Rauði krossinn krefst verndar fyrir fórnarlömb loftslagsbreytinga

17. des. 2009

Alþjóða Rauði krossinn, stærsta mannúðarhreyfing í heimi, hvetur ráðamenn þjóðríkja til að tryggja að lokayfirlýsing loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn verndi þá sem minnst mega sín. Tilraun til að stytta lokatexta lokayfirlýsingarinnar í Kaupmannahöfn stofnar þeim sem minnst mega sín í hættu.

„Félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim líta þetta mál mjög alvarlegum augum,” segir Bekele Geleta framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins. „Ef ekki er tekið tillit til þeirra sem minnst mega sín í texta lokayfirlýsingarinnar, þýðir það um leið að þeir njóta ekki nauðsynlegrar verndar.”

Sem hluti af alheimshreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur Rauði kross Íslands ásamt öðrum landsfélögum hreyfingarinnar sömu ábyrgð og skyldur til gagnkvæmrar hjálpar. Rauði kross Íslands vekur athygli á neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á hin fátækari ríki heims og hvetur stjórnvöld til að virða alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfis- og loftlagsmálum. Rauði krossinn hvatti umhverfisráðherra og samninganefnd Íslands til að hafa í huga þarfir þeirra sem minnst mega sín í heiminum og verða fyrir mestum skaða vegna afleiðinga loftslagsbreytinga.

„Loftslagsbreytingar eiga sér stað um allan heim og það eru þeir sem þegar standa höllum fæti vegna fátæktar sem verða fyrir mestum skakkaföllum,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Öllum heiminum ber að vernda þá sem minnst mega sín og styrkja stöðu þeirra. Þetta þarf að vera eitt af lykilatriðunum í lokayfirlýsingu loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn.”

Vísindalegar rannsóknir sýna að hamfarir af völdum loftslagsbreytinga færast sífellt í aukana og hafa áhrif á lífsskilyrði hundruða milljóna manna. Fleiri og alvarlegri hamfarir ýta undir nauðsyn þess að bregðast tafarlaust við ástandinu með því að auka viðbúnað. Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim vinna að því að bæta neyðarviðbrögð og neyðarviðbúnað.

„Efla þarf neyðarvarnir mjög mikið til að hægt sé að vernda þá sem standa höllum fæti. Lokatexti yfirlýsingarinnar tekur hins vegar ekki tillit til þessa hóps með skýrum hætti og tryggir þeim ekki nauðsynlega vernd. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við okkur í dag,“ segir Bekele Geleta
Enn skortir fjármagn til að hjálpa fórnarlömbum að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Margir styrktaraðilar vilja nýta fé sem nú er ætlað í neyðaraðstoð í það verkefni. „Ef færa þarf fjármagn þaðan sem brýn þörf er fyrir hjálparstarf, til dæmis matvælaaðstoð, þá aukum við þá neyð sem þegar er til staðar,“ segir Geleta. „Nýtt fjármagn er nauðsynlegt til að tryggja öryggi þeirra sem eru í hættu vegna loftslagsbreytinga um allan heim.

Alþjóða Rauði krossinn fylgist vandlega með viðræðunum í Kaupmannahöfn. Hreyfingin mun beita sér fyrir því að ásættanleg lausn fáist á málinu.