31. ágú. 2010 : Hjálpargögn til hamfarasvæða á sem skemmstum tíma

Baldur Steinn Helgason er sendifulltrúi Rauða kross Íslands á skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann sendi þennan pistil til að veita innsýn í hin mismunandi störf sendifulltrúa Rauða krossins á vettvangi:

19. ágú. 2010 : Rauði krossinn fjórfaldar neyðarbeiðni vegna flóðanna í Pakistan

Alþjóða Rauði krossinn fjórfaldaði í dag neyðarbeiðni sína vegna flóðanna í Pakistan og kallar nú eftir 8.2 milljörðum íslenskra króna til hjálparstarfsins. Neyðaraðstoð Rauða krossins og Rauða hálfmánans mun ná til um 900.000 íbúa á flóðasvæðunum.

Rauði kross Íslands opnaði fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 strax í kjölfar flóðanna fyrir þá sem vilja styrkja neyðaraðstoðina. Einnig er hægt að styðja neyðarbeiðnina með því að smella á vefborðann hér fyrir ofan. Félagið hefur þegar sent 3,5 milljónir íslenskra króna úr neyðarsjóði sínum í hjálparstarfið.

19. ágú. 2010 : Viðskiptavinir Sjóvár veita styrk til hjálparstarfs Rauða krossins á Haítí

Sjóvá færði, fyrir hönd viðskiptavina sinna í Stofni, peningagjöf til Rauða kross Íslands í vikunni og er gjöfin til styrktar hjálparstarfi á Haítí. 

Tjónlausir viðskiptavinir Sjóvár í STOFNI fá hluta iðgjalda sinna endurgreiddan á hverju ári. Í ár gafst viðskiptavinum kostur á að ráðstafa endurgreiðslunni eða hluta hennar til góðgerðarmála. Alls söfnuðust 350.000 krónur sem renna óskert til Rauða krossins.

„Fjölmargir viðskiptavinir völdu að gefa Rauða krossinum og því góða starfi sem Rauða kross hreyfingin vinnur á Haítí hluta af upphæð sinni, sagði Sigurjón Andrésson markaðsstjóri Sjóvar þegar hann afhenti Þóri Guðmundssyni gjöf viðskiptavina tryggingarfélagsina.

 

12. ágú. 2010 : Tafarlausrar aðstoðar þörf í Pakistan

Ekkert lát hefur verið á úrfellinu vegna monsúnrigninga í Pakistan, og er nú um 70% af öllu landinu undir vatni. Talið er að um 14 milljónir manna hafi orðið fyrir áföllum vegna flóðanna, og að um 6 milljónir þurfi á tafarlausri aðstoð að halda eigi íbúar að lifa hamfarirnar af á næstu vikum. Þetta eru verstu flóð í sögu landsins.

Alþjóða Rauði krossinn kallar nú eftir enn meira fjármagni í neyðarbeiðni sína sem hljóðar upp á tvo milljarða íslenskra króna. Rauði kross Íslands hefur þegar sent 3,5 milljónir króna úr neyðarsjóðum sínum til hjálparstarfsins og hefur einnig opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja styrkja neyðaraðstoðina.

6. ágú. 2010 : Múlasnar ferja hjálpargögn Rauða krossins til fórnarlamba flóða í Pakistan

Flóðin í Pakistan hafa heldur færst í aukana síðustu daga og hættan eykst enn á flóðasvæðunum í suðurhluta landsins þar sem 350.000 manns hafa nú verið fluttir frá heimilum sínum. Sameinuðu þjóðirnar áætla að allt að 4,5 milljónir hafi orðið fyrir áföllum af völdum flóðanna og æ fleiri þurfi nú á aðstoð hjálparsamtaka að halda.

Erfitt hefur reynst að koma hjálpargögnum til einangraðra fjallaþorpa í norðvesturhluta Pakistan. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa gripið til þess ráðs að nota múlasna til að ferja matvæli og önnur hjálpargögn til örvæntingarfullra íbúa á þessu svæði.

3. ágú. 2010 : Rauði kross Íslands sendir 3,5 milljónir vegna neyðarástands í Pakistan

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að senda 3,5 milljónir króna úr neyðarsjóðum sínum til hjálparstarfs vegna gífurlegra flóða í norð-vesturhluta Pakistans. Rauði krossinn hefur einnig opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 fyrir þá sem vilja styrkja hjálparstarfið.

Þetta eru verstu flóð sem orðið hafa í Pakistan í manna minnum. Yfirvöld segja að um 2,5 milljónir manna hafi orðið fyrir áföllum af völdum flóðanna og að 1.500 hafi farist. Enn er spáð úrfelli á þessum slóðum og er óttast að kólera kunni að breiðast út með menguðu vatni þar sem mannfjöldi hefur safnast saman til að leita sér skjóls.