29. okt. 2010 : Rauði krossinn berst við kóleru á Haítí

Rauði krossinn berst nú gegn því að kólera breiðist út á Haítí og berist til höfuðborgarinnar Port-au-Prince þar sem milljónir manna hafast enn við í bráðabirgðahúsnæði eftir jarðskjálftann mikla í janúar. Hreinlætismálum er mjög ábótavant, og óttast er að ekki verði við neitt ráðið blossi kólerufaraldur upp í höfuðborginni.

Þrír hjálparstarfsmenn Rauða kross Íslands eru nú að störfum á Haítí við tjaldsjúkrahús Rauða krossins í einu úthverfa Port-au-Prince,  Birna Halldórsdóttir sem sér um starfsmannamál fyrir sjúkrahúsið og hjúkrunarfræðingarnir Oddfríður Ragnheiður Þórisdóttir og Kristjana Þuríður Þorláksdóttir. 

28. okt. 2010 : Rauði krossinn bregst við tvöföldum hamförum í Indónesíu

Rauði krossinn í Indónesíu stendur í ströngu á tveimur vígstöðvum til að bregðast við hamförum sem riðu yfir landið síðasta mánudag. Þá hófst eldgos á eynni Jövu, og á sama tíma kom jarðskjálfti flóðbylgju af stað sem sópaði burt fjölda þorpa á Mentawaieyjum sem eru út af strönd Vestur Súmötru.

Merapi eldfjallið, virkasta eldfjall Indónesíu, hóf að spúa sjóðheitri ösku og kviku og rýma varð svæði í 10 km radíus frá fjallinu. Um 8000 íbúar voru fluttir á brott, og telja yfirvöld að allt að 40.000 manns kunni að vera í hættu. 25 manns fórust þegar heit aska rigndi yfir svæðið. Þar á meðal var einn sjálfboðaliði Rauða krossins í Indónesíu sem vann að rýmingu svæðisins, en tókst ekki að forða sér undan sjóðandi öskufallinu.

4. okt. 2010 : Eru alþjóðleg mannúðarlög úrelt á tímum hryðjuverka?

Rauði krossinn og Lagastofnun Háskóla Íslands boða til opins fundar um upphaf og þróun alþjóðlegs mannúðarréttar. Fundurinn verður kl. 12:15 - 13:15 í stofu 101 í Lögbergi miðvikudaginn 6. október.

Þar verður meðal annars rætt um hvort alþjóðleg mannúðarlög séu úrelt á tímum hryðjuverka og breyttra aðstæðna í heiminum í dag.

Antoine Bouvier, lögfræðingur hjá Alþjóðaráði Rauða krossins, flytur erindi og svarar fyrirspurnum. Hann er einn reyndasti sérfræðingur Alþjóða Rauða krossins á þessu sviði og er höfundur greina og bóka um alþjóðleg mannúðarlög.

2. okt. 2010 : Himnarnir hrundu

Caroline Seyani missti móður sína þegar hún var fimmtán ára gömul. Föður sinn þekkti hún aldrei. Hún er einn skjólstæðinga Rauða kross Íslands í Malaví og Fréttablaðið birtir hér brot úr sögu hennar. Sigríður Björg Tómasdóttir tók saman.