Hlín komin til Port-au-Prince

17. jan. 2010

Hlín Baldvinsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross islands, er nú komin til Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí. Tæplega 200 alþjóðlegir sérfræðingar Rauða krossins eru nú að störfum á hamfarasvæðinu auk þúsunda sjálfboðaliða Rauða krossins í Haítí.

Neyðarteymi Rauða krossins vinna nú að því að setja upp vatnshreinsistöðvar á opnum svæðum þar sem fólk hefur safnast saman og hefst við undir beru lofti. Þegar hefur tekist að koma upp búnaði sem þjónar þúsundum manna. Tjaldsjúkrahús með aðstöðu til að framkvæma flóknar skurðaðgerðir og annast slasaða hafa verið reist, og eins eru færanleg sjúkrateymi að störfum um borgina. Þá verður unnið að því að setja sem fyrst upp bráðabirgðaskýli fyrir heimilislausa.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí hafa verið að störfum frá því skjálftinn reið yfir og hafa unnið þrekvirki á undanförnum dögum í að veita slösuðum aðstoð og við dreifingu hjálpargagna. Hér má sjá myndir af sjálfboðaliðum að störfum: http://www.ifrc.org/photo/haiti0110_4/index.asp.

Meðal þeirra sem hefur verið bjargað af Rauða krossinum er Deborah Fatima sem er eins mánaðar gömul. Hún missti móður sína í skjálftanum. Hún er hér í umsjá Rauða kross sjálfboðaliðans Jean Zacharie sem gerði að sárum hennar.