31. mar. 2010 : Fjórtándi hjálparstarfsmaður Rauða krossins til starfa á Haítí

Valgerður Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, heldur til Haítí þriðjudaginn 6. apríl til starfa fyrir Rauða kross Íslands. Valgerður hefur áður starfað í neyðarverkefnum Rauða krossins í Pakistan og Írak. Hún er fjórtándi hjálparstarfsmaðurinn sem Rauði kross Íslands sendir til Haítí.

Valgerður mun starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, um 70 km. fyrir utan Port-au-Prince. Rauði krossinn er þar með tvö skurðlækningateymi auk þess að sinna almennri heilsugæslu á svæðinu sem varð mjög illa úti í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Haítí fyrir réttum tveimur mánuðum. 

Núna eru tveir aðrir sendifulltrúar Rauða kross Íslands að störfum á Haítií: Sigurjón Valmundsson, sem starfar sem bráðatæknir á sjúkrahúsinu sem Valgerður mun einnig vinna á og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur hjálparstarfsmaður á sviði vatnshreinsimála.

25. mar. 2010 : Alþjóðadagur vatnsins 2010

2,7 milljarðar íbúa jarðar búa ekki við lágmarkshreinlætisaðstöðu og 880 milljónir jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Við getum ekki leyft þessu ástandi að vara lengur.

Í tilefni af alþjóðadegi vatnsins sem var þann 22. mars, krefst Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans þess að brugðist verði skjótt við og bætt úr ástandi vatnsmála, hreinlætis og sorphreinsunar fyrir þá sem verst eru settir í heimsþorpinu. Alþjóðasambandið skuldbindur sig, ásamt samstarfsaðilum sínum, til að stuðla að því að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna náist, nánar tiltekið að „lækka um helming hlutfall þeirra sem ekki hafa aðgang að öruggu neysluvatni og fullnægjandi hreinlæti á tímabilinu 1990 til 2015“.

12. mar. 2010 : Rauði krossinn og Slökkviliðið senda sjúkraflutningamann til starfa á Haítí

Sigurjón Valmundsson, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður, heldur til Haítí á morgun, laugardaginn 13. mars, til starfa fyrir Rauða kross Íslands. Sigurjón mun starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, um 70 km. fyrir utan Port-au-Prince.

Rauði krossinn er þar með tvö skurðlækningateymi auk þess að sinna almennri heilsugæslu á svæðinu sem varð mjög illa úti í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Haítí fyrir réttum tveimur mánuðum. Sigurjón mun starfa bæði sem sjúkraflutningamaður fyrir Rauða kross spítalann og sem bráðatæknir við að veita sjúklingum fyrstu aðhlynningu.

5. mar. 2010 : Hlýjan frá Íslandi komin til skila á YouTube

Ungbarnaföt sem sjálfboðaliðar á Íslandi prjónuðu og söfnuðu saman síðastliðið haust eru nú kominn til skjólstæðinga Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi. Þórir Guðmundsson fylgdist með því þegar mæður í timburhjöllum á snævi þaktri gresjunni tóku við hlýjunni frá Íslandi.

Smellið á meira til að sjá myndband um afhendinguna.

1. mar. 2010 : Rauði krossinn veitir 3 milljónir í neyðaraðstoð í Chile

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að senda 3 milljónir króna til neyðaraðgerða í kjölfar jarðskjálftans í Chile nú um helgina. Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar veitt 360 milljónum króna úr neyðarsjóði sínum og Rauði krossinn í Chile hefur hrint af stað fjáröflun til aðstoðar fórnarlömbum hamfaranna. 

Hægt er að styðja hjálparstarfið í Chile með því að leggja inn á reikning Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 555, kt. 530269-2649, eða greiða með kreditkorti.

Rauði krossinn í Chile hefur unnið sleitulaust frá því jarðskjálftinn reið yfir að björgun úr rústum, aðhlynningu slasaðra og dreifingu hjálpargagna. Rauði krossinn hefur gríðarlega mikla reynslu af viðbrögðum vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í almannavörnum landsins.