Berum við ábyrgð á stríðsglæpum?

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra og Þóri Guðmundsson sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

20. apr. 2010

Upptakan af drápum bandarískra þyrluflugmanna á almennum borgurum í Írak hefur gefið okkur sjaldgæfa innsýn í raunveruleika stríðs.

Við sjáum líka hvernig átök hafa breyst þannig að í augum sumra minna þau á tölvuleik. Þjáningar þeirra sem verða fyrir byssukúlum og sprengjum eru hins vegar þær sömu. Kvöl ástvina minnkar ekkert þó skotið hafi verið úr fjarlægð með hjálp myndavéla og tölva.

Ef við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að koma í veg fyrir hrylling af þessu tagi eigum við að gera tvennt: Vinna af öllum mætti að friðsamlegri lausn deilumála og efla og treysta þá samninga sem binda hendur vígamanna.
Þegar svissneski kaupsýslumaðurinn Henri Dunant kom að Heljarslóðaorrustu við Solferino fyrir 150 árum lét hann sér ekki nægja að hrista höfuðið og býsnast yfir forheimsku stríðs. Hann hjúkraði hinum særðu, stofnaði Rauða krossinn og hvatti ráðamenn um allan heim til að semja um friðhelgi stríðssærðra og hjúkrunarfólks.

Fimm árum eftir Heljarslóðarorrustu var fyrsti Genfarsamningurinn orðinn að veruleika.

Enn í dag er verið að styrkja lög um framferði í stríði á ýmsan hátt. Nýlega gekk í gildi samningur sem takmarkar notkun á klasasprengjum. Jarðsprengjur hafa verið bannaðar. Ýmis vopn sem valda miklum skaða bæði á mönnum og umhverfi hafa verið gerð útlæg.

Við Íslendingar getum eins og allir aðrir tekið virkan þátt í að móta þessar hömlur á hroðaverkum. Íslendingar hafa skrifað undir Genfarsamningana og því gilda þeir einnig um okkur eins og aðra. Fyrsta grein Genfarsamninganna er svona:

„Hinir háttvirtu samningsaðilar skuldbinda sig til þess að virða samning þennan og tryggja að hann sé virtur í hvívetna."
Við erum sumsé ekki áhorfendur. Við berum ábyrgð, meðal annars á því að aðrir fari að lögunum.

Myndirnar úr þyrlunni í Írak hafa fært mörgum sönnur um að Genfarsamningarnir séu ekki alltaf virtir. En viðbrögð við birtingu þeirra sýna okkur líka að samningarnir eru hið alþjóðlega viðmið sem aðgreinir hernaðaraðgerðir sem alþjóðasamfélagið hefur með samningum skilgreint sem réttlætanlegar frá fordæmanlegum fólskuverkum.