Fimm ára hjálparstarfi Rauða krossins á flóðbylgjusvæðum að ljúka

Þóri Guðmundsson sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

18. des. 2009

Annan dag jóla minnumst við þess að þá verða fimm ár liðin frá því að hamfaraflóðbylgjan mikla reið yfir Asíulönd þann 26. desember 2004.  Flóðbylgjan olli gífurlegum skaða við strendur Indónesíu, Sri Lanka og Tælands en manntjón varð víðar, jafnvel við strendur Afríku.

Viðbragðgskerfi Rauða krossins fór strax í gang; haldnir voru alþjóðlegir símafundir um ástandið, fólk ræst út á birgðastöðvum, tjaldsjúkrahús gerð klár og risastórar flutningaflugvélar teknar úr flugskýlum. Umfangsmesta hjálparaðgerð Rauða kross hreyfingarinnar um áratugaskeið var hafin.

Hér á landi opnaði Rauði krossinn söfnunarsíma samdægurs. Og Íslendingar létu ekki bíða eftir sér. Um áramótin höfðu 50 milljónir króna safnast frá almenningi, fyrirtækjum, samtökum og stjórnvöldum. Síðar átti enn meira eftir að safnast í sameiginlegri söfnun nokkurra samataka.

Nú, fimm árum síðar, hefur hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins náð til 5 milljóna manna. Búið er að byggja rúmlega 50 þúsund hús og endurbyggja 289 spítala eða heilsugæslustöðvar. Nærri 700 þúsund manns hafa betri aðgang að hreinu vatni. Ekki skiptir heldur minnstu máli að um 40 þúsund manns hafa nú fengið þjálfun í fyrstu viðbrögðum og geta því brugðist hratt við næst þegar hamfarir verða.

Öll áhersla hefur verið á að standa þannig að enduruppbyggingunni að þau samfélög sem urðu fyrir miklum skaða standi eftir sterkari en áður; Húsin þoli betur jarðskjálfta og flóð og fólk sé betur í stakk búið að bregðast við hamförum.

Meðal hjálparverkefna sem Rauði kross Íslands kom að má nefna hjúkrun á Indónesíu, sálrænan stuðning á Sri Lanka, stjórn birgðaflutninga, þjálfun sjálfboðaliða og samhæfingu hjálparstarfs. Síðasta verkefnið sem Rauða krossi Íslands studdi var á Nias eyju. Flóðbylgjan sem lenti á Nias var 10 metra há og lagði eyjuna meira og minna í rúst. Söfnunarfé almennings frá Íslandi var meðal annars notað til þess að útvega 12 þúsund manns, í átta þorpum, hreint drykkjarvatn úr nálægum uppsprettulindum. Svona mætti reyndar lengi telja.

Rauði kross Íslands sendi samtals 18 sendifulltrúa á hamfarasvæðin til hjálparstarfa í lengri og skemmri tíma, suma oftar en einu sinni. Sjálfur fylgdi ég hjálpargögnum sem flutt voru í risastórri Boeing 747 flutningaflugvél sem Atlanta flugfélagið lagði fram endurgjaldslaust um miðjan janúar. Eyðileggingin meðfram austurströnd Sri Lanka er nokkuð sem aldrei líður úr minni.

Ómar Valdimarsson starfaði í Indónesíu þegar ósköpin urðu og átti eftir að gegna mikilvægu hlutverki í samræmingu hjálparstarfsins. Maður sem hann hitti í Banda Aceh sagði sögu sem var jafn nístandi og hún er eftirminnileg. Maðurinn hafði misst eiginkonu, tvö börn og flesta aðra ættingja í flóðinu. Hann átti aðeins fötin sem hann var í og farsíma, sem hann hafði týnt en einhvern vegin fengið aftur. Hann sýndi Ómari mynd í farsímanum af fjölskyldu sinni. Það var eina myndin sem hann átti af þeim; allt annað var tapað.

Líkja má alþjóðahreyfingu Rauða krossins við hnattrænt kerfi samhjálpar sem virkar þannig að þegar heimamenn þurfa utanaðkomandi aðstoð, þá er hún til staðar. Við Íslendingar getum verið stoltir að tilheyra þessu samhjálparkerfi.  Stuðningur almennings hér á landi við hjálparstarfið í Asíu eftir flóðbylgjuna miklu sýnir  líka að það virkar vel þegar á reynir.