21. jún. 2011 : Sendifulltrúar þjálfaðir í uppbyggingu skjóls í kjölfar náttúruhamfara

Tveir meðlimir veraldarvaktar Rauða kross Íslands, Óskar Torfi Þorvaldsson byggingarverkfræðingur og Gísli Guðfinnsson byggingariðnfræðingur fóru fyrir skömmu í gegnum þjálfun hjá Alþjóðasambandi Rauða krossins í uppbyggingu skjóls í kjölfar náttúruhamfara.

Fyrri hluti námskeiðsins var í formi fimm vikna net-námskeiðs sem þróað var af spænska Rauða krossinum. Til að fá aðgang á seinni hlutann þurftu þátttakendur að ná viðunandi árangri í fyrri hlutanum.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram á fimm daga tímabili í byrjun júní í Ottawa í Kanada. Þjálfunin var skipulögð af sérfræðingum frá kanadíska og ástralska Rauða krossinum. Fengu þátttakendur meðal annars tækifæri til að framkvæma þær lausnir sem fjallað var um í fyrri hluta námskeiðs.

 

10. jún. 2011 : Rauði krossinn krefst þess að komast óhindrað að átakasvæðum í Sýrlandi

Alþjóða Rauði krossinn harmar það hversu margir hafa látið lífið og særst í átökunum í Sýrlandi, og krefst þess að fá leyfi til að aðstoða fórnarlömb átakanna, og sérstaklega þá sem teknir hafa verið til fanga.

„Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til sýrlenskra yfirvalda hefur Rauða krossinum ekki verið leyft að aðstoða þá sem eru í sárri neyð. Við erum staðráðin í því að aðstoða borgara sem nú líða miklar þjáningar vegna ofbeldisverka og átaka. Og við erum einnig staðráðin í því að aðstoða þá sem teknir hafa verið höndum,“ sagði Jakob Kellenberger formaður Alþjóða Rauða krossins (ICRC). „Þetta fólk þarf að fá lífsnauðsynlega aðstoð án tafar.“

7. jún. 2011 : Harmleikurinn við Miðjarðarhafið sýnir að enn frekari þörf er á að tryggja réttindi farenda

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans lýsir áhyggjum yfir afdrifum þeirra hundruða farenda (e. migrants) sem flúðu yfir Miðjarðarhafið í byrjun árs.