Fjórtándi hjálparstarfsmaður Rauða krossins til starfa á Haítí

31. mar. 2010

Valgerður Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, heldur til Haítí þriðjudaginn 6. apríl til starfa fyrir Rauða kross Íslands. Valgerður hefur áður starfað í neyðarverkefnum Rauða krossins í Pakistan og Írak. Hún er fjórtándi hjálparstarfsmaðurinn sem Rauði kross Íslands sendir til Haítí.

Valgerður mun starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Petit Goave, um 70 km. fyrir utan Port-au-Prince. Rauði krossinn er þar með tvö skurðlækningateymi auk þess að sinna almennri heilsugæslu á svæðinu sem varð mjög illa úti í jarðskjálftanum mikla sem reið yfir Haítí fyrir réttum tveimur mánuðum. 

Núna eru tveir aðrir sendifulltrúar Rauða kross Íslands að störfum á Haítií: Sigurjón Valmundsson, sem starfar sem bráðatæknir á sjúkrahúsinu sem Valgerður mun einnig vinna á og Kristjón Þorkelsson sem er margreyndur hjálparstarfsmaður á sviði vatnshreinsimála.

Lilja Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, sem hefur starfað við tjaldsjúkrahús þýska og finnska Rauða krossins í Carrefour, úthverfi Port-au-Prince, síðan um miðjan febrúar er væntanleg heim 2. apríl.

Frá því að jarðskjálftinn reið yfir um miðjan janúar hefur Rauði kross Íslands sent fjármálafulltrúa, átta heilbrigðisstarfsmenn, sérfræðing í hreinsun vatns, og fjóra sérfræðinga sem unnu með alþjóðlegu teymi að skipulagningu uppbyggingarstarfs Alþjóða Rauða krossins næstu þrjú árin.

Hjálparsamtök vinna nú í kappi við tímann að dreifa efni til þeirra 1,3 milljóna manna sem misstu heimili sín í skjálftanum áður en regntíminn gengur í garð af fullum krafti í apríl. Rauði krossinn óttast að ástandið eigi eftir að versna til muna meðan á regntímabilinu stendur, og er hlutverk heilbrigðisstarfsmanna mjög mikilvægt á næstu mánuðum.