30. mar. 2011 : Plúsinn afhendir styrk til Haítí

Sæunn Gísladóttir og Anna María Guðmundsdóttir fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs og Sólveigu Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs, hátt í fimmtíu þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði hópsins þann 19. mars síðastliðinn.

Peningurinn verður nýttur til að styðja við börn á Haítí sem enn eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið fyrir rúmu ári. Samanlagt hefur þá Plúsinn styrkt það verkefni um vel yfir hundrað þúsund krónur en þau lögðu einnig ágóða af markaði sínum á síðasta ári í sama verkefni.

25. mar. 2011 : Hjálparstarf Rauða krossins í Japan stóreflt

Rauði krossinn í Japan hefur stóreflt neyðaraðgerðir sínar fyrir fórnarlömb hamfaranna miklu sem riðu yfir landið fyrir hálfum mánuði. Rauði krossinn sinnir allri heilbrigðisþjónustu á vettvangi og í fjöldahjálparstöðvum á hamfarasvæðunum þar sem nálægt þrjú hundruð þúsund manns eru enn. Í neyðarsveitum Rauða krossins eru einnig sérfræðingar sem veita sálrænan stuðning og áfallahjálp.

Þá mun Rauði krossinn á næstu dögum vinna að bættum lífsgæðum þeirra sem þurfa að dvelja í fjöldahjálparstöðvum til langs tíma. Koma á upp heitum sturtum, dreifa hreinlætisvörum og bæta hreinlætisaðstöðu fólksins. Rauði krossinn hefur nú þegar dreift um 130.000 teppum  til nauðstaddra auk annarra hjálpargagna. Fatnaði verður dreift á næstunni, með sérstakri áherslu á þarfir ungra barna.

24. mar. 2011 : Líf og starf á flóðasvæði í Pakistan

Jóhannes Sigfússon lögregluvarðstjóri vinnur í Pakistan sem öryggisfulltrúi Alþjóða Rauða krossins. Hann skrifar um störf sín á vettvangi:

19. mar. 2011 : Aðstoðar við hjálparstörf

Gísli Ólafsson starfar hjá NetHope sem aðstoðar Rauða krossinn og fleiri samtök við björgunarstörf í Japan. Greinin birtist í Morgunblaðinu 19.03.2011.

18. mar. 2011 : Almenningur sýnir samstöðu og örlæti vegna hamfaranna í Japan

Rauði krossinn í Japan hefur nú sent neyðarsveitir til allra héraða sem urðu hvað verst úti vegna jarðskjálftans mikla og flóðbylgjunnar sem kom í kjölfar hans fyrir einni viku, og hefur sett upp starfstöðvar þar sem fá eða engin önnur hjálparsamtök eru. Tæplega hálf milljón manna hefst við í bráðabirgðaskýlum eftir að hafa misst heimili sín eða verið flutt í burtu vegna geislunarhættu.

Íslenska þjóðin hefur brugðist vel við söfnun Rauða krossins vegna hamfaranna í Japan. Hátt í þrjár milljónir króna hafa safnast í gegnum söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 og beinum framlögum á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649. Rauði krossinn hefur einnig fengið stuðning frá stórum hópi fólks sem tengist Japan og hefur vakið athygli á söfnun félagsins.

16. mar. 2011 : Engin orð yfir eyðilegginguna sem blasir við á hamfarasvæðunum

Engin orð eru til að lýsa eyðileggingunni sem blasir við í bænum Otsuchi á norðaustur strönd Japans. Flóðbylgjan sem fylgdi í kjölfar stóra skjálftans þann 11. mars hefur engu eirt. Íbúar fengu hálftíma viðvörun áður en 10 metra há bylgjan skall á bænum og hreif með sér allt sem á vegi varð. Enn er 9.500 íbúa saknað af 17.500. Eldar brenna hvarvetna þar sem eldsneyti úr bílum og bátum lekur út í umhverfið, og þar sem gasleiðslur bæjarins hafa farið í sundur.

Formaður Alþjóða Rauða krossins og landsfélagsins í Japan, Tadateru Konoé er einnig orða vant. „Þetta er það versta sem ég hef séð á ferli mínum hjá Rauða krossinum. Þetta kveikir upp minningar um ástandið í lok seinni heimstyrjaldar þegar borgir eins og Tokýó og Osaka voru rústir einar eftir sprengjuárásir," segir hann.

14. mar. 2011 : Rauði krossinn tekur við framlögum vegna hamfaranna í Japan

Rauði krossinn í Japan vinnur nú á sólarhringsvöktum við að veita aðstoð fyrir fórnarlömb hamfaranna miklu sem skóku landið síðastliðin föstudag. Japanski Rauði krossinn hefur áratuga reynslu af því að bregðast við hamförum sem þessum, jarðskjálftum og flóðbylgjum, jafnt innanlands sem utan. Rauði krossinn hefur þjálfað tugþúsundir starfsmanna og sjálfboðaliða á liðnum árum sem hafa nú verið virkjaðir til hjálparstarfa.

Sextíu og tvær neyðarsveitir japanska Rauða krossins sem skipaðar eru rúmlega 400 heilbrigðisstarfsmönnum hafa veitt aðstoð á hamfarasvæðunum frá því jarðskjálftinn reið yfir.  Rauði krossinn gegnir einnig lykilhlutverki við að dreifa hjálpargögnum, veita skyndihjálp og sálrænan stuðning.

13. mar. 2011 : Íslenskur sendifulltrúi við hjálparstörf á Fiji eyju

„Hugur okkar er með þeim þúsundum manna sem hafa orðið fyrir skaða vegna jarðskjálftans og flóðbylgjunnar í Japan,“ segir Helga Bára Bragadóttir sendifulltrúi Rauða krossins á Fiji. „Sem betur fer fór ekki eins illa á Kyrrahafseyjunum eins og við óttuðumst í upphafi.“

Helga Bára hefur unnið á Kyrrahafssvæðinu að viðbúnaði fyrir hamfarir í á þriðja ár. Verkefnið miðar að því að fyrir hendi sé á hverjum stað kerfi sem auðveldar innstreymi hjálpargagna og fólks þegar neyðarástand skapast.

Samstundis og í ljós kom hvílíkur jarðskjálfti hafði orðið við Japan fóru Helga Bára og kollegar hennar að vinna að viðbúnaði á svæðinu. Í Kyrrahafi er fjöldi eyja sem liggja svo lágt að ef stór alda hefði skollið á þeim hefði hún getað skolað fólki á haf út.

 

11. mar. 2011 : Var skotmark talíbana

Áslaug Arnoldsdóttir flúði átakasvæði í Pakistan þegar talibanar hugðust gera árás á hana og aðra sendifulltrúa Rauða krossins. Greinin birtist í Fréttatímanum 11. mars 2011.

11. mar. 2011 : Rauði krossinn bregst við jarðskjálfta og flóðbylgju í Japan

Japanski Rauði krossinn hefur unnið sleitulaust við aðstoð við fórnarlömb jarðskjálftans sem reið yfir Japan í dag kl. 14:46 að staðartíma og átti upptök sín undan austurströnd Japans. Rauði krossinn í Japan hefur á að skipa fjölbreyttum neyðarsveitum sem eru sérþjálfaðar í viðbrögðum við hamförum sem þessum. Ekki hefur borist beiðni frá japönskum yfirvöldum um alþjóðlega aðstoð. Að minnsta kosti 300 manns hafa látist og þúsunda er saknað.

Fjöldamörg lönd eru í hættu vegna flóðbylgju sem fylgdi í kjölfar skjálftans. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið send út til allra ríkja sem liggja að Kyrrahafi, þeirra á meðal allra Kyrrahafseyja, Ástralíu, Nýjasjálands, Havaí, Indónesíu, Mið og Suður-Ameríku, og Mexíkó. Rauðakrosshreyfingin um allan heim er í viðbragðsstöðu vegna þessa og hefur Rauði kross Íslands beðið reynda sendifulltrúa sína að vera reiðubúnir reynist þörf fyrir hjálparstarfsmenn í einhverjum þeirra landa sem flóðbylgjan kann að skella á næstu klukkustundirnar.

8. mar. 2011 : Hægt að koma í veg fyrir kynferðisglæpi gegn konum í stríði segir Rauði krossinn á Alþjóðadegi kvenna 8. mars

Því er oft haldið fram að kynferðisofbeldi gegn konum sé óumflýjanlegur fylgikvilli vopnaðra átaka en að mati Alþjóða Rauða krossins er það einfaldlega rangt. Rauði krossinn vill nota tækifærið á Alþjóðadegi kvenna þann 8. mars til að hvetja ríki heims að hvika hvergi í baráttunni gegn nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi sem eyðileggur líf kvenna á átakasvæðum.
 
„Kynferðisofbeldi gegn konum á tímum átaka gerist ekki sjálfkrafa,“ segir Nadine Puechguirbal, ráðgjafi Alþjóða Rauða krossins í málefnum kvenna og stríðs. „Slíkt ofbeldi er viðurstyggilegur glæpur, og því verður að sækja menn til saka fyrir verknaðinn. Gerendur myndu ef til vill halda aftur af sér ef þeir vissu fyrir víst að þeim yrði refsað fyrir gerðir sínar.“

4. mar. 2011 : Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn aðstoða fórnarlömb átaka í Líbýu

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans vinna nú á vöktum allan sólarhringinn við að veita aðstoð innan Líbýu og við landamæri nágrannalandanna. Tugþúsundir flóttamanna streyma á hverjum degi til Egyptalands og Túnis þar sem Rauðakrosshreyfingin og fleiri mannúðarsamtök veita viðeigandi aðstoð.

Nokkur hundruð manns hafa látið lífið og þúsundir særst í átökum öryggissveita stjórnvalda og vopnaðra uppreisnarhópa sem brutust út um miðjan febrúar. Mikil neyð ríkir meðal almennings og tugþúsundir manna hafa flúið til Egyptalands og Túnis, sérstaklega erlent vinnuafl frá Asíu og ríkjum sunnan Sahara.

1. mar. 2011 : Viðbúnaður í fjallahéruðum Kákasus

Rauði kross Íslands er í samstarfi við danska Rauða krossinn og Rauða kross félög í Georgíu og Armeníu sem gengur út á að efla almannavarnir í Kákasuslöndunum. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu. Almannavarnir þessara landa hafa fram að þessu verið fremur bágbornar og löndin hafa átt erfitt með að takast á við afleiðingar náttúruhamfara.

Samstarfsverkefnið hófst árið 2010. Það nær til 72.000 íbúa og markmiðið er að efla hæfni og þrautseigju fólks til að takast á við tíðar náttúruhamfarir en sem dæmi má nefna að árið 1988 létust um 25.000 manns í öflugum jarðskjálfta í Armeníu.

Verkefnið felst meðal annars í því að efla viðbúnað og bæta þekkingu á neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Íbúar í þessum heimshluta hafa löngum búið við vopnuð átök og náttúruhamfarir auk þess sem efnahagur er bágborinn og stjórnvöld misvel í stakk búin til að mæta þörfum þeirra.