26. nóv. 2009 : Rauða kross hreyfingin bregst við loftslagsbreytingum, stríði og efnahagskreppunni

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans, sem er stærsta mannúðarhreyfing í heimi, mun leggja alla sína krafta í að bregðast við þeim mikla mannúðarvanda sem steðjar að heiminum í dag. Leiðtogar Rauða krossins munu halda áfram að brýna fyrir ríkisstjórnum og ráðamönnum að það skipti mestu máli að huga að velferð þeirra sem minnst mega sín og líða mest í hörmungum hvort sem er af völdum styrjalda, náttúruhamfara eða efnahagskreppu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fullrúaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans á fundi sem lauk í Naíróbí í gærkvöldi. Fulltrúaráðið er skipað leiðtogum Rauða kross hreyfingarinnar og kemur saman annað hvert ár. Fulltrúar rúmlega 180 landa voru á fundinum, en nú eru 150 ár liðin frá því að grunnurinn var lagður að stofnun Rauða kross hreyfingarinnar.

19. nóv. 2009 : Nýr formaður Alþjóða Rauða krossins kjörinn í Naíróbí

Tadateru Konoé, formaður Rauða krossins í Japan, var kjörinn formaður Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans á aðalfundi landsfélaga sem nú stendur yfir í Naíróbí í Kenýa. Konoé mun gegna formannsembættinu næstu fjögur ár.

Aðalfundur landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er haldinn annað hvert ár og fer með æðsta ákvörðunarvald Alþjóðasambandsins. Á aðalfundinum verður einnig samþykkt ný stefna Alþjóða Rauða krossins sem mótar starf þeirra 186 landsfélaga sem eiga aðild að Alþjóðasambandinu. Rauði kross Íslands mun vinna að því á næstu misserum að endurskoða stefnu félagsins samkvæmt hinni nýju stefnu 2020.

5. nóv. 2009 : Efnahagskreppan eykur mannúðarvanda í Evrópu

Samkvæmt Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum í Evrópu og Mið-Asíu hefur því fólki fjölgað mjög mikið sem þarf á hjálp að halda vegna efnahagskreppunnar.