30. sep. 2011 : 50 þúsund manns fá neyðaraðstoð í Sómalíu

Aðstoð Rauða kross Íslands vegna hungursneyðarinnar í Sómalíu nær til 50 þúsund manna og nemur nú alls um 56 milljónum króna.

13. sep. 2011 : Við þurfum kraft til að klára hlaupið

Þegar jarðskjálftinn ógurlegi reið yfir Haítí í ársbyrjun 2010 fylgdust Íslendingar í beinni útsendingu með því hörmungarástandi sem alls staðar blasti við; eyðilegging og dauði. Almenningur brást skjótt við og sýndi mikið örlæti í fjárframlögum sínum til neyðaraðstoðarinnar.

12. sep. 2011 : Starfsemi Rauða krossins í Sierra Leone á myndbandi

Rauði kross Íslands styður 150 ungmenni árlega til náms og starfsþjálfunar í Moyamba athvarfinu í Síerra Leone. Ungmennin læra að lesa og skrifa og stunda iðnnám í valinni grein. Hver nemandi fær áhöld fyrir sitt sérsvið sem hann nýtir í náminu og fær svo til eignar eftir útskrift. Þannig fá ungmenni í trésmíðanámi sagir, hamra, hefla og annað slíkt en klæðskeranemarnir fá meðal annars saumavél.

Rauði krossinn í Síerra Leone heldur úti nokkrum slíkum athvörfum víðs vegar um landið, en Rauði kross Íslands hefur stutt starfsemina frá 2004, meðal annars með styrk frá Mannvinum Rauða krossins.

7. sep. 2011 : Ostaveisla í Pakistan

Hrafnhildur Sverrisdóttir er sendifulltrúi Rauða krossins í Pakistan. Hún skrifaði dagbók fyrir Morgunblaðið sem birtist í blaðinu þann 21.08.2011.

6. sep. 2011 : Fimm þúsund eplum pakkað í afríska taupoka

Málshátturinn margar hendur vinna létt verk átti svo sannarlega við í dag þegar um 30 sjálfboðaliðar frjálsra félagasamtaka sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu komu saman til að pakka 5000 eplum í taupoka sem saumaðir voru í Úganda. Verkefnið er samstarf átta félagasamtaka og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um að kynna þróunarmál fyrir almenningi á Íslandi. Á morgun verður eplunum svo dreift á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri undir yfirskriftinni: Þróunarsamvinna ber ávöxt.

Með eplunum fylgja upplýsingar um þann árangur sem náðst hefur með þróunarsamvinnu á síðustu árum. Upphaflega stóð til að prenta þessar upplýsingar á bréfpoka, en kostnaður við það þótti of hár. Í staðinn voru félagasamtök í Úganda sem starfa að uppbyggingu samfélagsins í fimm þorpum þar sem stuðlað er að betri menntun, fullorðinsfræðslu, heilsugæslu og ræktun fengin til verksins. Þannig varð því saumaskapurinn í raun sjálfstætt þróunarverkefni sem gefur þessu kynningarátaki sérstakan lit og undirstrikar gildi þróunarsamvinnu. Pokarnir eru svo í sjálfu sér fallegir minjagripir sem nýta má til ýmissa hluta.

2. sep. 2011 : Þróunarsamvinna ber ávöxt

Frjáls félagasamtök á Íslandi sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu standa að kynningu á þróunarmálum í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands vikuna 5.-7. september. Markmiðið er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda og vekja Íslendinga betur til vitundar um samfélagslegar og siðferðilegar skyldur þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Til að vekja athygli á málaflokknum munu félagasamtökin dreifa eplum á fjölförnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri miðvikudaginn 7. september undir yfirskriftinni: Þróunarsamvinna ber ávöxt. Auk ávaxtarins fær fólk í hendur upplýsingar í stuttu máli um árangur sem náðst hefur með þróunarsamvinnu á síðustu árum.