21. okt. 2009 : Sendifulltrúi Rauða kross Íslands vinnur við dreifingu hjálpargagna í hamförum

Baldur Steinn Helgason þróunar- og skipulagsfræðingur heldur á vegum Rauða kross Íslands til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fimmtudaginn 22. október en þar mun hann starfa í birgðastjórnunarstöð Alþjóða Rauða krossins í tvo mánuði.

Birgðastjórnunarstöðin í Dubai sér um að kaupa og flytja hjálpargögn á vettvang náttúruhamfara og farsótta í Afríku, Evrópu og Mið-Austurlöndum með hagkvæmum hætti og stuðlar þannig að skjótum viðbrögðum Rauða krossins við neyð. Um þessar mundir bregst Rauði krossinn meða annars við miklum hamförum í Asíu í kjölfar flóða og jarðskjálfta sem og hungursneyð í Eþíópíu og nálægum löndum og miklum flóðum í Vestur-Afríku.
 

19. okt. 2009 : Neyðarbeiðni frá Hvítarússlandi: mikil þörf fyrir ungbarnapakka

Í Hvítarússlandi er nístandi fátækt og margar fjölskyldur búa í sárri neyð. Síðsumars barst beiðni frá Rauða krossinum í Hvítarússlandi um ungbarnapakka sem sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands hafa útbúið og dreift hefur verið á svæðum þar sem þörfin er mikil.

Starfsmenn Rauða krossins í landinu segja að barnapökkunum verði dreift meðal stórra fjölskyldna, einstæðra mæðra og á stofnunum fyrir munaðarlaus og fötluð börn. Áhersla verður lögð á að ná til fólks sem býr í sveitum landsins, oft við afar kröpp kjör.

13. okt. 2009 : Neyðargögnum dreift með flugi á Súmötru og mikil þörf fyrir meiri aðstoð á Filippseyjum

Á næstu dögum verður mikið magn hjálpargagna sent með flugi til  þeirra sem lifðu af jarðskjálftana i vesturhluta Súmötru. Fyrsta flugvélin tók á loft í gær 12. október frá Kuala Lumpur og lenti í Padang klukkutíma seinna með 40 tonn af tjöldum, segldúkum, teppum og öðrum hjálpargögnum innanborðs. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins á Indónesíu sáu um að afferma vélina.

Aukin neyðaraðstoð á Indónesíu

Alþjóða Rauði krossinn (IFRC) leggur nú áherslu á að auka neyðaraðstoð sína á Indónesíu. Meðal annars eru notaðar þyrlur til að koma byggingarefnum og matvælum til fjölskyldna sem hafa einangrast í afskektum þorpum eftir að aurskriður féllu á vegi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um að dreifa hjálpargögnunum til nauðstaddra á hverjum stað. Undanfarna viku hefur Rauði krossinn á Indónesíu notað þyrlur til að koma hjúkrunarteymum félagsins á þessa afskekktu staði, en það hefur verið eina leiðin til að koma lífsnauðsynlegri læknishjálp til fórnarlamba hamfaranna.

13. okt. 2009 : Aðstæður hælisleitenda í Grikklandi –vettvangsskýrsla Rauða krossins og Caritas í Austurríki

Í ágúst 2009 birtu Rauði krossinn og Caritas í Austurríki niðurstöður vettvangsferðar til Grikklands í þeim tilgangi að kanna örlög hælisleitenda sem sendir voru frá Austurríki til Grikklands á grundvelli Dublinar samstarfsins. Vegna fjölda þeirra einstaklinga sem óska alþjóðlegrar verndar á Grikklandi hefur því oft verið haldið fram að grísk stjórnvöld og stjórnsýsla hafi hvorki bolmagn né getu til að tryggja hælisleitendum sanngjarna og réttláta málsmeðferð og að aðbúnaði hælisleitenda þar í landi sé verulega ábótavant.

Ríkisstjórnir sem taka þátt í Dublinar samstarfinu hafa hins vegar verið á öndverðri skoðun og haldið áfram að senda hælisleitendur til Grikklands á grundvelli þess þrátt fyrir tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og annarra samtaka og stofnana.

6. okt. 2009 : Mynd-samband milli Guantanamo fanga og fjölskyldna þeirra

Þökk sé framtaki sem Alþjóða Rauði krossinn setti á fót ásamt bandaríska hernum að fangar í Guantanamó fangabúðum bandaríska sjóhersins geta nú haldið fjarfundi við fjölskyldur sínar í gegnum mynd-tengingu. 

60 fangar skráðu sig fyrir fjarfundi þegar þessu var hrint í framkvæmd þann 17. september sl. Lengd hvers símtals er einn klukkutími og er takmarkað við nánustu fjölskyldu og ættingja. Fangarnir og ástvinir þeirra geta séð hvort annað á skjá á meðan á símtalinu stendur.  Umræðurnar eru takmarkaðar við fjölskyldu- og persónuleg mál, og eru undir eftirliti stjórnar fangabúðanna.