25. jún. 2010 : Úsbekistan: Rauði krossinn hjálpar fórnarlömbum átakanna

Starfsmenn Rauða hálfmánans í Úsbekistan og Alþjóða Rauða krossins eru við störf á landamærum Úsbekistan og Kirgistan. Unnið er að viðbragðsáætlun til að mæta þörfum flóttamanna sem flestir eru konur og eldri borgarar en einnig þúsundir barna þeirra. Samkvæmt skráningu yfirvalda í Úsbekistan eru flóttamennirnir 92 þúsund.

Upphaf átakanna má rekja til spennu milli þjóðarbrota sem leiddi til ofbeldisverka á svæðum Osh og Jalalabat í Kirgistan þann 10. júní. Vegna átakanna flúði fjöldi íbúa yfir landamærin frá Kirgistan til Úsbekistan. Samkvæmt opinberum upplýsingum eru látnir um 200 og 19 þúsund slasaðir.

16. jún. 2010 : Sálfélagslegur stuðningur við íbúa Haítí.

Jóhann Thoroddsen sálfræðingur og verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands heldur til Haítí á morgun 17. júní. Jóhann mun næstu 10 daga starfa með heilsugæsluteymi finnska Rauða krossins í Port-au-Prince og meta hvernig best verður staðið að því að veita sálfélagslega aðstoð samhliða þeirri líkamlegu aðhlynningu sem nú er veitt. Rauði kross Íslands og finnski Rauði krossinn hafa sent umsókn um fjárstyrk vegna heilsugæsluverkefnisins til ECHO, sjóðs Evrópusambandsins fyrir neyðaraðstoð.

Jóhann hefur um árabil skipulagt og sinnt áfallahjálp og sálrænum stuðningi í kjölfar náttúruhamfara hér heima en hann hefur áður starfað fyrir Rauða krossinn á alþjóðavettvangi í Bam í Íran í kjölfar jarðskjálfta þar árið 2003.

15. jún. 2010 : Skelfilegt ástand á Haítí

Bjarni Árnason bráðalæknir er nýkominn frá Haítí þar sem hann dvaldi í um mánuð. Hann segir Haítíbúa oft fara of seint til læknis og að þar séu margir veikir. Nú sé heilbrigði fólks verra en áður. Greinin birtist í Fréttablaðinu 15.06.2010.

10. jún. 2010 : 3 sendifulltrúar Rauða kross Íslands á leið til Haítí

Níu sendifulltrúar verða að störfum á Haítí á vegum Rauða kross Íslands frá og með 23. júní en þá halda þangað Björk Ólafsdóttir sérnámslæknir í bráðalækningum, Kristjana Þuríður Þorkelsdóttir og Magna Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingar. Þær munu starfa á tjaldsjúkrahúsi þýska og finnska Rauða krossins í höfuðborginni Port-au-Prince. Þetta er í fyrsta sinn sem Björk, Kristjana og Magna Björk fara til starfa á vegum Rauða kross Íslands en þær tóku þátt í sendifulltrúanámskeiði félagsins sem haldið var í mars síðastliðnum.

Jóhann Thoroddsen sálfræðingur og verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands fór til Haítí þann 17. júní.  Verkefni hans er að meta hvernig best verður staðið að því að veita sálfélagslega aðstoð samhliða þeirri líkamlegu aðhlynningu sem nú er veitt en Rauði kross Íslands og Rauði krossinn í Finnlandi hafa sótt um fjárstyrk vegna þessa til ECHO, sjóðs Evrópusambandsins fyrir neyðaraðstoð. Jóhann hefur um árabil skipulagt og sinnt áfallahjálp og sálrænum stuðningi í kjölfar náttúruhamfara hérlendis. Hann starfaði einnig fyrir Rauða krossinn í Bam í Íran í kjölfar jarðskjálfta þar árið 2003.

10. jún. 2010 : Tuttugasti og fyrsti hjálparstarfsmaður Rauða krossinn kominn til Haítí

Gunnar Helgason, hjúkrunarfræðingur, kom til Haítí í dag þar sem hann mun starfa næstu vikur fyrir Rauða kross Íslands á sjúkrahúsi finnska og þýska Rauða krossins í Port-au-Prince. Á vegum Rauða kross Íslands eru nú fimm hjálparstarfsmenn á jarðskjálftasvæðinu, þar sem enn ríkir mikil og sár neyð.

Fyrir á sjúkrahúsinu eru Margrét Rögn Hafsteinsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Oddfríður Ragnheiður Þórisdóttir deildarhjúkrunarfræðingur og Elín Jakobína Oddsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur. 

8. jún. 2010 : Tyrkneski Rauði hálfmáninn og Magen David Adom í samvinnu vegna Gaza

Rauði hálfmáninn í Tyrklandi og Magen David Adom (Rauða Davíðstjarnan) í Ísrael sýndu grundvallarmarkmið Rauða kross hreyfingarinnar í verki með samvinnu sinnu við heimflutning tyrkneskra aðgerðarsinna. Tuttuguogþrír Tyrkir særðust í árás Ísraelshers í lok maí á skipalest sem var á leið með hjálpargögn til Gaza.

„Þetta var flókið ferli sem margir komu að, og mörg vandamál sem þurfti að leysa," útskýrir Ali Akgul, sem stýrði aðgerðum tyrkneska Rauða hálfmánans í Ísrael. „En með samvinnunni við Magen David Adom fundum við leiðir til að flytja hina særðu heim til Tyrklands. Þetta tókst einungis af því að fullt traust ríkti milli systurfélaganna, og þetta sýnir hvernig grundvallarmarkmið Rauða krosshreyfingarinnar virka í reynd, sérstaklega markmiðin um mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni."

2. jún. 2010 : Hugum að Haítí

Aðstæðum á jarðskjálftasvæðinu á Haítí verður vart með orðum lýst og þær eiga bara eftir að versna. Rigningatímabilið hófst sem betur fer með seinna móti þetta árið en nú er farið að rigna fyrir alvöru.