Danskar stúlkur ganga fyrir afrískar systur sínar

Mantoe Phakati

21. des. 2009

Fremur óvenjuleg sjón blasti við vegfarendum á götum Kaupmannahafnar þegar 45 danskar skólastúlkur gengu um borgina með stóra brúsa á höfðinu fulla af vatni.

Stelpurnar vöktu mikla athygli þegar þær komu að Bella Centre þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram. Markmiðið var þó ekki að beina augum vegfarenda að þeim sjálfum, heldur að vekja almenning til umhugsunar um málstað sem skiptir konur í Afríku mjög miklu máli.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á vatnsöflun og lífskjör ungra stúlkna
Í Afríku þurfa jafnöldrur þessara vestrænu stúlkna að sækja vatn langar leiðir og bera níðþunga brúsa heim á höfði sér. Loftslagsbreytingar valda því að sífellt erfiðara verður að afla drykkjarvatns í álfunni og af þeim sökum verður líf ungra afrískra stelpna æ harðara.

„Stúlkurnar bera ábyrgð á því að sækja vatn úr brunnum, ám og öðrum vatnsbólum, oft mjög langt frá heimili þeirra,“ sagði Charlotte Uhel (12). „Þetta veldur því oft að stúlkur geta ekki farið í skóla.“

Uhel, eins og stöllur hennar, er nemandi við alþjóðlegan skóla í Horsholm, sem er í 30 km fjarlægð frá Kaupmannahöfn.

„Við eigum systurskóla í  Keníu, Grunnskólann í Baharini, og við þekkjum mjög vel þá erfiðleika sem jafnöldrur okkar þar þurfa að ganga í gegnum á hverjum degi,“ sagði Uhel.

Stúlkurnar gengu 6 kílómetra með vatnsílátin á höfðinu, en það er meðalvegalengdin sem konur í Afríku þurfa að ganga til að sækja vatn, oft meira en tvisvar á dag.

„Með þeim loftslagsbreytingum sem eiga sér stað núna eykst þessi vegalengd jafnt og þétt. Með hverjum degi verður minna af vatni nálægt heimilum fólks,“ sagði Anne Mette Meyer, ráðgjafi Danska Rauða krossins um loftslagsbreytingar. „Það er þess vegna sem þessar stúlkur á aldrinum 8-15 ára ákváðu að sýna afrískum stöllum sínum samstöðu.“

Samþykktir loftslagsráðstefnunnar skipta miklu fyrir afrískar konur
„Ef loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna kemst ekki að lagalega bindandi niðurstöðu munu milljónir manna þurfa mjög mikla aðstoð“, sagði Meyer. „Nú þegar ríkir alvarlegur vatnsskortur víða í Afríku og jafnvel þó að vissulega sé brýnt að draga úr gróðurhúsaáhrifum þá má ekki gleyma því að við verðum líka að hjálpa fólki að takast á við þær loftslagsbreytingar sem þegar hafa átt sér stað," sagði Meyer.

Stúlkurnar voru fjörugar og kraftmiklar þegar þær voru að fylla brúsana sína af vatni. Þær lögðu af stað frá Kongens Nytorv brosandi og hlæjandi og stefndu á Bella Centre, þar sem loftslagsráðstefnan fer fram.

En þær voru ekki eins kátar og líflegar þegar þær komu á leiðarenda þar sem Madeleen Helmer, yfirmaður loftslagsmiðstövar Rauða krossins tók á móti þeim.

„Ég er mjög þreytt," sagði Tina Krume, tólf ára stúlka. „Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir stúlkur að ganga með þungar fötur á höfði sér á hverjum degi."

Stúlkurnar voru vonsviknar að þær skyldu ekki komast inn í Bella Centre. Gríðarlegur mannfjöldi var saman kominn fyrir framan bygginguna og þær urðu að leggja niður byrðar sínar í fimm hundruð metra fjarlægð frá dyrunum. Þrátt fyrir það fannst þeim að þær hefðu náð markmiði sínu.

„Þær gerðu það sem þær ætluðu sér með því að fara út á götu og dreifa upplýsingum um erfiðleikana sem fylgja vatnsöflun í Afríku. Með þessu frábæra framtaki hafa stúlkurnar vakið mikla athygli á góðum málstað," sagði Helmer.