Rauði krossinn styður jafningjafræðslu í Malaví

21. des. 2009

Hluti af alnæmisverkefni Rauða krossins í Malaví felst í jafningjafræðslu um alnæmi og smitleiðir þess. Fræðslan fer þannig fram að ungir sjálfboðaliðar Rauða krossins kalla saman jafnaldra með svipaðan bakgrunn og áhugamál og kenna þeim í smáum hópum hvernig forðast megi þennan hættulega sjúkdóm.

„Jafningjafræðslan fer fram í skólum eða í tengslum við ýmsa viðburði þar sem ungmenni hittast,” segir Hólmfríður Garðarsdóttir heilbrigðisráðgjafi Rauða kross Íslands í Malaví. „Það skiptir mjög miklu máli að ungt fólk fái fræðslu um kynheilbrigði og lífsleikni. Aukin þekking á smitleiðum og öruggari lífsstíll er besta leiðin til að draga úr sýkingarhættu og þess vegna er jafningjafræðslan eitt af mikilvægustu verkefnum okkar.”

Rauði kross Íslands styrkir námskeið fyrir leiðbeinendur
Á vegum Rauða krossins í Malaví starfa leiðbeinendur sem þjálfa nýja sjálfboðaliða á þessu sviði. Gaumgæfileg þjálfun gerir sjálfboðaliðana færa um að veita árangursríka fræðslu meðal jafningja sinna. Leiðbeinendurnir ferðast um landið og halda 5 daga námskeið fyrir ungmenni sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu mikilvæga forvarnarstarfi.

Hólmfríður Garðarsdóttir heilbrigðisráðgjafi Rauða krossins í Malaví hefur átt þátt í uppbyggingu starfsins.
Á vegum Rauða krossins í Malaví starfa leiðbeinendur sem þjálfa nemendur í jafningjafræðslu.

Dagana 2.-8. desember var haldið námskeið fyrir leiðbeinendur sem þjálfa sjálfboðaliða á sviði jafningjafræðslu. Námskeiðið var haldið í Lilongve, höfuðborg Malaví, en 16 ungmenni tóku þátt, bæði karlar og konur. Rauði krossinn í Malaví og Alþjóða Rauði krossinn stóðu fyrir námskeiðinu með fjárhagslegum stuðningi frá Rauða krossi Íslands. Að námskeiðinu loknu fengu þátttakendur leiðbeinendaskírteini sem veita þeim rétt til að halda námskeið fyrir sjálfboðaliða á sviði jafningjafræðslu.

Fræðsla sem ber árangur
Á námskeiðinu var lögð áhersla á að þjálfa nemendur í ýmsum kennsluaðferðum sem eru líklegar til að bera árangur. Þátttakendur fengu líka fræðslu um kynferði, kynlíf, tjáskipti, lífsleikni, getnaðarvarnir, unglingsþunganir, alnæmi, þroskaferil ungmenna, misnotkun vímuefna og kynbundið ofbeldi. Að fræðslunni lokinni fá ungmennin handbók um jafningjafræðslu með leiðbeiningum, myndum og hugmyndum að leikjum sem hægt er að nota í áframhaldandi fræðslustarfi. Kennsluefnið er hannað af Alþjóða Rauða krossinum í nánu samstarfi við landsfélög Rauða krossins í sunnanveðri Afríku.

Markhópurinn er á aldrinum 10-24 ára

Talið er að helmingur þeirra sem smitast af alnæmi í sunnanverðri Afríku séu yngri en 24 ára, mest ungar stúlkur. Með því að breyta hegðun þessa hóps standa miklar vonir til þess að hægt sé að draga verulega úr nýju alnæmissmiti í héraðinu. Með jafningjafræðslu Rauða krossins er mest áhersla lögð á að ná til pilta og stúlkna á aldrinum 10-24 ára, bæði skólakrakka og annarra ungmenna.