28. jan. 2010 : Saga af munaðarlausum dreng á Haítí

Sebastían er einungis fimm mánaða gamall og er of ungur til að skilja að hann á ekki lengur móður.  

28. jan. 2010 : Hjálparstarf Rauða krossins á Haítí komið á fullan skrið

Á þeim rúmu tveimur vikum sem liðnar eru frá því jarðskjálftinn mikli reið yfir Haítí hefur Rauði krossinn aðstoðað hundruð þúsunda manna með dreifingu lífsnauðsynlegra hjálpargagna, hreinsun vatns og læknisþjónustu fyrir sjúka og slasaða. Neyðaraðgerðir hafa gengið framar vonum þrátt fyrir erfiðar aðstæður og að erfitt sé að koma hjálpargögnum inn í landið.

Rauði krossinn hefur hreinsað um 2,5 milljónir lítra af vatni en það svarar þörfum 100,000 manns á dag.  Vatninu er dreift til íbúa Port-au-Prince og Leogane, til tjaldsjúkrahúsa Rauða krossins, og á svæði þar sem almenningur hefur safnast saman undir berum himni.

26. jan. 2010 : Rauði kross Íslands á Haítí - myndir

Rauði kross Íslands brást strax við þegar jarðskjálftinn reið yfir Haítí þann 12. janúar. Fjársöfnun fór af stað og Hlín Baldvinsdóttir sendifulltrúi hélt utan tveimur dögum síðar.

Frétt 14.01.2010

25. jan. 2010 : Íslenskur drengur gleður munaðarlausar frænkur á Haítí

Daníel Hans Erlendsson, 13 ára gamall sonur Erlends Birgissonar sem er félagi í alþjóðabjörgunarsveit Landsbjargar, gladdi tvær litlar munaðarlausar stúlkur á Haítí nú um helgina. Frænkurnar Bedjina Dufreus þriggja ára og Britney Louis 1 árs fengu báðar bangsa að gjöf frá Daníel sem hann hafði beðið Friðbjörn Sigurðsson sendifulltrúa Rauða kross Íslands fyrir.

Daníel Hans fylgdist vel með fréttum af jarðskjálftanum á Haítí meðan faðir hans vann við björgunarstörf við mjög erfiðar aðstæður. Honum rann til rifja að sjá myndir af börnum sem misst höfðu allt sitt, og fékk þá hugmynd að einhverjir gætu notið góðs af böngsunum sem hann hafði fyrir löngu lagt til hliðar.

25. jan. 2010 : Góðum árangri náð miðað við erfiðar aðstæður

HLÍN Baldvinsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross Íslands, fór til Haítí sl. sunnudag og starfar hún nú sem fjármálastjóri í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins í landinu. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 23. janúar 2010.

23. jan. 2010 : Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands á Haítí

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands starfa nú að hjálparstörfum á Haítí. Hlín Baldvinsdóttir stjórnar fjármálum samhæfingarteymis Alþjóða Rauða krossins á staðnum og Friðbjörn Sigurðsson læknir starfar í tjaldsjúkrahúsi þýska Rauða krossins í Port-au-Prince.

Hlín segir að margir hjálparstarfsmenn vinni nánast allan sólarhringinn, einkum hjúkrunarstarfsfólk, enda þarfirnar gífurlegar. Margir hafa verið með brotin bein síðan á þriðjudag í síðustu viku án þess að hafa komist undir læknishendur. 

22. jan. 2010 : Hjálpargögn Rauða kross Íslands komin til Haítí

Eitt þúsund skyndihjálparpakkar Rauða kross Íslands eru nú komnir til Haítí. Sjálfboðaliðar haítíska Rauða krossins hafa því hjúkrunargögn til að gera að sárum fólks vítt og breitt um Port-au-Prince.

Hjálpargögnin voru flutt til Port-au-Prince með flugvél sem íslenska utanríkisráðuneytið sendi eftir íslensku rústabjörgunarsveitinni, sem þar var að störfum frá því skömmu eftir að jarðskjálftinn mikli varð í síðustu viku.

21. jan. 2010 : Brýnt að gera að meiðslum fórnarlamba skjálftans sem fyrst

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí hafa aðstoðað slasaða íbúa frá því jarðskjálftinn mikli reið yfir fyrir rúmri viku. Sjálfboðaliðarnir hafa bæði unnið á víðavangi þar sem fólk hefur safnast saman, og einnig inni á þeim sjúkrahúsum sem enn eru starfhæf því þau ná engan veginn að annast alla þá sem þangað leita hjálpar.

Þær Michelle Yvétia og Emmanuella Michel hafa gert að sárum 15-200 manns á dag. Þær eru báðar hjúkrunarfræðingar og eru frá Gonavaies héraði á Haítí þar sem fellibylir hafa aftur og aftur valdið miklum usla. Þær eru báðar sjálfboðaliðar Rauða krossins og þekkja afleiðingar hamfara af eigin raun. Þær fóru því eins fljótt og þær gátu til Port-au-Prince til að bjóða fram krafta sína.

21. jan. 2010 : Gistir í tjaldbúðum

Friðbjörn Sigurðsson læknir á Landspítala fer til Haítí til að starfa með þýska og finnska Rauða krossinum.
Viðtal við Friðbjörn birtist í DV 20. janúar í „Maður dagsins"

20. jan. 2010 : Hjálpargögn Rauða krossins komin til Haítí í kvöld

Skyndihjálpargögn og annar búnaður sem Rauði kross Íslands var beðinn um að útvega vegna jarðskjálftans í Haítí fór um borð í flugvél  á vegum utanríkisráðuneytisins í gærkvöldi. Vélin fór að sækja íslensku alþjóða björgunarsveitina. Áætluð lending í Port-au-Prince er um klukkan 14 að íslenskum tíma.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins brugðust að vanda skjótt við þegar leitað var til þeirra vegna pökkunar hjálpargagnanna og frágangs þeirra í flugvélina.

19. jan. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu 1.000 skyndihjálpargögnum til Haítí

Deildir á höfuðborgarsvæðinu brugðust skjótt við í gærkvöldi og virkjuðu sjálfboðaliða til að pakka skyndihjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans á Haítí.  Þrátt fyrir mjög stuttan fyrirvara mættu yfir 50 sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsið til að útbúa pakkana sem settir voru saman samkvæmt lista frá Alþjóða Rauða krossinum.  

„Sjálfboðaliðarnir sýndu með þessu í verki samstöðu sína með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Haítí sem staðið hafa vaktina sólarhringum saman frá því jarðskjálftinn reið yfir," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Það var ekki ljóst fyrr en eftir klukkan fimm í gær að nægar birgðir af þessum sjúkragögnum væru til í landinu til að uppfylla skilyrði Alþjóða Rauða krossins, og því gífurlega ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að taka þátt í þessu verkefni."

19. jan. 2010 : Íslenskur læknir á leið til Haítí ásamt hjálpargögnum Rauða krossins

Friðbjörn Sigurðsson læknir fer á morgun til Haítí þar sem hann mun starfa með læknateymi þýska Rauða krossins í einn mánuð. Friðbjörn vann á sjúkrahúsi á Haítí í tvo mánuði fyrir tæpum 20 árum.

Friðbjörn fer með flugvél á vegum utanríkisráðuneytisins sem fer þangað til að sækja íslensku alþjóðabjörgunarsveitina. Hjálpargögn sem Alþjóða Rauði krossins hefur sérstaklega beðið Rauða kross Íslands að útvega fara einnig með flugvélinni. Um er að ræða 1.000 skyndihjálparpakka sem sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu í gær, loftkælibúnaður fyrir skurðstofur, dísilrafstöðvar og annar sjúkrabúnaður.

18. jan. 2010 : Rauði kross Íslands sendir hjálpargögn beint til Haítí

Sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands munu pakka 1.000 skyndihjálparpökkum í kvöld fyrir skyndihjálparteymi sem veita slösuðum aðstoð á Haítí. Þetta er hluti af nauðsynlegum hjálpargögnum sem Alþjóða Rauða krossinn hefur sérstaklega beðið um. Pökkunin fer frem í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25, og hefst kl. 19:00.

Hjálpargögnin verða send með flugvél sem gert er ráð fyrir að muni flytja íslensku alþjóðabjörgunarsveitina frá Haítí. Rauði kross Íslands sendir einnig loftkælibúnaður fyrir sjúkraskurðsstofur, rafstöðvar og rafala fyrir starfsemi tjaldsjúkrahúsa og færanlegra sjúkrastöðva með vélinni.

17. jan. 2010 : Hlín komin til Port-au-Prince

Hlín Baldvinsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross islands, er nú komin til Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí. Tæplega 200 alþjóðlegir sérfræðingar Rauða krossins eru nú að störfum á hamfarasvæðinu auk þúsunda sjálfboðaliða Rauða krossins í Haítí.

Neyðarteymi Rauða krossins vinna nú að því að setja upp vatnshreinsistöðvar á opnum svæðum þar sem fólk hefur safnast saman og hefst við undir beru lofti. Þegar hefur tekist að koma upp búnaði sem þjónar þúsundum manna. Tjaldsjúkrahús með aðstöðu til að framkvæma flóknar skurðaðgerðir og annast slasaða hafa verið reist, og eins eru færanleg sjúkrateymi að störfum um borgina. Þá verður unnið að því að setja sem fyrst upp bráðabirgðaskýli fyrir heimilislausa.

16. jan. 2010 : Alþjóða Rauði krossinn eykur neyðarbeiðni um 100 milljón dollara vegna Haítí

Alþjóða Rauði krossinn hefur aukið neyðarbeiðni sína um tæpa 100 milljónir bandaríkjadollara (12,5 milljarða íslenskra króna) til að aðstoða 300.000 íbúa á Haítí í 3 ár. Fyrri neyðarbeiðni hjálparsamtakanna frá 13. janúar hljóðaði upp á 10 milljónir dollara.

„Þessi nýja neyðarbeiðni endurspeglar þá gífurlegu þörf sem íbúar á Haítí munu glíma við næstu mánuði og ár," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Jarðskjálftinn hefur lagt líf margra Haítíbúa hreinlega í rúst í allri merkingu þess orðs, og því margir sem þurfa á hjálp að halda til að byggja upp tilveru sína aftur og tryggja lífsviðurværi þeirra."

15. jan. 2010 : Næstu tveir sólarhringar skipta sköpum við björgun mannslífa á Haítí

Rauði kross Íslands hefur þegar sent söfnunarfé til neyðaraðgerða Alþjóða Rauða krossins vegna hamfaranna í Haítí. Um 17 milljónir króna hafa safnast á fyrstu tveimur sólarhringunum. Ljóst er að mikil þörf verður fyrir fjármagn vegna uppbyggingar á eyjunni í kjölfar neyðaraðgerðanna.

Rauði krossinn vinnur nú að því að hlúa að slösuðum, koma heimilislausum í öruggt skjól og dreifa mat og öðrum nauðsynjum til fórnarlamba jarðskjálftans. Næstu tveir sólarhringar skipta sköpum í björgun fólks úr rústunum. Aðgerðir Rauða krossins nú beinast að því að sinna brýnustu þörfum íbúa á hamfarasvæðunum með dreifingu matvæla, tryggja þeim aðgang að hreinu vatni, setja upp neyðarskýli, veita sálrænan stuðning og sinna leitarþjónustu fyrir þá sem hafa misst samband við ástvini.

14. jan. 2010 : Íslenskur sendifulltrúi á leið til Haítí í dag

Hlín Baldvinsdóttir, með reyndustu sendifulltrúum Rauða kross Íslands, heldur til Haítí í dag.  Hún mun gegna stöðu fjármálastjóra í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem meta mun þörf á aðstoð næstu vikna og mánaða. Hlín hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn frá árinu 1998, jafnt í þróunarstarfi sem neyðaraðgerðum í kjölfar hamfara.

Tíu neyðarteymi Alþjóða Rauða krossins eru nú á leið á vettvang. Þar er um að ræða sérfræðinga í dreifingu hjálpargagna, heilsugæslu, uppsetningu neyðarskýla, birgðaflutningum og hreinsun vatns, auk sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga sem munu setja upp tjaldsjúkrahús í höfuðborginni Port-au-Prince.

14. jan. 2010 : Níu milljónir safnast á fyrsta sólarhring vegna Haítí

Íslenska þjóðin hefur brugðist fádæma vel við söfnun Rauða krossins vegna hamfaranna á Haítí. Hátt í níu milljónir króna hafa safnast síðasta sólarhring í gegnum söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 og með beinum framlögum á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.

Hjálpargögn eru þegar byrjuð að berast til Port-au-Prince frá birgðastöð Alþjóða Rauða krossins í Panama og eins var birgðaflugvél send frá Genf nú síðdegis með 40 tonn af lyfjum og tækjabúnaði sem duga til að veita um 10.000 manns læknisaðstoð næstu þrjá mánuði. Í gær dreifði Alþjóða Rauði krossinn lyfjum og öðrum vörum til sjúkrahúsa sem hafa getað haldið út starfsemi í höfuðborginni Port-au-Prince sem duga til að veita um 1.200 manns aðstoð.

13. jan. 2010 : Rauði kross Íslands með símasöfnun vegna jarðskjálftans í Haítí

Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir eyjuna Haítí í gærkvöldi, og að tugþúsundir fjölskyldna þurfi á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.  Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí hafa unnið sleitulaust síðan í gærkvöldi að björgun og við að aðstoða sjúkrahús á hamfarasvæðinu við umönnun slasaðra.

Brýnustu aðgerðir nú eru björgun úr rústum, uppsetning bráðabirgða sjúkraskýla og að koma fólki sem fyrst í öruggt skjól. Alþjóðlegt teymi sérfræðinga frá Rauða krossinum mun koma til Haítí í dag til að veita aðstoð á hamfarasvæðunum.

„Reynslan sýnir að fyrstu aðgerðir Rauða krossins í jarðskjálftum sem þessum eru að veita fólki skjól, mat og hreint vatn, auk læknisaðstoðar og sálræns stuðnings," segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

13. jan. 2010 : Alþjóðleg neyðarteymi og hjálpargögn á leiðinni til Haítí

Tíu alþjóðleg neyðarteymi Rauða krossins eru nú á leið til Haítí, en samgöngur þangað eru að mestu leyti rofnar landleiðis og í lofti. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent átta manna matsteymi á vettvang, og níu neyðarteymi frá Evrópu og Norður-Ameríku sem skipuð eru heilbrigðisstarfsfólki og sérfræðingum til að mynda í hreinsun vatns, byggingu neyðarskýla, birgðaflutningum og fjarskiptum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí vinna nú í kapp við tímann við björgun og aðhlynningu slasaðra. Rauða kross félög á svæðinu hafa einnig sent sjálfboðaliða og hjálpargögn áleiðis til Haítí. Erfiðlega reynist að fá upplýsingar af hamfarasvæðunum þar sem símalínur eru slitnar í sundur og rafmagnslaust er að mestu.

8. jan. 2010 : Enn er ekki séð fyrir endann á afleiðingum fellibylsins á Filippseyjum

Í borginni Calamba í Laguna héraði á Filippseyjum búa 300 fjölskyldur enn í fjöldahjálparstöðvum eftir að fellibylurinn Ketsana reið yfir svæðið. Nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að þessar skelfilegu hamfarir áttu sér stað en fjárskortur hamlar því að fórnarlömbin fái þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Þeir sem búa í fjöldahjálparstöðvunum fá mat og hjálpargögn frá Rauða krossinum á Filippseyjum en helst af öllu vill fólkið geta farið heim sem fyrst.

Jelita Ajes hefur nú búið í fjöldahjálparstöð á skólalóð í borginni í næstum þrjá mánuði. „Við komum eftir fellibylinn og höfum búið hér síðan. Húsið okkar er enn á kafi í mittisdjúpu vatni," segir hún. Flóðin á Filippseyjum voru svo mikil að ekki er búist við því að vatnið sjatni að fullu fyrr en í febrúar eða mars á þessu ári.