vann hún sem fulltrúi Alþjóða Rauða krossins að uppbyggingu nýs Rauða kross landsfélags í Austur Tímor.

19. jún. 2009 : Alþjóða Rauði krossinn reiðubúinn að bregðast við inflúensu A (H1N1)

Frá því að inflúensu A (H1N1) varð fyrst vart  hefur Alþjóða Rauði krossinn lagt mikla áherslu á styðja aukinn viðbúnað landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans við faraldrinum. Um leið hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) nú tilkynnt að inflúensan sé komin á 6. stig, en með því telst hún vera orðin að heimsfaraldri, þeim fyrsta í  40 ár.

„Virkja þarf landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim þannig að þau séu tilbúin að bregðast við hamförunum og sinna stoðhlutverki sínu í samvinnu við stjórnvöld," segir Dominique Praplan, yfirmaður heilbrigðis og umönnunar hjá Alþjóða Rauða krossinum.

Frá því að veiran fannst fyrst í Mexíkó í apríl hafa Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn unnið mikið forvarnar- og undirbúningsstarf. Þar á meðal má nefna ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana Sameinuðu þjóðanna á sviði neyðarviðbragða, samhæfingu samstarfsaðila úr hópi frjálsra félagasamtaka, fræðslu til almennings og sjúkraflutninga.

Í neyðarbeiðni frá 30. apríl óskaði Alþjóða Rauði krossinn eftir fjárframlögum til verkefnisins sem svara um bil 600 milljónum íslenskra króna (5 milljónir svissneskra franka). Búist er við að tilkynning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að faraldurinn hafi náð 6. stigi veki athygli á mikilvægi þessa starfs.

9. jún. 2009 : NATO leggur hvítum bílum

Herir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan hættu að nota hvítmálaða bíla frá og með síðustu mánaðamótum, eftir mikinn þrýsting frá hjálparstarfsmönnum í landinu. Rauði krossinn hefur lengi bent á hættuna af því fyrir sjálfstæða og óháða aðstoð á vígvellinum að starfsfólk á vegum herja aki um á hvítmáluðum ökutækjum, sem hefð er fyrir að hjálparstofnanir noti.

Ákvörðun NATO ber að fagna. Með henni hefur fengist viðurkennt mikilvægi þess að skýr greinarmunur sé gerður milli þeirra sem tilheyra aðilum að átökum og hinna, sem veita aðstoð á grundvelli þarfar, algjörlega óháð átakalínum.

5. jún. 2009 : Unnið að útrýmingu lömunarveiki í Afríku

Rauði kross Íslands mun veita 5 milljónum króna í bólusetningarherferð gegn lömunarveiki sem nú stendur yfir í 14 Afríkulöndum. Herferðin sem hófst í mars stendur yfir í 5 mánuði og er ætlunin að ná til 80 milljón barna undir 5 ára aldri. Framlag Rauða kross Íslands mun renna til verkefna í Tógó og Gana, en bólusetning þar hófst nú í byrjun júní.

„Lömunarveiki var mikið skaðræði hér á landi fyrir nokkrum áratugum og gæti hæglega blossað upp aftur, hér og um allan heim, ef ekkert er að gert þar sem hún geysar núna. Það er allt of mikið í húfi þegar hægt er að koma í veg fyrir smit með jafn einfaldri bólusetningu og raun ber vitni þar sem bóluefni er dreypt á tungu barnanna," segir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands.

4. jún. 2009 : Rauði kross Íslands og utanríkisráðuneyti styrkja hjálparstarf á Srí Lanka

Rauði kross Íslands veitti í dag fimm milljónir króna til hjálparstarfs meðal flóttamanna á Sri Lanka, sem nú hafast við í flóttamannabúðum við afar slæman kost. Féð bætist við fimm milljónir króna sem utanríkisráðuneytið hafði þegar ákveðið að veita í gegnum Rauða krossinn. Framlagið frá Íslandi nemur því tíu milljónum króna.

Framlagið rennur óskipt til hjálparstarfsins á norðurhluta eyjarinnar. Þar ríkir nú gríðarleg neyð meðal almennra borgara sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín vegna vopnaðra átaka á svæðinu, sem nú eru yfirstaðin. Nístandi þörf er fyrir matvæli, vatn og læknishjálp í yfirfullum flóttamannabúðum.

2. jún. 2009 : Fólkið sem flýr heimkynni sín

Samanburður á afgreiðslu Íslendinga og Norðmanna á hælisumsóknum leiðir í ljós að frændur okkar veita mun fleiri stöðu flóttamanna. Zoë Robert heimsótti hælisleitendamiðstöðina í Þrándheimi. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

2. jún. 2009 : Nær hundrað þúsund manns hafa sýkst af kóleru í Simbabve

Enn verður ekki séð fyrir endann á kólerufaraldrinum sem geisað hefur í Simbabve á undanförnum misserum. Vitað er um 98.308 sýkingar um land allt og 4.283 manns eru taldir hafa látið lífið. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu á vegum Alþjóða Rauða krossins og Rauða krossins í Simbabve. Þar er varað við því að enn stafi mikil hætta af faraldrinum þó að dregið hafi úr tíðni sýkinga á undanförnum mánuðum. Talið er að fjöldi greindra tilfella eigi eftir að fara yfir 100.000.

Innviðir samfélagsins illa farnir
„Alvarlegasta ástæða faraldursins er sú að helstu stoðir samfélagsins eru nær algerlega fallnar. Vatnsveitur, hreinlætisaðstaða almennings og heilbrigðiskerfi landsins eru meira og minna ónýt. Það er ennþá skortur á drykkjarhæfu vatni og hreinlæti er mjög ábótavant. Það er ennþá mikil mannekla í heilbrigðiskerfinu og skortur á sjúkragögnum," segir Marianna Csillag, sendifulltrúi Rauða kross Íslands í Simbabve. Marianna er hjúkrunarfræðingur og var send til Simbabve í janúar til að taka þátt í neyðaraðgerðum Rauða krossins vegna kólerufaraldursins. Þar hefur hún meðal annars starfað með neyðarteymi finnska Rauða krossins.