21. des. 2010 : Mannvinir Rauða krossins

Mannvinir Rauða krossins, styrktarfélagar til margra ára, styrkja langtímaverkefni félagsins á alþjóða vettvangi í þágu einstaklinga sem búa við miklar þrengingar. Þeir gera Rauða krossinum kleift að vinna að mikilvægu og árangursríku hjálparstarfi.

Fjárstuðningur Mannvina Rauða krossins renna til verkefna í Malaví, Síerra Leone og Palestínu.

17. des. 2010 : „Starfið í Pakistan var áhugavert og árangursríkt"

Lilja Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur kom heim frá Pakistan 15. desember en hún fór til Larkana í Sindh héraði í byrjun nóvember. Verkefni Lilju í Larkana var að taka þátt í hjálparstarfi fjölþjóðlegs teymis undir stjórn norska Rauða krossins sem hófst í lok ágúst í kjölfar flóðanna í Indus. 

„Við fórum sex daga vikunnar með færanlega sjúkrastöð í héruðin í kring, til Shikarpur, Shadad Kot og Larkana. Þar störfuðu tveir til þrír læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og tíu pakistanskir starfsmenn frá Rauða hálfmánanum við móttöku, greiningu og meðhöndlun sjúkra á svæðinu. Hlutverk mitt í teyminu var að stjórna uppsetningu stöðvarinnar og skipuleggja starfið á hverjum stað, sinna almennum hjúkrunarstörfum, t.d. sáraskiptingum og lyfjagjöfum, velja úr veikustu sjúklingana, sem fengu læknisviðtal, og meðhöndla einfaldari vandamál við innganginn,“ segir Lilja eftir heimkomuna.

15. des. 2010 : Börn og unglingar úr Gufunesbæ afhenda ágóða af jólamarkaði

Börn og unglingar í frístundaheimilum, frístundaklúbbi og félagsmiðstöðvum afhentu fulltrúum Rauða krossins ágóða af jólamarkaði sem haldinn var í Hlöðunni við Gufunesbæinn 2. desember s.l. Seld voru jólakort, jólasmákökur, brjóstsykur, fímó-skart, perlumyndir og margt fleira sem börn og unglingar höfðu útbúið í sameiningu.

Í Geiralundi við Gufunesbæinn var hægt að gæða sér á kakói, sykurpúðum og piparkökum gegn vægu gjaldi.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Hlöðuna og í Geiralund þennan dag og lagði um leið góðu málefni lið en alls söfnuðust rúmar 75 þúsund krónur sem renna til styrktar barnaheimilum í Malaví.

14. des. 2010 : Norræn Rauða kross félög skora á ríkisstjórnir sínar að leiða bann við kjarnavopnum

Landsfélög Rauða krossins á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð afhentu í gær forsætisráðherrum landa sinna áskorun um að beita sér í sameiginlegu átaki fyrir því að kjarnavopnum verði útrýmt í heiminum í samræmi við mannúðarhlutverk Rauða krossins og grundvallarmarkmið alþjóðlegra mannúðarlaga. Skorað er á ríkisstjórnir Norðurlandanna að leiða ferli um undirritun alþjóðasamnings sem feli í sér bann við notkun, þróun, birgðasöfnun og flutningi á kjarnavopnum.

Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri gengu á fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í gær og afhentu henni sameiginlega yfirlýsingu norrænu Rauða kross félaganna.

9. des. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins aðstoða vegna fannfergis í Skotlandi

Sjálfboðaliðar Rauða kross Bretlands hafa staðið vaktina allan sólarhringinn síðastliðnar tvær vikur og aðstoðað fólk vegna mikils fannfergis í Skotlandi og á Norður-Englandi. Umferðaröngþveiti hefur hamlað för sjúkrabifreiða í Glasgow og Lanarkshire og hafa neyðarsveitir breska Rauða krossins aðstoðað sjúkraflutningamenn við að komast leiðar sinnar. Þá hafa sjálfboðaliðar aðstoðað strandaglópa á Glasgow flugvelli með því að útvega þeim bedda til að halla höfði sínu á.

2. des. 2010 : Mikilvæg aðstoð í Pakistan

Rauði kross Íslands sendir um helgina þriðja fulltrúa sinn til starfa á flóðasvæðum landsins, Neyð fólksins enn gríðarleg, Margir fá alls ekki næga hjálp. Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2012.

2. des. 2010 : Rauði kross Íslands vinnur gegn útbreiðslu kóleru á Haítí

Um 20 haítískir sjálfboðaliðar og þrír íslenskir sendifulltrúar á vegum Rauða kross Íslands taka nú þátt í baráttunni gegn kólerufaraldrinum á Haítí. Þegar hafa rúmlega 1.700 manns látið lífið af völdum farsóttarinnar, sem óttast er að breiðist út með síauknum hraða á næstu vikum.

Haítísku sjálfboðaliðarnir vinna við verkefni í sálrænum stuðningi til rúmlega tveggja ára sem íslenska utanríkisráðuneytið styrkti nýlega með tíu milljóna króna framlagi. Um er að ræða 20 ungmenni sem hafa tekið að sér 15.000 manna hverfi í hæðum Port-au-Prince og vinna einkum með börnum, sem enn eru að vinna úr afleiðingum jarðskjálftans mikla 12. janúar. 

1. des. 2010 : Vanræksla við sprautufíkla eykur hættu á alnæmissmiti meðal almennings

Alþjóða Rauði krossinn telur að hægt sé að draga verulega úr útbreiðslu alnæmis ef sprautufíklar væru meðhöndlaðir sem sjúklingar frekar en afbrotamenn.  Í skýrslu sem gefin er út af tilefni alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember kemur fram að meðan dregið hefur úr nýsmitun alnæmis í Afríku hefur hún aukist mikið meðal sprautufíkla um allan heim.

Í skýrslunni er sagt að stjórnvöld hafi brugðist þessum hópi með því að dæma fólk í fangelsi í stað þess að veita sprautufíklum betri aðgang að heilbrigðiskerfinu og aðstöðu til að fá hreinar nálar og sprautur til að koma í veg fyrir smit og sýkingar.