Utanríkisráðuneytið styrkir Rauða kross verkefni á átakasvæðum

16. des. 2009

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að styrkja verkefni Rauða krossins fyrir stríðsþjáða í Síerra Leóne, Palestínu og Afganistan um samtals 21 milljón króna.

Átta milljónir króna renna í verkefni Rauða krossins í Síerra Leóne til aðstoðar ungu fólki sem tók þátt í borgarastyrjöld í landinu á barns aldri. Framlagið rennur til endurhæfingarathvarfa þar sem ungmenni, sem komust ekki í skóla á styrjaldarárunum, læra að lesa og skrifa og fá tilsögn í einstaka iðngreinum. Markmiðið með þessu verkefni er að hlúa að stríðshrjáðum börnum til að auðvelda þeim að takast á við eðlilegt líf. Framlagið bætist við stuðning Rauða kross Íslands sem hefur styrkt verkefnið frá 2005.

Verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Palestínu um sálrænan stuðning við börn í grunnskólum hlýtur einnig 8 milljón króna styrk. Rauði kross Íslands hefur verið í samstarfi við palestínska Rauða hálfmánann síðan 2002, og vinnur að samstarfsverkefni með Rauða krossi Danmörku, Ítalíu og Frakklands þar sem börnum og forráðamönnum þeirra er veittur sálrænn stuðningur í skólum. Markmið verkefnisins er að bæta líðan barnanna og fjölskyldna þeirra sem búa við daglegan ótta vegna viðvarandi spennu á svæðinu, og stuðla að heilbrigðum samskiptum milli barnanna, aðstandenda og kennara þeirra.

Þá styrkir utanríkisráðuneytið starf Alþjóða Rauða krossins í Afganistan. Alþjóða Rauði krossinn hefur sinnt hjálparstarfi í Afganistan óslitið frá árinu 1987 og hefur Rauði kross Íslands útvegað tugi hjálparstarfsmanna til verkefna í landinu á þessum tveimur áratugum. Þar er nú íslenskur verkfræðingur, Magnús Gíslason, sendifulltrúi Rauða kross Íslands sem hefur það verkefni að endurnýja og tryggja rafmagn á Mirwais sjúkrahúsinu í Kandahar þar sem þúsundir óbreyttra borgara leita sér aðstoðar vegna veikinda eða sára eftir skotbardaga, sprengjugildrur, sjálfsvígsárásir og önnur átök.