30. sep. 2009 : Umfangsmikið hjálparstarf Rauða krossins vegna flóða í Asíu og á Kyrrahafseyjum

Rauði kross Íslands tekur á móti framlögum til aðstoðar fórnarlömbum jarðskjálfta og flóðbylgju á Kyrrahafseyjum, og fellibyls og flóða á Filipseyjum. Hundruð manna hafa látið lífið á þessum svæðum undanfarna daga og tugir þúsunda eiga um sárt að binda.

Jarðskjálfti sem mældist 8 á Richter reið yfir Samóaeyjar í Kyrrahafinu í gærkvöldi og fylgdi mikil flóðbylgja í kjölfarið. Yfir 100 létust í hamförunum, bæði á Samóaeyjum og nágrannaeyjunni Tonga og fjölda er enn saknað. Hundruð manna hafa misst heimili sín vegna jarðskjálfta og flóða. Þetta er mikið áfall á þessum eyjum þar sem innan við 300.000 íbúar búa.

30. sep. 2009 : 1,8 milljónir manna þurfa á brýnni aðstoð að halda vegna fellibylsins Ketsana

Laugardaginn 26. september olli Fellibylurinn Ketsana mestu flóðum í miðborg Manila í meira en 40 ár. Önnur svæði í norðurhluta Filippseyja urðu einnig fyrir miklu tjóni  og að minnsta kosti 240 manns hafa látið lífið. 1,8 milljónir hafa orðið fyrir tjóni vegna hamfaranna. Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Filippseyjum vinna sleitulaust að björgunar- og leitarstörfum. Þeir útvega jafnframt húsaskjól, heitar máltíðir og teppi fyrir þá sem hafa hrakist af heimilum sínum.

Í dag hélt fellibyrlurinn áfram í vesturátt og kom á land í Víetnam þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins höfðu þegar varað íbúa við fárviðrinu og aðstoðað við að flytja rúmlega 160.000 manns af hættusvæðum. Miklar rigningar hafa verið í Víetnam á undan fellibylnum og að minnsta kosti 18 manns hafa drukknað. Þúsundir heimila hafa orðið fyrir skemmdum.

30. sep. 2009 : Rauði kross Íslands safnar fyrir Kyrrahafseyjar - íslenskur sendifulltrúi á staðnum

Rauði kross Íslands hefur opnað söfnunarsímann 904 1500 fyrir þá sem vilja styðja hjálparstarf meðal fórnarlamba flóðanna á Kyrrahafseyjum.  Þá dragast 1.500 kr. frá næsta símreikningi.

Að sögn Helgu Báru Bragadóttur sendifulltrúa Rauða kross Íslands á Fiji munaði miklu á Samoa um starf 135 sjálfboðaliða Rauða krossins sem þustu á strandsvæði til að láta vita af yfirvofandi flóðbylgju.  

Á Samóa hefur Rauði krossinn komið upp fimm tjaldbúðum fyrir fólk sem komst lífs af úr flóðbylgjunni, sem reið yfir eyjarnar eftir að snarpur jarðskjálfti var neðansjávar. Sjálfboðaliðar eru þessa stundina að dreifa plastdúkum, drykkjarvatni og sjúkragögnum meðal 10 – 15 þúsund manna sem urðu að flýja heimili sín.

 

29. sep. 2009 : Skjót viðbrögð Alþjóða Rauða krossins vegna mengaðs vatns í Kandahar

Viðvörunarbjöllur fóru í gang þegar í fjöldi manna lést í borginni Kandahar og um eitt hundrað sýktust af alvarlegum niðurgangi í síðasta mánuði. Á einum degi voru um 40 sjúklingar fluttir á Mirwais sjúkrahúsið til meðferðar. 18 manns hafa látist, mest börn, frá því sýkingarinnar varð fyrst vart. Líkleg ástæða sýkingarinnar er mengaður vatnsveituskurður sem þorpsbúar nota bæði til að ná sér í drykkjarvatn og til þvotta.

Á sjúkrahúsinu starfar Magnús H. Gíslason verkfræðingur og sendifulltrúi Rauða kross Íslands. Hlutverk hans felst í því að endurnýja raflagnir í byggingum sjúkrahússins á vegum Alþjóða Rauða krossins.

16. sep. 2009 : Þórunn Sveinbjarnardóttir leiðir alþjóðlegt teymi Rauða krossins í Kákasus

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður leiðir á næstu dögum alþjóðlegt teymi Rauða krossins sem kannar viðbúnað vegna hamfara í Kákasuslöndunum þremur, Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan. Þórunn verður fulltrúi Rauða kross Íslands í teyminu.

Jarðskjálftar eru algengir í þessum löndum, auk þess sem flóð, aurskriður og ýmsar veðurtengdar hamfarir eru þar tíðar. Tvær og hálf milljón manna búa á skjálftasvæðum í Kákasusfjöllum. Að minnsta kosti 25 þúsund manns létu lífið í jarðskjálfta í Armeníu árið 1988. Í þessum mánuði eyðilagði jarðskjálfti í Georgíu 1.400 hús með þeim afleiðingum að nú hafast fleiri en þúsund fjölskyldur við í tjöldum.

11. sep. 2009 : Íslenskir sérfræðingar þjálfa sjúkraflutningamenn í Palestínu

Tólf palestínskir sjúkraflutningamenn hafa nú lokið námskeiði í endurlífgunaraðferðum sem haldið var á vegum Rauða kross Íslands í höfuðborginn Ramallah á Vesturbakkanum. Seinna námskeiðið hefst á morgun og þar munu 13 sjúkraflutningamenn Rauða hálfmánans í Palestínu til viðbótar hljóta sömu þjálfun.

Námskeiðin eru eitt af þeim verkefnum sem Rauði kross Íslands stendur fyrir til aðstoðar palestínska Rauða hálfmánanum. Hildigunnur Svavarsdóttir skólastjóri Sjúkraflutningaskólans fer fyrir hópnum. Auk hennar eru tveir læknar, þeir Felix Valsson og Freddy Lippert, sem er frá Danmörku, og tveir sjúkraflutningamenn, þeir Lárus Petersen og Stefnir Snorrason sem sinna kennslunni. Um er að ræða tvö 20 tíma námskeið sem eru samkvæmt stöðlum evrópska endurlífgunarráðsins.

10. sep. 2009 : Tombóluframlag íslenskra barna til hjálpar börnum í Malaví

Tombólubörn Rauða krossins geta verið stolt af starfi sínu á árinu 2008. Börnin söfnuðu um  600.000 krónum til hjálpar börnum í forskólum í Chiradzulu og Mwanza héraði í suður-Malaví. Þar hefur Rauði kross Íslands stutt við alnæmisverkefni malavíska Rauða krossins undanfarin ár. Hólmfríður Garðarsdóttir sendifulltrúi starfar í Malaví.

Í Chiradzulu héraði eru þrír forskólar sem njóta stuðnings Rauða krossins. Það var einlæg ósk umönnunaraðila í skólunum að fá fleiri útileiktæki fyrir börnin. Var því ákveðið að hluti af framlagi tombólubarna yrði varið til kaupa á rólum, vegasalti, hringekju og rennibraut.

Í Mwanza héraði styður malavíski Rauði krossinn fjóra forskóla. Umönnunaraðilar þar og sjálfboðaliðar Rauða krossins óskuðu einnig eftir að nýta framlag tombólubarna á Íslandi til að kaupa timbur í vegasölt og rennibrautir, reipi í rólur, stóla, hillur og efni til að búa til tuskudúkkur fyrir börnin. Öll eru leiktækin framleidd í héruðunum.

8. sep. 2009 : Starfsfólk Alþjóða Rauða krossins á Mirwais sjúkrahúsinu verður vitni að ólýsanlegum þjáningum

Blaðamaðurinn Nima Elbagir heimsótti í sumar Mirwais sjúkrahúsið í borginni Kandahar í suðausturhluta Afganistan og sagði frá því sem hann varð vitni að er hann fylgdist með störfum sendifulltrúa Alþjóða Rauða krossins.