Rauði krossinn og Slökkviliðið senda sjúkraflutningamann til starfa á Haítí

12. mar. 2010

Sigurjón Valmundsson, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður, heldur til Haítí á morgun, laugardaginn 13. mars, til starfa fyrir Rauða kross Íslands. Sigurjón mun starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, um 70 km. fyrir utan Port-au-Prince.

Rauði krossinn er þar með tvö skurðlækningateymi auk þess að sinna almennri heilsugæslu á svæðinu sem varð mjög illa úti í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Haítí fyrir réttum tveimur mánuðum. Sigurjón mun starfa bæði sem sjúkraflutningamaður fyrir Rauða kross spítalann og sem bráðatæknir við að veita sjúklingum fyrstu aðhlynningu.

Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins ásamt Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðstjóra SHS undirrita samkomulagið.

För Sigurjóns markar tímamót í samstarfi Rauða kross Íslands og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem hafa gert með sér samkomulag um að Rauði krossinn sjái um þjálfun starfsmanna þess til þátttöku í alþjóðlegu hjálparstarfi en Slökkviliðið veiti þeim launað leyfi til neyðarstarfa. Slökkviliðið skuldbindur sig til að losa starfsmenn með sólarhringsfyrirvara þegar slík beiðni berst frá Rauða krossinum.

Sigurjón hefur starfað með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðan 1990 og hefur mikla alþjóðlega starfsreynslu, meðal annars með íslensku friðargæslunni. Hann hefur starfað um árabil sem leiðbeinandi í skyndihjálp fyrir Rauða kross Íslands, en þetta er í fyrsta sinn sem Sigurjón sinnir alþjóðlegu hjálparstarfi fyrir Rauða krossinn.